Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 16:44:18 (3062)

2000-12-08 16:44:18# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[16:44]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. ætti bara að eiga orðastað við hæstv. forsrh. (ÖS: Hvar er hann?) Ég veit ekki hvar hann er.

Ég hlustaði á hann segja að hann hefði ekki áhyggjur af þeim vexti viðskiptahallans sem stafaði af nýrri uppgjörsaðferð. Þannig skildi ég hann. Hins vegar hef ég oft heyrt hann hafa áhyggjur af viðskiptahallanum og veit um engan mann sem hefur ekki áhyggjur af viðskiptahallanum bæði hérlendis og erlendis, alveg sama hvaða þjóð hann tilheyrir.

Ég fór yfir skýrslu OECD um afkomu hins opinbera. Ég bar fram tölur úr þeirri skýrslu um afkomu hins opinbera. Það er rangt sem þingmaðurinn segir að ég hafi haldið því fram að allar tölur varðandi efnahagslíf Íslendinga væru jákvæðar og góðar, langt í frá. Viðskiptahalli hér er óeðlilega hár í samanburði við OECD og vextirnir hér eru óeðlilega háir.