Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 20:47:20 (3089)

2000-12-08 20:47:20# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[20:47]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Nú þegar fjárlagafrv. kemur til 3. umr. er ljóst að það hefur tekið verulegum breytingum bæði á útgjalda- og tekjuhlið. Þannig hefur útgjaldahækkunin orðið um 9 milljarðar en á tekjuhliðinni hefur það hækkað um tæpa 13 milljarða.

Á þessum degi hefur verið deilt nokkuð á þau vinnubrögð sem ríkisstjórnin hefur viðhaft um stærsta þáttinn í þeirri breytingu sem fram kemur á tekjuhlið fjárlaganna sem er um aukna sölu á eignum sem ríkisstjórnin ætlar að fá 15 milljarða fyrir. Eftir því hefur verið kallað að fá fram skýrari mynd af tekjuhliðinni og hvaða áhrif aukin sala hefur, ekki síst þegar liggur fyrir að Framsfl. hefur fallist á sölu á Landssímanum með dreifikerfinu. Ég held að engan hafi órað fyrir að framsóknarmenn mundu falla frá afstöðu sinni í því efni svo afdráttarlausir voru þeir um að Landssíminn yrði ekki seldur með dreifikerfinu. Það er því eðlilegt að eftir því hafi verið kallað að það mál yrði skoðað miklu nánar en hægt hefur verið bæði í fjárln. og í samgn. og að þingmenn fengju tækifæri til að meta áhrifin af þeirri sölu bæði á landsbyggðina og á ýmsar efnhagsstærðir og markaðinn í heild sinni vegna þess að hér er verið að taka nokkuð afdrifaríka ákvörðun þegar fyrir liggur sala á þessum eignum þó vissulega eigi eftir að koma fram frumvörp sem heimila endanlega söluna.

Herra forseti. Eins hefur verið gagnrýnt hvernig staðið hefur verið að því nú við 3. umr. að þingmenn fá ekki neina skýringu á þeim áformum sem liggja fyrir um niðurskurð á fjármagni til vegamála. Það er afleitt í ljósi þess að allir treystu orðum hæstv. samgrh. um að hann mundi gera þinginu grein fyrir á hvaða vegaframkvæmdir niðurskurðurinn mundi koma og nefndi hann að þingheimi yrði skýrt frá því þegar við 2. umr. fjárlaga. Nú stefnir í að við ljúkum þessari fjárlagaumræðu og afgreiðslu fjárlaga án þess að það liggi fyrir.

Þetta vildi ég, herra forseti, segja í upphafi máls míns um vinnubrögð um tvo stóra liði sem þessi fjárlög eru reist á, þ.e. annars vegar um söluna á eignum sem ríkisstjórnin ætlar að hafa drjúgar tekjur af og síðan um vinnubrögðin gagnvart niðurskurði til þessa mikilvæga málaflokks sem vegaframkvæmdirnar og vegamálin eru.

Hæstv. forseti. Í þessari umræðu hafa þingmenn Samfylkingarinnar farið nokkuð vel yfir þau áhrif sem þessi breytta þjóðhagsspá, sem birtist nú við 3. umr., hefur á ýmsar efnahagsstærðir í þjóðfélaginu. Formaður Samfylkingarinnar fór áðan yfir það hve mikið af þeim vandamálum sem við stöndum núna frammi fyrir í efnahagsmálunum eru í raun og sanni heimatilbúinn vandi hjá þessari ríkisstjórn. Hann tiltók þar einkum þrjú atriði sem ber vissulega að halda til haga og snerta mjög þá útlánaþenslu og spennu og auknu verðbólgu sem er nú í efnahagslífinu. Í fyrsta lagi tók hann til þegar ríkisstjórnin beitti sér fyrir því að viðskiptabankarnir fengju heimild til að auka hlutafé sitt sem gaf þeim svigrúm til að standa að mjög miklum útlánum sem á ekki síst þátt í þeim vandamálum sem við eigum við að glíma núna.

