Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 19:42:45 (3082)

2000-12-08 19:42:45# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, Frsm. 1. minni hluta ÖS
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[19:42]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Mér er sönn ánægja að halda þessa ræðu yfir nokkuð vel skipuðum þingsal og má eiginlega segja að hér sé athygli allra viðstaddra á fullu. (JB: Já.) Og hv. þm. Jón Bjarnason gellur við og segir já, og ekki dreg ég það í efa því hv. þm. er einn af þeim sem eru jafnan með athyglisnetið uppi.

Herra forseti. Þessi umræða hefur staðið í hartnær heilan dag og ákaflega margt fróðlegt hefur komið fram. Kannski má segja það að eins og umræðunni hefur undið fram þá er ekki miklu við hana að bæta. Hv. þm. Samfylkingarinnar, Einar Már Sigurðarson og Gísli S. Einarsson, hafa talað áður af hálfu flokks míns í dag. Við höfum skipt með okkur verkum þannig að hv. þm. Gísli S. Einarsson fjallaði um fjárlagafrv. almennt, hv. þm. Einar Már Sigurðarson fór yfir þær brtt. sem við höfum gert við fjárlagafrv. en ég mun hins vegar reyna að einbeita mér að þeim stóru dráttum efnahagsmálanna sem máli skipta.

Ég sagði áðan, herra forseti, að e.t.v. væri ekki miklu við að bæta. Þó má segja að miðað við hinar síðustu ræður sem hér voru haldnar, þ.e. af hæstv. forsrh., sé ýmislegt sem þurfi að taka fram áður en umræðunni lýkur. Ég tel, herra forseti, að það hafi verið vel að verki staðið hjá hæstv. forsrh. að koma hingað og láta loksins uppi þau viðhorf sem hann hefur til helstu ágreiningsmála í efnahagsmálum. Ég vil líka óska hæstv. forsrh. til hamingju með að hafa getað komist næstum því í gegnum heila ræðu án þess að vera með hártoganir og skæting. Það er nokkur framför hjá hæstv. ráðherra vegna þess að hann virðist hvorki geta talað í þessum þingsal né í fjölmiðlum um efnahagsmál og stjórn þeirra án þess að þurfa að lítillækka fólk og niðurlægja.

Herra forseti. Ég tel að það sé nauðsynlegt fyrir stjórnmálamenn sem ætla sér að bera ábyrgð, ég tala nú ekki um axla ábyrgð eins og hæstv. forsrh., að reyna að beita sér fyrir málefnalegri umræðu. Það hefur Samfylkingin gert. Við ætlum ekki að sökkva niður á það plan sem hæstv. forsrh. hefur sokkið.

[19:45]

Ég get þó ekki stillt mig um, herra forseti, að geta þess að það var dálítið kaldhæðnislegt að það skyldi einmitt vera hæstv. forsrh. sem var með leiðbeiningar til þingmanna um að lesa nákvæmlega plögg eins og þjóðhagsspána áður en þeir tækju til máls um hana með tilliti til þess að það var einmitt sami hæstv. forsrh. sem las ekki þau gögn sem komu frá Framkvæmdasýslu ríkisins í sjö mánuði og leiddi til þess að Þjóðmenningarhúsið fór 100 millj. fram úr áætlun. Það er ákaflega mikilvægt að þetta komi fram.

En hví er það að ég segi að ræða hæstv. forsrh. hafi verið mikilvæg? Hún var mikilvæg fyrir tveggja hluta sakir. Í fyrsta lagi kom það fram að hæstv. forsrh. er enn á sömu skoðun varðandi viðskiptahallann og áður. Hæstv. forsrh. er bersýnilega þeirrar skoðunar, eins og kom fram í ræðu hans fyrr í dag, að viðskiptahallinn veki ekki ástæður til uggs varðandi framtíð efnahagsmála á Íslandi. Hæstv. forsrh. er enn þeirrar skoðunar, sem hann hefur verið áður, að viðskiptahallinn sé góðkynja og ekki sé líklegt að af honum stafi nokkur hætta.

Í öðru lagi kom fram að það er ljóslega ágreiningur á milli stjórnarflokkanna tveggja. Hæstv. forsrh. hafnaði því að staðfesta að það væru hættumerki í efnahagslífinu.

Það er hins vegar svo að kollegi hans og samstarfsmaður, hæstv. utanrrh., hefur í heilli opnu í dagblaði, sem gefið er út hér í borg, lýst því í smáatriðum hvað honum finnst athugavert við efnahagslífið. Hann hefur sagt að hættumerki séu fram undan og hann hefur sérstaklega tilgreint vexti. Við í stjórnarandstöðunni erum honum auðvitað sammála um að vaxtaníðslan, sem er nú að plaga fjölskyldur landsins, er mikil vá, en, herra forseti, við vísum því hins vegar til föðurhúsanna. Sökin á þessari vaxtastefnu á hvergi heima nema einmitt fyrir dyrum hæstv. ríkisstjórnar.

