Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 16:46:45 (3064)

2000-12-08 16:46:45# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[16:46]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Áratugum saman voru flestir sammála um að halli á ríkinu, á ríkissjóði, væri aðalorsök þess efnahagsöngþveitis sem ríkti hér áratugum saman. Sumir menn reyndu ranglega að kenna verkalýðshreyfingunni um þetta. Áratugum saman var óreiða á ríkisfjármálunum sem olli þeirri óreiðu sem var hér í efnahagslífinu.

Á þessu hefur orðið grundvallarbreyting á þessum áratug. Ríkissjóður Íslands er mjög sterkur. Það er afgangur og hér hefur árum saman verið afgangur á ríkissjóði og það sem meira er um vert, það er gríðarlega mikill lánsfjárafgangur sem hefur sannarlega orðið til að styrkja efnahagslífið. Þetta er hin mikla stóra breyting sem átt hefur sér stað á þessum áratug frá því sem áður var.