Í annan stað nefndi hann þá breytingu sem orðið hefur á húsnæðiskerfinu með þeim breytingum sem ríkisstjórnin og hæstv. félmrh. stóðu fyrir sem fólu í sér mikla aukningu á útgáfu húsbréfa sem var bein afleiðing þess að hæstv. félmrh. breytti greiðslumatinu í húsbréfakerfinu með þeim afleiðingum að margir milljarðar bættust inn í húsnæðiskerfið. Því miður, herra forseti, held ég að við stöndum frammi fyrir því að sú útlánaþensla, sem hefur orðið í bankakerfinu og íbúðalánakerfinu, muni á næstu mánuðum og missirum leiða til greiðsluerfiðleika heimilanna og það sjáum við m.a. í því sem Seðlabankinn hefur látið frá sér fara.

Í þriðja lagi nefndi formaður Samfylkingarinnar þá auknu heimild sem lífeyrissjóðirnir hafa fengið til að ávaxta fé sitt í útlöndum og Seðlabankinn hefur varað við. Allt eru þetta þrír stórir grunnþættir í þeim vandamálum sem efnahagsmálin eru komin í um þessar mundir.

Vissulega er ástæða til þess, herra forseti, að hafa áhyggjur af skuldaaukningu heimilanna sem hefur vaxið verulega í þessu góðæri. Hygg ég að skuldir heimilanna hafi aukist um nálægt helming í tíð þessarar ríkisstjórnar eða á fimm ára tímabili og stefna nú í á sjöunda hundrað milljarða. Einungis á þessu ári hafa skuldirnar milli áramóta eða frá síðustu áramótum og til þess sem spáð er nú um komandi áramót aukist um 87 milljarða kr.

Í þeirri nýju þjóðhagsspá, sem hefur mjög komið til umræðu, kemur fram að spáð er vaxandi atvinnuleysi og minni kaupmætti. Er það nokkuð athyglisvert, herra forseti, í þeirri spá sem fram kemur um aukna verðbólgu að það ber verulega á milli þess sem Þjóðhagsstofnun hefur sett fram í því efni og sem fjmrn. hefur sett fram og sem tölur nú við 3. umr. fjárlaga, eins og í launa- og verðlagsmálum, taka mið af sem er nauðsynlegt að fara nokkuð nánar yfir.

Áður en ég fer yfir það vil ég fara nokkrum orðum um sölu eigna, þ.e. þessa 15 milljarða kr. sem sala eigna á að gefa ríkissjóði. Við í efh.- og viðskn. fórum mjög yfir þá þætti sem komu fram hjá Þjóðhagsstofnun í þessu efni. Nokkuð var gengið eftir því í efh.- og viðskn. af minni hluta efh.- og viðskn. hvaða áhrif 15 milljarða sala á eignum gæti haft í því efnahagsumhverfi sem við erum í núna. Það er alveg ljóst að það skiptir verulegu máli hvernig ríkisstjórnin ráðstafar því fjármagni sem kemur vegna sölu á eignunum.

Álit Þjóðhagsstofnunar um ráðstöfun þessa fjármagns fór ekki fram hjá neinum, að stofnunin taldi tvímælalaust skynsamlegast að taka það fjármagn úr umferð og setja það í vörslu Seðlabankans en ákvörðun ríkisstjórnarinnar virðist vera sú að greiða 15 milljarða upp í skuld til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og er full ástæða til þess að staldra við hvaða áhrif það getur haft. Auðvitað fer það eftir því hvernig það fjármagn er ávaxtað af hálfu lífeyrissjóðsins en það er alveg ljóst að ef lífeyrissjóðurinn stendur þannig að málum að fara með fé úr landi þrýstir það verulega á gengið og ef það er notað innan lands getur það aukið á þensluna.

Sjálfsagt hugsar ríkisstjórnin ráðstöfunina á því með þeim hætti að það gæti orðið til að greiða fyrir sölu á þeim eignum sem ríkisstjórnin ætlar að beita sér fyrir, þ.e. annars vegar sölu á bönkunum og hins vegar sölunni á Landssímanum.