Það skiptir máli að hæstv. forsrh. er bersýnilega á annarri skoðun en hæstv. utanrrh. og hv. þm. Jón Kristjánsson, sem gengur nú í salinn skörulegur að vanda, og hefur lýst með svipuðum hætti og hæstv. utanrrh. afstöðu sinni til efnahagsmála. Þetta er ákaflega mikilvægt, herra forseti. Það liggur sem sagt fyrir að það er í reynd ágreiningur uppi innan ríkisstjórnarinnar um það hvert efnahagsmálin stefna. Þegar hæstv. forsrh. segir að allt sé í himnalagi, allt á góðu róli, en hæstv. formaður Framsfl., utanrrh., segir að það séu hættumerki uppi er alveg ljóst að menn greina ástandið með mismunandi hætti og þeir eru heldur ekki sammála um hvað er að gerast.

Herra forseti. Það er dálítið kaldhæðnislegt að sjá það að hæstv. forsrh. virðist ekki einu sinni muna eftir þeirri litlu hagfræði sem hann lærði þó í stopulum tímum í hagfræði þegar hann tók embættispróf í lögfræði við Háskóla Íslands á sínum tíma. Þar fara menn yfir grundvallarstærðir í hagfræði og þjóðhagfræði. Hæstv. forsrh. virðist öllu hafa gleymt síðan þá. Hann talar eins og hann geri sér enga grein fyrir þeim orsakatengslum sem eru á milli viðskiptahalla, gengis og verðlags. Hann hefur að vísu skilið tvo hluta af þremur í þessari jöfnu, þ.e. hæstv. forsrh. gerir sér grein fyrir því að þegar gengið brestur þá hækkar verðlag. En af öllu máli hæstv. ráðherra er ekki hægt að skilja að hann geri sér grein fyrir því að viðskiptahallinn er hættulegur vegna þess að hann setur þrýsting á gengið sem sekkur við vissar aðstæður. Það er það sem hefur gerst, herra forseti.

Það er eitt sem hæstv. forsrh. virðist algjörlega gleyma þegar hann ræðir um efnahagsmálin. Hann deilir við okkur í þessum sal um hvort viðskiptahallinn sé illkynja eða góðkynja en hann gleymir einu: Hvernig á að fjármagna viðskiptahallann, herra forseti? Það er spurningin sem skiptir ákaflega miklu máli í þessu dæmi. Viðskiptahallinn felur í sér útstreymi gjaldeyris og við þurfum á móti með einhverjum hætti að tryggja okkur innstreymi.

Þegar við blasir eins og núna að það hægir á efnahagskerfinu getur það jafnvel leitt til þess, herra forseti, að erfiðara verður að fjármagna viðskiptahallann. Hvers vegna? Vegna þess að þegar væntingar manna dofna til hins íslenska gjaldmiðils og þegar óvissa ríkir um hann eins og núna leiðir það einfaldlega til þess að menn fýsir síður að fjármagna framkvæmdir sínar með erlendum lánum og huga fremur að lántökum innan lands. Samkvæmt upplýsingum sem hægt er að fá í bönkum eru vísbendingar um nákvæmlega þetta uppi núna, herra forseti.

Viðskiptahallinn er hins vegar fyrirbæri sem, eins og hæstv. forsrh. sagði áðan, tekur talsvert langan tíma að breyta. Ég vek eftirtekt á því hvað er í reynd sagt í þjóðhagsáætlun um þetta, herra forseti. Þar er sagt að þó að hægi á vexti þjóðarhags og hagvöxtur fari úr 4% niður í 1,6% þá er það niðurstaða Þjóðhagsstofnunar að það dugi ekki til þess að draga úr viðskiptahallanum. Með öðrum orðum, herra forseti, heldur viðskiptahallinn áfram að vera til jafnmikill, meiri í krónum talinn á næsta ári, á meðan það hægir á hagkerfinu. Þegar væntingar manna til styrks gjaldmiðilsins dofna eða jafnvel bresta, eins og hefur verið að gerast, og þeir fara að taka lán innan lands getur það gerst að flæði erlends gjaldeyris inn í landið þorni upp áður en viðskiptahallinn hefur rétt sig af. Þetta er það sem hæstv. forsrh. hefur ekki skilið í þessari jöfnu.

Hann hefur ekki fyrr en á allra síðustu vikum gert sér grein fyrir því að það þarf að fjármagna viðskiptahallann. Hann hefur verið í þeirri slæmu trú að telja að viðskiptahallinn mundi gufa upp af sjálfu sér eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur tvisvar haldið fram hérna. Hann hefur ekki gert sér grein fyrir því að það þarf að fjármagna hann. Hversu mikið er það sem þarf að fjármagna hann, herra forseti? Það er fróðlegt að velta því fyrir sér.

