Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 18:59:36 (3078)

2000-12-08 18:59:36# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[18:59]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. forsrh. segir hér allt í lukkunnar velstandi, neysluæðinu virðist lokið, segir hann. Ég er ekki alveg viss um að neysluæðinu sé lokið hjá efnafólkinu sem hefur helst tekið þátt í því æði, ég er ekki viss um að það hafi lokið sér af.

Hæstv. forsrh. verður tíðrætt um þumalputtareglur í hagfræði. Hæstv. forsrh. varð frægur að endemum fyrir að beita þumli sínum við áætlanagerð sem borgarstjóri í Reykjavík. Þumallinn borgarstjórans reyndist hvorki honum né borgarbúum góður vegvísir og vísa ég þar í áætlanagerð við Perluna og Ráðhúsið svo dæmi sé tekið.

[19:00]

Ég hef áður heyrt útreikninga og vangaveltur hæstv. forsrh. á viðskiptahallanum og breyttu eðli hans. Ég heyrði þær útskýringar þegar viðskiptahallinn nam á milli 6 og 7% af landsframleiðslu. Nú er hann kominn um 9% og stefnir enn upp á við og enn er allt í lukkunnar velstandi.

En spurningin sem ég vil beina til hæstv. forsrh. er þessi: Á þetta við um alla Íslendinga? Á það við um það fólk sem er húsnæðislaust í Reykjavík, svo dæmi sé tekið, að allt sé í lukkunnar velstandi? Fróðlegt væri að heyra útskýringar hæstv. forsrh. á því og hverjum orðum hann beinir til þess fólks.