Herra forseti. Í nýrri tekjuáætlun ríkissjóðs fyrir árið 2001 kemur fram að fyrir utan auknar tekjur af sölu upp á 8,2 milljarða gerir ríkisstjórnin ráð fyrir því, sem mér finnst mjög athyglisvert, að tekjuskattur einstaklinga aukist á næsta ári. Er þá væntanlega tekið tillit til þeirra skattahækkana sem ríkisstjórnin stendur fyrir en í annan stað er gert ráð fyrir að skattar á lögaðila lækki um 2,8 milljarða. Ástæða er til þess að velta fyrir sér þeirri skýringu sem haldið er fram að þetta þýði að staða fyrirtækjanna versni á næsta ári. Ég hygg að eins sé hægt að horfa til þess sem skýringar á þeim samdrætti sem tekjuáætlun boðar hjá lögaðilum að þarna gæti áhrifanna af því sem fyrirtæki geta nýtt sér, þ.e. yfirfæranlegu rekstrartapi fyrirtækjanna en mér skilst að enn séu um 80 milljarðar kr. sem fyrirtækin geta nýtt sér á næstu missirum og árum. Ástæða er til þess, herra forseti, að huga að því hvort það svigrúm sem fyrirtækin hafa sé eðlilegt og hvort þau ár sem sem fyrirtækin hafa til að nýta sér yfirfæranlegt rekstrartap sé eðlilegt.

[21:00]

Ég hygg að þarna gæti líka áhrifa frestunar á skattlagningu söluhagnaðar sem fyrirtækin hafa haft frá árinu 1998 og ríkisstjórnin ætlar ekki að afnema hjá lögaðilum þó hún ætli að afnema heimildina hjá einstaklingum. Þessu vildi ég halda til haga varðandi hina breyttu tekjuáætlun fjmrn. sem við ræddum í efh.- og viðskn.

Ég ætla ekki, herra forseti, að fara nánar út í stöðu efnahagsmála. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur gert þeim það góð skil að ástæðulaust er að fara nánar yfir það. Hann hefur lýst afleiðingunum af viðskiptahallanum sem hæstv. forsrh. gerir lítið með. Það er ástæða til að vekja athygli á að ef miðað er við stöðu annarra landa innan OECD er aðeins Portúgal með meiri viðskiptahalla en Ísland á þessu ári.

Við þessa umræðu minni ég einnig á, vegna þess að ríkisstjórnin hyggst auka skuldir sínar, að hreinar erlendar skuldir þjóðarbúsins voru, þegar þessi ríkisstjórn tók við, rúmlega 50% af landsframleiðslu. Í ár er reiknað með að þessi tala komist í 56,4% af landsframleiðslu og á næsta ári verði erlendar skuldir þjóðarbúsins 65,7% af landsframleiðslu. Sé hins vegar miðað við heildarskuldastöðu eru þessar tölur enn verri. Þá er reiknað með að hrein erlend skuldastaða sem hlutfall af landsframleiðslu verði á næsta ári yfir 90%.

Herra forseti. Hér hefur verið farið yfir þær tillögur sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa flutt við 3. umr. fjárlaga. Í þeim er lagt til að aflað verði tekna og sparað í ríkisfjármálum þannig að, að teknu tilliti til þeirra tillagna sem Samfylkingin er með til útgjaldaaukningar, verði engu að síður afgangur af ríkissjóði upp á um 2,5 milljarða kr. Tillögur Samfylkingarinnar sýna hvað Samfylkingin vill að hafi forgang við fjárlagagerðina.

Við flytjum tillögu sem mælt var fyrir við 2. umr., sem kemur til atkvæða við lokaafgreiðslu fjárlaga, um tekjuauka vegna afnáms frestunar á söluhagnaði, ekki einungis hjá einstaklingum heldur einnig hjá lögaðilum. Við erum ósammála þeirri leið sem ríkisstjórnin beitir sér fyrir, að fari menn yfir tiltekið mark í söluhagnaði, þ.e. 3,2 milljónir hjá einstaklingi og 6,4 milljónir hjá hjónum, þá eigi að lækka tekjuskattshlutfallið úr 38% í 10%. Þar erum við sammála þingmönnum Framsfl. sem hafa gert fyrirvara við leiðina sem Sjálfstfl. boðar í því efni.

Ég held að það sé ekki of í lagt með það, herra forseti, að miðað við það hvernig við viljum standa að málum, t.d. varðandi frestun á skattlagningu á söluhagnaði, þá mundu tekjur ríkissjóðs aukast um 2,5--3 milljarða á næsta ári. Hér hefur komið fram að ríkisskattstjóraembættið áætlar að tekjutap ríkis og sveitarfélaga hafi verið um allt að 8,5 milljarðar kr. undanfarin tvö ár vegna þessarar frestunarheimildar.