Við stöndum frammi fyrir viðskiptahalla sem er upp á nánast 70 milljarða, a.m.k samkvæmt því sem OECD hefur spáð og hefur jafnan reynst sannspárra en innlendar stofnanir. Ofan á þetta bætist að útstreymi gjaldeyris svarar til 50--60 milljarða í gegnum lífeyrissjóðina sem leita nú að fjárfestingum erlendis. Þetta þýðir að á næsta ári þurfum við að fjármagna viðskiptahalla upp á 120--130 milljarða. Það þýðir að í hverjum einasta mánuði þurfum við að fjármagna sem svarar til 10--11 milljarða.

Ef það gerist, herra forseti, sem ég var að reifa áðan að hæging efnahagslífsins, þ.e. þegar dregur úr þenslunni eins og er væntanlega að gera núna, leiðir til þess sem við sjáum vísbendingar um núna að vegna óvissu um gengi og hættu á gengistapi skipta menn úr erlendum lánum yfir í innlend lán getur það gerst að flæði erlends fjármagns inn í landið þorni upp áður en viðskiptahallinn réttir sig af. Hvað leiðir það til, herra forseti? Það getur ekki leitt til annars en að gengið láti með einhverjum hætti undan. Það þýðir það aftur að verðlag hlýtur að breytast.

Herra forseti. Ég nefni þetta vegna þess að ég held að hæstv. forsrh. hafi gott af því að fá litla lexíu um orsakasamhengið innan efnahagsstjórnarinnar. Hann skilur nefnilega ekki part af því sem er ekki hægt að kalla annað en grundvallaratriði í þessu máli. Ég er sem sagt þeirrar skoðunar að vegna þessa vanskilnings hæstv. forsrh. þá stöndum við núna frammi fyrir þeirri staðreynd að menn vakna allt í einu upp við vondan draum og gera sér grein fyrir því að það þarf með einhverjum hætti að grípa í taumana. Það er loksins að renna upp fyrir mönnum. Það gerðist ekki fyrr en á allra síðustu dögum. Hvað ætla menn þá að gera, herra forseti?

Þá ætla þeir að selja eignir ríkisins, dýrustu gripina úr pússi hinnar íslensku þjóðarfjölskyldu. Það á að gera með því að selja Landssímann og mögulega bankana, annaðhvort ríkisbankana sinn í hvoru lagi eða sameinaðan banka. En, herra forseti, ég er algjörlega á móti því að menn grípi til þeirra ráða. Segjum samt sem áður að það gangi allt saman eftir, ríkisstjórnin hafi sinn gang og það eigi að vera bjargræðið, þá verð ég eigi að síður að halda því fram, herra forseti, að menn séu of seint á ferðinni. Ég held að menn séu u.þ.b. einu ári of seint á ferðinni ef þeir ætla að fara þessa leið.

Hvað er það þá í reynd sem verður að gerast? Það þarf með einhverjum hætti að auka hinn þjóðhagslega sparnað og það þarf eins og sakir standa að draga úr einkaneyslunni til að draga úr innflutningi og minnka viðskiptahallann. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að gera það? Hún hefur ekki sagt það en talsmaður Sjálfstfl. sem hefur nánast einn, þangað til hæstv. forsrh. ræddi hér fyrr í kvöld, rætt málin fyrir hönd Sjálfstfl. Hv. varaformaður fjárln., Einar Oddur Kristjánsson, er eini maðurinn sem hefur sett fram einhverjar hugmyndir um það.

Þær hugmyndir eru hins vegar af því tagi að það er með engu móti hægt fyrir okkur í stjórnarandstöðunni að fallast á þær. Í reynd hefur hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagt að ástæðan fyrir viðskiptahallanum sé falskur kaupmáttur sem haldið sé uppi af hávaxtastefnu Seðlabankans. Í reynd er hv. þm. að segja að þegar Seðlabankinn heldur uppi háum vöxtum leiði það til þess að gengið hækkar og innflutningur verður ódýrari og vegna þess, eins og hæstv. forsrh. greindi frá hér fyrr í kvöld, að innflutningur er svo hátt hlutfall af neyslu landsmanna leiðir þessi hávaxtastefna til þess samkvæmt greiningu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar að til verður falskur kaupmáttur sem stendur undir viðskiptahallanum.

Ég er auðvitað allt annarrar skoðunar en hv. þm. En því miður þá dregur hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson af þessu eina ályktun. Til þess að draga úr kaupmættinum þá vill hann lækka gengið. Þá er komið að þverstæðunni innan Sjálfstfl., herra forseti.

