Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 20:20:47 (3084)

2000-12-08 20:20:47# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, Frsm. 1. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[20:20]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan er ákaflega auðvelt að koma eftir á þegar í óefni er komið og spyrja þá sem lögðu til brunavarnirnar: Hvernig á að slökkva eldinn sem hv. þm. hefur tekið þátt í að kveikja? Því er ákaflega vandsvarað á þessu stigi málsins.

Herra forseti. Ég hef þremur sinnum, síðast í morgun, lagt til að stjórnarandstaðan, stjórnarliðið og aðilar vinnumarkaðarins beiti sér fyrir því að það verði þjóðarsátt til að veita verðbólgunni viðnám. Þetta er það sem við höfum lagt til, herra forseti. (KHG: Hvað þýðir það?) Það þýðir eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson spurði mig fyrir einu ári, jafnvel tveimur, einu og hálfu ári, þegar ég var einmitt að halda ræðu um hve nauðsynlegt væri að draga saman í umsvifum ríkisins, hvort ég væri að leggja til að dregið yrði úr vegaframkvæmdum, og ég sagði já.

Ég get lýst því yfir, herra forseti, ef hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson treystir sér til að styðja tillögu hv. þm. Sverris Hermannssonar um að fjárlagafrv. verði allt saman sent aftur til fjárln. með það fyrir augum að grípa til samdráttaraðgerða muni ég fyrir mitt leyti styðja það. Ég er sem sagt þeirrar skoðunar, herra forseti, að menn hefðu þurft, eins og við buðum upp á í upphafi kjörtímabilsins, að draga verulega saman umsvif ríkisins. Þá gerðist það að þingmenn Samfylkingarinnar og reyndar líka þingmenn vinstri grænna komu upp og lýstu því yfir í upphafi kjörtímabilsins við umræðu um fjárlög í fyrra að þeir væru reiðubúnir að taka höndum saman um samdrátt í umsvifum ríkisins til að ýta burt þeim váboðum sem við greindum þá. Þetta kom fram skriflega, herra forseti, ekki aðeins í ræðum mínum heldur skriflega í nál. sem stjórnarandstaðan stóð öll að á þeim tíma.

Þessu boði var hafnað, herra forseti. Af biturri en gamalli reynslu taldi ég að það væri best að menn réðust í þetta í upphafi kjörtímabilsins og við vorum til í það núna.

Ef stjórnarliðið er að óska eftir samvinnu Samfylkingarinnar um að skera upp ríkisfjármálin til að draga úr umsvifum þá erum við til í það.