Við leggjum það til hér við 3. umr. --- það kom ekki fram við 2. umr. --- að dregið verði saman í útgjöldum vegna kaupa á sérfræðiaðstoð hjá ríkisstofnunum og ráðuneytum. Sá kostnaður hefur aukist jafnt og þétt síðustu 5--6 ár. Þar hefur verið innbyggð 10% aukning vegna sérfræðiaðstoðar sem ríkisstofnanir og ráðuneytin hafa keypt af sjálfstætt starfandi aðilum. Þessi útgjaldaliður var 1.100 millj. kr. árið 1994. Á árinu 2000 stefnir sá kostnaður í 2,5 milljarða kr. Ég tel að þar væri hægt að spara um 20%, draga þar saman í útgjöldum eins og lagt er til í þessum tillögum.

Jafnframt er lagt til að fresta framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru vegna kaupa á húsnæði fyrir tvö ráðuneyti en mig minnir að 190 millj. séu áætlaðar í það í fjárlagafrv.

Ég vil, herra forseti, nota örfáar mínútur til að fara yfir tillögur sem ég legg mikla áherslu á en þær eru á útgjaldalið tillagna okkar. Þær snerta búsetumál fatlaðra, stöðu langveikra barna, barnabætur, leiguíbúðir og lífeyrisgreiðslur aldraðra og öryrkja.

Í fyrsta lagi, vegna lífeyrismála aldraðra og öryrkja, er í launa- og verðlagsforsendum þeim sem formaður meiri hluta fjárln. mælti hér fyrir gert ráð fyrir, ef ég man rétt, 150 millj. kr. Verðlagsforsendur gefa til kynna 4,5% í staðinn fyrir 4% sem frv. byggir á. Skýringin á aukningunni er sú að hún sé fyrst og fremst vegna rekstrarútgjalda, ekki vegna launaliðarins. Ég held að ef fara ætti að lögum um lífeyrisgreiðslur úr almannatryggingakerfinu verði að hækka þann lið einnig sem snýr að lífeyrisgreiðslum til aldraðra og öryrkja. Þjóðhagsspáin gerir ráð fyrir verðlagshækkunum úr 4% í 5,8%. Þegar litið er til þeirra forsendna sem Þjóðhagsstofnun gefur sér þá ættu lífeyrisgreiðslur eins og þær birtast í fjárlagafrv. að hækka við lokaafgreiðslu fjárlaga um 450 millj.

Í lögum um almannatryggingar stendur, með leyfi forseta:

,,Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 59. gr. og fjárhæðir skv. 17. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni.``

Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.``

Þetta þýðir að ef vísitala neysluverðs fer upp fyrir launavísitölu þá á að taka mið af því þegar bætur lífeyrisþega eru ákvarðaðar. Eigi að hækka þær um næstu áramót ættu þær ekki að hækka um 4%, eins og forsendur fjárlaga gera ráð fyrir, heldur um 5,8%.

Mér fannst formaður fjárln. ekki gefa næga skýringu á þessu í morgun, þegar ég kom í andsvar við ræðu hans og spurði hann út í þetta. Mér finnst að hér hljóti að vera um lagabrot að ræða verði ekki staðið við þetta eins og ég hef lýst. Ef málin þróast hins vegar svo á komandi ári, þegar líður á árið, að launavísitalan verði hærri þá ætti auðvitað að hækka þær bætur. Það á að miða við þá vísitölu sem hærri er hverju sinni. Ég hefði kosið, herra forseti, að formaður fjárln. hefði gefið nánari skýringu á þessu en hann gerði í morgun varðandi þennan þátt mála. Það er afar mikilvægt, herra forseti, eins og margoft hefur komið fram varðandi stöðu lífeyrisþega og aðbúnað þeirra á undanförnum árum að það gengur ekki lengur að þeir séu hlunnfarnir með þeim hætti sem ríkisstjórnin hefur gert. Það liggur fyrir, samkvæmt útreikningum sem samtök lífeyrisþega hafa látið gera, að hlutfallslega hafa greiðslur almannatrygginga lækkað samanborið við laun í almennri verkamannavinnu. Þau eru lægri í dag en þau voru fyrir um tíu árum síðan. Eins og formaður Samfylkingarinnar sýndi fram á er afgangurinn sem ríkissjóður státar sig af m.a. fenginn með því að skerða verulega bætur lífeyrisþega.