Sjálfstfl. berst fyrir því á annan bóginn að lækka verðlag, halda verðbólgu niðri, m.a. til þess að koma í veg fyrir að forsendur samninga á almennum vinnumarkaði bresti og allt fari í átök og bál og brand. Á hinn bóginn virðist vera uppi ákveðin stefna sem ekki bara hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson heldur líka Pétur H. Blöndal hefur lýst fylgi við sem byggir á allt öðru, sem byggir ekki á því að halda genginu stöðugu uppi heldur byggir á því að lækka gengið til að draga úr kaupmætti og þar með að lækka og rýra kjör fólksins í landinu. Herra forseti. Í reynd felur þetta í sér það viðhorf að það séu fjölskyldurnar í landinu, það sé barnafólkið, sem er að berjast við það að koma sér upp húsnæði og koma sér í þá stöðu að geta bætt lífsgæði sín, sem á að borga fórnarkostnaðinn af mistökum ríkisstjórnarinnar.

Herra forseti. Hver eru mistökin? Við verðum ákaflega oft fyrir því, þingmenn stjórnarandstöðunnar, að vera spurð bæði af hv. þm. stjórnarliðsins og eins fjölmiðlum: Hvað viljið þið gera? Það er ákaflega auðvelt að segja við þann sem fer með brunavarnaeftirlitið og gerir tillögur um brunavarnir að spyrja: Bíddu, hvernig viltu slökkva eldinn þegar búið er að kveikja í? Herra forseti. Það er auðvitað það sem hefur gerst.

Við þingmenn Samfylkingarinnar höfum um langt skeið varað við þessari þróun. Við byrjuðum á því, herra forseti, í kosningabaráttunni og uppskárum fyrir flím og spott, m.a. frá formanni Sjálfstfl. og ýmsum öðrum, að vara við því í því góðæri sem þá var að sigla hratt upp á við færu menn í það að lækka skatta.

Hvers vegna vorum við á móti því, herra forseti? Vegna þess að samkvæmt undirstöðubókum í byrjendahagfræði er það það heimskulegasta sem menn gera í aðdraganda og byrjun góðæris að lækka skatta. Hvers vegna? Vegna þess að það ýtir undir mjög mikla þenslu. Það er undirrót allra þeirra meinsemda sem við erum að glíma við í dag. Við vöruðum við þessu, herra forseti, og það þurfti talsverðan kjark til að gera það í miðri kosningabaráttu.

Herra forseti. Í annan stað lögðumst við eindregið gegn þeirri aðferð sem beitt var í fyrstu lotu einkavæðingar ríkisbankanna. Eins og menn muna fóru menn þá leið að selja nýtt hlutafé úr bönkunum í staðinn fyrir að selja hluta af því gamla. Þetta leiddi til þess, herra forseti, að eigið fé bankanna jókst og þeir áttu auðveldara með að verða sér úti um lánsfé í útlöndum án þess að reglur um eiginfjártakmarkanir tækju að bitna á þeim. Þetta gerðu bankarnir svikalaust. Hvers vegna? Vegna þess að það lá fyrir að fram undan var uppstokkun á bankamarkaði og þeir voru allir að hasla sér völl, auka hlutdeild sína, til að vera reiðubúnir undir þessa uppstokkun.

Herra forseti. Þetta tel ég að hafi kannski verið sú einstaka aðgerð sem á mesta sök á þenslunni eins og hún brast á síðar. Þetta voru líklega stærstu mistök ríkisstjórnarinnar.

Í þriðja lagi nefni ég það, herra forseti, að við höfum heyrt a.m.k. tvo hagfræðinga undanfarið tala um það í fjölmiðlum að sálfræði skipti ákaflega miklu máli um neysluhegðun. Við höfum heyrt m.a. aðalhagfræðing Seðlabankans segja þetta í sjónvarpsþætti og reyndar í sama sjónvarpsþætti, bara nokkru síðar, einn af fyrrverandi æðstu mönnum Seðlabankans, Yngva Örn Kristinsson. Báðir sögðu þeir að það skipti ákaflega miklu máli um neysluhegðan almennings hvaða væntingar væru til framtíðarinnar.

Þarf að rifja það upp, herra forseti, hve oft hæstv. forsrh. hefur brugðist þeirri skyldu sinni að vara við þeim hættumerkjum sem skotið hefur upp á sjóndeildarhringinn?

[20:00]

Þarf að rifja það upp hversu oft hæstv. forsrh. hefur sagt við þjóðina að góðærið, sem við höfum upplifað, sé ekki bara komið til þess að vera í nokkur ár heldur sé það nánast varanlegt? Þarf að rifja það upp að hæstv. forsrh. ...

(Forseti (ÍPG): Má ég biðja hv. þingmenn að gefa hljóð í salnum?)

Herra forseti. Ég geri engar athugasemdir við kliðinn, hann vekur bara með mér nokkuð þægilegar kenndir og ég veit að það er a.m.k. fólk í kringum mig.

Herra forseti. Þarf ég að rifja upp að hæstv. forsrh. boðaði til sérstaks blaðamannafundar í febrúar 1999? Til hvers? Tilgangurinn var bara einn, að segja þjóðinni að fram undan væru góðæristímar í þrjú til fjögur ár. Að vísu var það svo að hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. og leiðtogi lífs þessara tveggja ágætu þingmanna Framsfl., sem eru hér í salnum, tók þátt í þessari svikamyllu, hann tók þátt í því að lýsa þessu yfir.

Herra forseti. Ég skil mætavel að a.m.k. kjósendur þessara flokka og ýmsir meðal þorra almennings, sem hafa ekki tekið harða pólitíska afstöðu, taki mark á svona mönnum. Þegar menn eins og formenn stjórnmálaflokka tala leggja menn við hlustir og þeir trúa á þá. Þegar það gerist síðan að hæstv. forsrh. kemur fram og segir aftur og aftur og allar götur þangað til í gærkvöld að allt sé á fínu róli þá trúa menn því auðvitað. Kannski ekki lengur en þeir gerðu það lengi. Þetta leiddi til þess, herra forseti, að menn fóru fullfrjálslega með neyslusvigrúm sitt. Þetta, samhliða því að bankarnir fóru í slag um hlutdeildina á markaðnum og ýttu út á vildarkjörum, á tombóluprís, öllum þeim peningum sem þeir slógu í útlöndum, leiddi til gríðarlegrar þenslu. Síðan kemur hæstv. forsrh. og talar um að olíuverð sé að hækka í útlöndum og svo hafi fasteignaverð hækkað líka.

Bíðum nú við, þetta er alveg hárrétt hjá hæstv. forsrh. Þensla á fasteignamarkaði á suðvesturhorninu á mikinn þátt í þessu. Hverjir tóku olíutunnuna og fleygðu henni bókstaflega á þann part verðbólgubálsins? Hv. þingmenn Framsfl., hv. þingmenn stjórnarliðsins, fyrst og fremst hæstv. ráðherrar.

Ef við skoðum húsnæðismálin blasir það við að gerðar voru breytingar á húsbréfakerfinu fyrir nokkrum árum, greiðslumatinu breytt, það var opnað. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, sem þekkir þessi mál gerst á meðal vor, varaði við þessu. Það var heldur ekkert til vinsælda fallið að koma fram og segja: Þetta er líklegt til að leiða til þess að verðbólgan aukist og vanskil aukist. Hv. þm. gerði það, við gerðum það, allt gekk það eftir.

Kerfið sprakk á tveimur árum. Það fór úr 16 milljörðum í 30 milljarða. Árið 1999 stóðu þessir hv. þm. að því að brjóta lög með vissum hætti, þ.e. þá fóru menn 7 milljörðum fram úr heimildum fjárlaga um einmitt þetta kerfi.

Auðvitað var þetta ekki annað en jafngilt því að fleygja olíu á verðbólgubálið. Svo kemur hæstv. forsrh. og segir: Þetta er ekki mér að kenna, það er svo mikil þensla. Maðurinn sem ber ábyrgð á þessari þenslu.

Herra forseti. Þannig væri hægt að telja miklu fleiri hluti. Ég ætla að leyfa mér að nefna eitt dæmi til viðbótar þar sem stjórnarandstaðan, ekki bara Samfylkingin heldur líka vinstri grænir, vöruðu við. Það er nýjasta dæmið. Það var breytingin á lögum um lífeyrissjóðina sem samþykkt var í vor. Það er líklega síðasta árið með þeim heimskulegustu aðgerðum sem gerðar hafa verið með tilliti til verðlagsmála til skamms tíma. Þá gerðist það að hæstv. ríkisstjórn beitti sér fyrir því að heimildir lífeyrissjóðanna til þess að fjárfesta erlendis voru auknar varðandi eigið fé úr 40% yfir í 50%. Okkur var síðan sagt frá því í þessum sölum að það væri eiginlega enginn sem nýtti sér þetta. Þingmenn Samfylkingarinnar hafa hins vegar aflað sér upplýsinga um að það eru allnokkrir lífeyrissjóðir sem eru komnir að þessum mörkum.

Herra forseti. Á þessum tíma voru ekki uppi neinar sérstakar væntingar meðal lífeyrissjóðanna um að gera þetta. En þegar ríkisstjórnin beitir sér fyrir svona jafngildir það því að verið sé að gefa lífeyrissjóðunum bendingu, hvata til þess að flytja fé sitt úr landi. Auðvitað er ég viss um að til langs tíma litið er þetta hluti af þeim áætlunum sem lífeyrissjóðirnir hafa gert. Auðvitað mun þetta til skamms tíma grafa undan genginu. Það er alveg sama hvert er litið, það er hægt að benda á fjölmörg mistök sem öll má rekja til aðgerða ríkisstjórnarinnar.