Ég óska því eftir því að horft verði til þessarar tillögu sem við þingmenn Samfylkingarinnar flytjum þar sem gert er ráð fyrir 450 millj. kr. aukningu til þessara mála. Þær tillögur eru einungis til að standa við lagaákvæði sem ríkisstjórnin sjálf beitti sér fyrir á árinu 1998. Hún hafði þremur árum áður kippt úr sambandi tengslum lífeyrisgreiðslna við laun með þeim afleiðingum sem við þekkjum og höfum margfarið yfir. Lífeyrisgreiðslur hafa dregist verulega aftur úr launum og mér finnst nóg að gert í því efni, herra forseti.

Ég tel einnig ástæðu til að staldra við stöðu Ríkisspítalanna í þessari umræðu og líta til þess fjármagns sem stjórnarflokkarnir ætla að veita til að bæta stöðuna á Landspítalanum -- háskólasjúkrahúsi. Þar er staðan mjög alvarleg og fjármagnið sem stjórnarflokkarnir ætla að veita til þeirra mála er hvergi nægjanlegt. Í sumum tilvikum eru biðlistar á sjúkrahúsunum orðnir mjög langir. Á því er nauðsynlegt að taka og er ástæða til að ætla að stjórn Ríkisspítalanna þurfi að grípa til aðgerða ef ekki kemur til meira fjármagn en stjórnarflokkarnir hyggjast verja til sjúkrahúsanna. Ég held að við munum sjá fram á að sá pottur sem til ráðstöfunar er, 230 millj. kr., nægi ekki. Það er auðvitað ótækt ef stjórnarnefnd Landspítalans er farin að íhuga tekjuöflun með aukinni gjaldtöku, t.d. með innritunargjöldum. Það væri afleitt og eins að grípa til lokana á deildum.

[21:15]

Herra forseti. Við ræddum nokkuð stöðu húsnæðismála í utandagskrárumræðu í gær. Ég held að það sé ekki ofsögum sagt að staðan þar er mjög slæm. Það er neyðarástand hjá hundruðum fjölskyldna hér á höfuðborgarsvæðinu. Reyndar er það svo að biðlistar eftir leiguíbúðum hafa aukist verulega. Ég held að það viðurkenni allir nema hæstv. ráðherrar í þessari ríkisstjórn að það er beint samhengi á milli ástandsins á leigumarkaðnum og aðgerða ríkisstjórnarinnar, þ.e. breytinga á húsnæðislánakerfinu.

Ég held að jafnframt hljóti allir að sjá að það er beint samhengi milli þess neyðarástands sem nú ríkir á leigumarkaðnum, stöðu þeirra sem þurfa leita sér húsaskjóls á leigumarkaðnum og þeirra vaxtahækkana sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir varðandi leiguíbúðir. Sætir raunar furðu hve hljótt þær hækkanir á vaxtakjörum til leiguíbúða hafa farið. Í 25 ár, fram til 1998 þegar félagslega kerfinu var lokað, var sátt um það í öllum ríkisstjórnum sem þá sátu að hrófla ekki við vaxtakjörum á leiguíbúðum sem höfðu verið 1% samfellt þann tíma. Vissulega hefur það kostað ríkissjóð töluverða fjármuni. Menn hafa t.d. bent á stöðu Byggingarsjóðs verkamanna í þessu sambandi. En það kostar líka töluvert að búa í velferðarþjóðfélagi þar sem gætt er að þeim sem höllum fæti standa og hafa af einhverjum ástæðum ekki tök á að eignast eigið húsnæði.

Vextir á leiguíbúðum eru komnir í 3,9% á þessu ári. Ég hef sagt að það sé að ganga af leigumarkaðnum dauðum. Ég held að ef ekkert verður gert í því efni, herra forseti, muni þessir biðlistar lengjast og ástandið verða verra en orðið er. Fleiri verða í virkilegri neyð að því er varðar húsnæðismál. Hún er nefnilega ekki svo lítil þessi vaxtahækkun.

Í skýrslu sem birt var í apríl, frá nefnd um leigumarkað og leiguhúsnæði sem hæstv. félmrh. skipaði í kjölfar þess að hann lagði niður félagslega húsnæðiskerfið, er það dregið mjög skýrt fram hvaða afleiðingar þessar breytingar hafa haft og munu hafa. Því er lýst með skýrum dæmum og er ástæða til að þakka hæstv. félmrh. og þeirri nefnd hve vel hefur verið staðið að því að útskýra afleiðingarnar af þeim breytingum á húsnæðiskerfinu sem hæstv. ráðherra beitti sér fyrir. Hins vegar hefur staðið á að hæstv. ráðherra gripi til þeirra aðgerða sem nefndin leggur til svo draga megi úr óæskilegum afleiðingum þeirra breytinga á húsnæðiskerfinu sem hæstv. ráðherra beitti sér fyrir.

Í úttektinni kemur skýrt fram, herra forseti, að leiga á íbúð sem kostar 7,6 millj. kr. mun hækka um hvorki meira né minna en 80% eða úr 25 þús. kr. í 40 þús. kr. að frádregnum húsaleigubótum eftir skatt eða um 20 þús. kr. ef vextir fara í 4,9%. Ekki er hægt að lesa annað út úr fjárlagafrv. en að hætta eigi niðurgreiðslu á vöxtum á leiguíbúðum og taka væntanlega upp sambærilega vexti og eru í húsbréfakerfinu. Það gæfi þá niðurstöðu sem ég hef hér lýst, að leiga á lítilli íbúð sem kostar 7,6 millj. hækkar um 20 þús. kr. á mánuði. Þá höfum við tekið tillit til húsaleigubótanna að frádregnum sköttum.

Það er sérkapítuli út af fyrir sig að þessi ríkisstjórn skuli þráast við að afnema skatta á húsaleigubótum sem renna til verst stöddu hópanna í þjóðfélaginu. Það kostar ekki mikið að afnema þá skatta, herra forseti. Síðast þegar það var skoðað hefði það þýtt tekjutap fyrir ríkissjóð upp á 100--150 millj. kr., að hætta að skattleggja húsaleigubætur. Samtímis fara um 4 milljarðar og kannski meira í vaxtabætur til þeirra sem hafa efni á að koma sér þaki yfir höfuðið. Þetta hefur verið skoðað og nefnd á vegum félmrn. hefur sett fram þá skoðun að það sé brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að standa þannig að niðurgreiðslu til húsnæðismála að mönnum sé mismunað eftir því hvort þeir eiga húsnæði eða eru á leigumarkaði.

Einhverra hluta vegna hafa sjálfstæðismenn þá sérkennilegu skoðun að húsaleigubætur skuli skattlagðar. Þeir eru annarrar skoðunar þegar í hlut eiga þeir sem eiga peninga, eins og við höfum verið að fara hér í gegnum á þessum síðustu dögum í tengslum við frv. hæstv. fjmrh. Hæstv. fjmrh. beitir sér þar fyrir almennri skattahækkun á launafólk í landinu á sama tíma og hann vill lækka skatta á þeim eru forríkir og eiga fjármagnið.

Í áðurnefndri skýrslu hæstv. félmrh. er lagt til að húsaleigubætur og stofnstyrkir til framkvæmdaaðila sem byggja leiguíbúðir eigi að koma í staðinn fyrir niðurgreiðslur á vöxtum. Nefnd hæstv. félmrh. segir hve mikið þarf í þessa stofnstyrki til að hætta megi að niðurgreiða vexti þannig að bæði þeir sem byggja leiguíbúðir og leigjendurnir sjálfir séu jafnsettir á eftir. Til þess þarf stofnstyrk um 2 millj. á hverja íbúð sem kostar um 7--8 millj. kr., sennilega rúmar 2 millj. 2--2,5 millj. í stofnstyrk á hverja einustu íbúð, til þess að það samsvari þeirri niðurgreiðslu sem sátt hefur verið um í þjóðfélaginu að hafa á leiguíbúðum undanfarin 25 ár.

Í fjárlögum eru aðeins 50 millj. ætlaðar í þessa stofnstyrki og þar er talað um stofnstyrki og húsaleigubætur. Þess vegna flytjum við í Samfylkingunni tillögu um að 625 millj. bætist við þessar 50 millj. sem hæstv. ráðherra og ríkisstjórn mun beita sér fyrir. Samanlagt væri um að ræða 675 millj. Ég hygg þó, herra forseti, að það sé heldur lágt og muni ekki duga fyrir stofnstyrkjum nema til kannski 300--400 íbúða. Það nægir ekki einu sinni til að mæta þörfinni en mundi sennilega tæma biðlistana hjá flestum þeirra sem búa við algjört neyðarástand.