Ég hef að mér finnst rakið í tiltölulega stuttu máli mistökin sem ríkisstjórnin gerði og ég get þess vegna tekið undir með hæstv. forsrh. þegar hann kemur og segir: Þetta á sér allt saman eðlilegar skýringar. Hæstv. forsrh. sagði það í dag, tuggði það í morgun og í gær í sjónvarpinu og útvarpinu, að þessi staða ætti sér öll eðlilegar skýringar. Þessar skýringar eru þessi fimm mistök ríkisstjórnarinnar sem ég hef talið upp. Þessar eðlilegu skýringar eru sú staðreynd að aldrei var hlustað á það þegar Samfylkingin varaði við viðskiptahallanum. Hæstv. forsrh., sem virðist ekki hafa meira vit á viðskiptahalla en unglingur í gagnfræðaskóla eða grunnskóla, kom aftur og aftur og sagði við þjóðina að viðskiptahallinn væri ekki neitt sem menn þyrftu að óttast.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem er með allra hagfróðustu mönnum í þessum sal, hefur sagt að viðskiptahallinn muni gufa upp. Þegar hann var spurður um það af hverju það mundi gerast þá svaraði hv. þm.: Menn sjá það bara af rökhyggju sinni.

Það er þessi rökhyggja sem hv. þm. deilir með hæstv. forsrh. en enginn annar sem telur sig hafa vit á hagfræði --- og hv. þm. hefur það --- deilir þessum skoðunum. Allur fjármálaheimurinn hefur sameinast í einu slökkviliði. Það er alveg sama hvert litið er, allir hagfræðingar fyrir utan einn (Gripið fram í.) hafa varað við þessari þróun.

Ég bið hv. þm. Pétur H. Blöndal afsökunar, auðvitað er hann ekki hagfræðingur. Hann er doktor í stærðfræði. Það eru bara þessir tveir doktorar, hann og doktor Davíð Islandicus, eins og hv. þm. Sverrir Hermannsson nefndi hann hér í dag, sem eru þessarar skoðunar. Það er ekki hægt að finna nokkurn mann í íslenska fjármálaheiminum sem telur að hlutirnir séu á góðu róli. Það eru bara örfáir þingmenn Sjálfstfl. og hæstv. forsrh.

Það sem skiptir ákaflega miklu máli, herra forseti, er sú staðreynd að ekki er eining innan stjórnarinnar. Framsfl. skynjar að það eru hættumerki uppi og hann á virðingu skilið fyrir að viðurkenna það. Sjálfstfl. hafnar því algjörlega.

Það hefur borið á því, herra forseti, að undir þessari umræðu hafi hæstv. fjmrh. búið sig undir að tala. En það sem stendur upp úr 2. og 3. umr., sem hér hafa átt sér stað um ríkisfjármál, er það að hæstv. fjmrh. hefur þrumað eins og hnípinn fugl undir umræðunum. Hv. þm. Sjálfstfl., sem voru fyrr í vetur tíðir gestir í ræðustól hins háa Alþingis til þess að monta sig af afrekum flokks síns varðandi stöðu ríkisfjármála, varðandi tekjuafgang ríkissjóðs, eru hættir að koma hingað upp. Enginn tyggur þetta lengur nema hinn virðulegi hv. formaður fjárln. sem kemur stundum hér upp og tyggur það eins og gömul slitin plata þegar menn eru að spyrja hann hvar aðhaldið í ríkisfjármálum sé: Ja, það eru 34 milljarðar í tekjuafgang. (Gripið fram í.) Nei, formaður, hv. þm. Jón Kristjánsson, sem hefur líka verið málsvari hæstv. fjmrh. í þessari umræðu því að hann hefur ekki sagt eitt einasta orð, ekki eitt orð.

En hv. þm. Sverrir Hermannsson átti auðvitað eins og svo oft áður kollgátuna þegar hann skilgreindi þennan tekjuafgang ríkisins, 34 milljarða, og hann kallaði það froðufé. Af hverju er þetta froðufé, herra forseti? Nú skulum við athuga hvernig á að skilgreina þennan afgang með aðferðum Sjálfstfl.

Hv. þm. og varaformaður fjárln., Einar Oddur Kristjánsson, kenndi mér í frumbernsku minni í fjárln. eina reglu. Hann sagði: Tekjur ríkisins aukast jafnan um fjórðung af viðskiptahallanum. Hvað er viðskiptahallinn í ár? Hann er 70 milljarðar kr. Hv. stærðfræðingur, doktor Pétur, hvað er fjórðungur af 70 milljörðum? Það eru 17,5 milljarðar. Herra forseti. Þarna erum við búin að finna skýringuna á helmingi tekjuafgangsins. Hvaðan kemur hinn helmingurinn, herra forseti? Hann kemur af sölu eigna ríkisins. Ekki er hægt að kalla það aðhald þegar verið er að selja eigur ríkisins. Þarna erum við komin upp í 33 milljarða. Hvaðan kemur restin, herra forseti? Það eru peningarnir sem verið er að stela af gamla fólkinu, af bótaþegunum með því að halda skattleysismörkunum niðri.

Ef maður horfir á þetta út frá því sem þeir segja sjálfir, leggur þetta á kvarða þeirra eigin orða er þessi tekjuafgangur skandall. Þá skilur maður, herra forseti, af hverju hæstv. fjmrh. kýs að þegja í þessari umræðu vegna þess að hann hefur ekkert til þess að hrósa sér af. Vegna þess, herra forseti, að þeir standa allir berstrípaðir eins og keisarinn í sögunni. Nýju fötin eru ekki til, þau eru hjóm eitt og loft.

Herra forseti. Þetta er það sem skiptir máli. Þess vegna, af því að hv. þm. Jón Kristjánsson kímir svolítið, ætti hann að koma hér á eftir og taka því fagnandi að það vill svo til að ábyrgir menn eru til í þessu þingi. Það eru til menn í stjórnarandstöðunni sem hugsa fyrir stjórnarliðið og við höfum einmitt, herra forseti, lagt til að samþykktar séu tillögur sem gera það að verkum að tekjuafgangurinn eykst um 2,6 milljarða.

En af því að hér eru menn sem tala fyrir stjórnarliðinu í efnahagsmálum langar mig til þess að spyrja: Hvar er ávinningurinn í ríkisfjármálunum? Er þetta rangt sem ég er að segja hér, herra forseti? Ekki seljum við eigurnar aftur á næsta ári eða árinu þar á eftir. Eða ætla menn kannski að dunda sér við að halda tekjuafgangi á ríkissjóði með því að selja út næsta áratug?

Ef við tökum sölu eigna frá, herra forseti, beitum formúlu hv. varformanns fjárln., hvað er þá eftir? Ekki neitt. Þetta eru afrekin sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur a.m.k. einu sinni eða tvisvar í þessum umræðum komið upp til þess að guma af, reigt sig eins og fallegur vestfirskur hani, teygt stélið út og sagt: Sjá, þetta gerðum við.

En, herra forseti, þetta er staðan: Hæstv. forsrh. sagði áðan að viðskiptahallinn hefði ekkert breyst. Nú vill svo til, herra forseti, að það eru tvær undirstofnanir sem hæstv. ráðherra stjórnar. Önnur er Seðlabankinn, sem er ósjálfstæðasti seðlabanki í heimi, sem var samkvæmt lista kom frá OECD númer 70 á lista yfir sjálfstæðustu seðlabanka heimsins. Hann var með öðrum orðum nánast í hafti stjórnvalda samkvæmt mati OECD. (Gripið fram í.) Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, af því að það er kallað hérna fram í af hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að hann eigi að styðja Samfylkinguna í því að rífa Seðlabankann lausan úr klóm ríkisvaldsins og skiptir engu máli þó að það kynni e.t.v. að leiða til þess að ef hann settist einhvern tíma ríkisstjórn að hann hefði minni völd en ella.

En ég var þar kominn í ræðu minni, herra forseti, að ég var að lýsa því að undir forsrn. væru tvær stofnanir. Ég segi ,,undir forsrn.`` vegna þess að hæstv. forsrh. hefur valdboð yfir þeim sem véla um þjóðarhag. Annars vegar er ósjálfstæðasti seðlabanki heimsins en það er hann, herra forseti, sem hefur tekið þessar óvinsælu ákvarðanir um vextina sem þrír hv. þm. Sjálfstfl. hafa komið upp til þess að deila á. Þetta verð ég að segja, herra forseti, vegna þess að þegar þingmenn Sjálfstfl. eru að deila á Seðlabankann eru þeir í reynd að deila á hæstv. forsrh.

Dettur einhverjum þingmanni Sjálfstfl. í hug að Seðlabankinn taki ákvarðanir um vaxtahækkanir án þess að bera það undir hæstv. forsrh.? Læðist sá grunur að einhverjum að það geti kannski verið að sumar af vaxtaákvörðunum Seðlabankans eigi sér uppruna utan Seðlabankans og jafnvel í hvítu húsi sem einu sinni var fangelsi við Lækjartorg?

Herra forseti. Þjóðhagsstofnun er hin stofnunin. Það er með endemum að sjá hvernig sú stofnun hefur ruglað fram og til baka með uppgjörsaðferðir á viðskiptahallanum. Hæstv. forsrh. sagði áðan og hefur talað í fjölmiðlum að breyttar uppgjörsaðferðir Þjóðhagsstofnunar hefðu leitt til þess að á pappír hafi viðskiptahallinn aukist. Það sem er rétt í þessu hjá hæstv. forsrh. er það að Þjóðhagsstofnun er stöðugt að breyta uppgjörsaðferðum sínum. Hún hafði eina aðferð í vor. Hún breytti þeirri aðferð í haust. Hvers vegna? Vegna þess að samkvæmt nýju aðferðinni lækkaði það viðskiptahallann. Núna hefur Þjóðhagsstofnun aftur breytt yfir í sömu aðferð og hún hafði í vor. Af hverju? Vegna þess að samkvæmt þessari aðferð þá er viðskiptahallinn líka lægri. Það var rangt sem hæstv. forsrh. sagði áðan að það væri enginn munur. Ef Þjóðhagsstofnun hefði notað sömu aðferð og í haust væri viðskiptahallinn 0,4% hærra hlutfall af landsframleiðslu en hann er í dag samkvæmt núverandi mati.

Þetta skiptir ekki máli, herra forseti. Það sem skiptir máli er að núna nota Seðlabankinn og Þjóðhagsstofnun nákvæmlega sömu aðferðir til þess að meta viðskiptahallann. Eru þetta aðferðir sem eru byggðar á einhverjum loftkenndum órum starfsmanna Seðlabankans eða Þjóðhagsstofnunar? Nei, þetta eru alþjóðlegir staðlar sem byggðir eru t.d. á reglum frá, mig minnir Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þetta eru hinar ísköldu staðreyndir að viðskiptahallinn, metinn samkvæmt alþjóðlegum stöðlum, er að verða 9,3%.

[20:15]

Herra forseti. Það sem skiptir mestu máli er að þó að Þjóðhagsstofnun spái því að það kólni í hagkerfinu þá kemur líka fram í töflunni, sem hæstv. forsrh. var áðan að segja að menn hefðu ekki lesið, að sú kólnun dugir ekki til þess að draga úr viðskiptahallanum. Þá spyr ég enn og aftur, herra forseti: Er það þess vegna sem menn ráðast allt í einu í fljótræði í það að selja eigur ríkisins, að selja Landssímann? Ég spyr einkum hv. þm. Framsfl. hvort þeir ætli að láta sér það lynda að Landssíminn verði seldur með húð og hári, með dreifikerfi og öllu.

Herra forseti. Oft hef ég vorkennt félögum mínum í Framsfl. hversu valtrað er fram og til baka yfir þá af þeim mikla þunga sem Sjálfstfl. hefur yfir að ráða. Það væri hægt að taka svo ógnarmörg dæmi, herra foreti, en aldrei hefur Framsfl. tekið afdráttarlausari afstöðu gegn Sjálfstfl. en einmitt varðandi Landssímann og dreifikerfi hans. Hv. þm. Framsfl. hafa hver um annan þveran lýst því yfir að fyrr skuli þeir í pólitískum skilningi dauðir falla í valinn en að þeir láti það yfir sig ganga að dreifikerfið verði selt.

Ég rifja það upp, herra forseti, að hv. þm. Hjálmar Árnason hafði uppi ákaflega stór orð í þessa veru. Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason og núverandi virðulegur forseti talaði einnig í svipaða veru í umræðum á þingi. Hv. þm. Árni Gunnarsson, sem var inni á þingi fyrir hæstv. félmrh., talaði þó allra manna skýrast. Hvernig stendur þá á því, herra forseti, að hv. þm. Framsfl. ætla þannig að láta rífa af sér pólitíska æru sína, láta troða niður um kok og vélinda öllu því sem þeir hafa sagt í þessu máli, herra forseti, og fyrir hvað? Fyrir það sem þeir hafa sjálfir sagt í þessari umræðu vera mistök. Og mistök hverra, herra forseti? Ekki mistök Framsfl., þó að hann beri samábyrgð á því. Það eru fyrst og fremst mistök Sjálfstfl., mistök hæstv. forsrh. sem hefur lesið rangt í þróun allra hagstærða og mistök hæstv. fjmrh. sem valda því að eina leiðin til að bjarga málunum eins og komið er fyrir efnahagsmálum er að selja eigur ríkisins, er að selja Landssímann. Þetta ætla hv. þm. Framsfl. að láta yfir sig ganga þó að þeir geti með sanni sagt að þeir beri enga faglega ábyrgð á þessum mistökum.

Herra forseti. Ég vorkenni félögum mínum í Framsfl. en lýsi því yfir að ég er reiðubúinn til að gera það sem ég get til að rífa þá úr þessum heljarklóm og leyfa þeim að endurheimta aftur pólitíska æru sína og pólitískan heiður sinn.