Hvernig orðaði hæstv. ráðherra það hér í umræðunum í gær? Hann sagði að þeir hefðu jú gistingu. Það var sérkennilega til orða tekið.

Herra forseti. Ef ég man rétt þá beitir meiri hlutinn sér fyrir því í 7. gr. að heimilt verði:

,,Að semja við Samband íslenskra sveitarfélaga, sbr. IX. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, um framlög aðila til stofnstyrkja vegna bygginga eða kaupa á leiguíbúðum, ... ``

Þetta er ekkert frekar tilgreint, herra forseti. Þetta er skilið eftir algjörlega opið þannig að raunverulega vita þingmenn ekkert hvað þetta þýðir, hvort samið verði við sveitarfélögin um 50 millj. til viðbótar, sem litlu máli mun skipta, eða hvort upphæðin verður eitthvað hærri. Við erum ekkert nær því við afgreiðslu fjárlaga hvort ganga mun á biðlista eftir leiguhúsnæði sem eru til skammar. Það vantar ekki að veita lán til fjölda leiguíbúða samkvæmt frv. til fjárlaga, til um 500 leiguíbúða, en það eru allt lán með markaðsvöxtum. Ef við deilum þessari fjárhæð niður á þessar 500 íbúðir og athugum hvað það mundi gera í stofnstyrki á hverja þessara 500 íbúða þá er það ekki nema 100 þús. kr. Það mun engu breyta um uppbygginguna á leigumarkaðnum og er eintóm sýndarmennska nema til komi verulegt viðbótarfjármagn.

Þessu finnst mér mjög nauðsynlegt að halda til haga. Ástandið er hrikalegt á leigumarkaði og við viljum því freista þess að flytja þessa tillögu.

Mér finnst sýndarmennska hæstv. félmrh. að því er varðar afstöðuna til þeirra sem eru á leigumarkaðnum einnig skína í gegn í yfirlýsingu sem ráðherrann beitti sér fyrir í samráði við Öryrkjabandalagið um búsetumál fatlaðra. Ég hygg, herra forseti, að þar séu ekki öll kurl komin til grafar. Þegar skýrsla ráðherrans sjálfs er skoðuð í kjölinn kemur fram, líkt og í skýrslunni um leiguíbúðir, hvernig á að standa að því að fjármagna þessa yfirlýsingu sem hæstv. ráðherrann beitti sér fyrir.

Eins og fram kom í fréttum nú um helgina eiga þessar aðgerðir að eyða öllum biðlistum fatlaðra eftir sambýlum og öðrum búsetuúrræðum á næstu fimm árum. Til þess á að kosta um 4,4 milljörðum kr. Það er ástæða til að halda því til haga, af því að rætt hefur verið um flutning á þessum málaflokki yfir til sveitarfélaganna, að ekki er gert ráð fyrir því, á þessu fimm ára tímabili sem á að nota til að tæma biðlistana, að neinir nýir fatlaðir bætist við. Það er auðvitað sérkennilegt, ætli menn að eyða þessum biðlistum, að gera ekki ráð fyrir neinni fjölgun þar á fimm ára tímabili.

Viljayfirlýsingin er með þeim hætti að Öryrkjabandalagið, eða hússjóður Öryrkjabandalagsins, á að taka að sér að byggja sambýli. Mig minnir að talað sé um 18 sambýli og 5 sérhæfð sambýli sem eru fyrir mikið fatlaða einstaklinga. Þegar maður skoðar hvernig á að greiða þetta þá er það þannig: Hússjóðurinn stendur að uppbyggingunni og fær til þess lán sem, væntanlega hjá Íbúðalánasjóði með 5,1% vöxtum. Fjármagnskostnaðurinn af þessu húsnæði á síðan að fara í leiguna og ríkið tekur að sér að greiða reksturinn og þar með talið leiguna. Þegar maður skoðar síðan, herra forseti, þessa skýrslu um kostnað vegna þjónustu við fatlaða þá kemur fram talan sem við sáum í blöðunum um helgina, 4,4, milljarðar, þar af 4,1 í stofnframkvæmdir. Þegar maður les hins vegar hverjir eiga að standa undir leigugreiðslunum kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

,,Við ákvörðun leigugreiðslna íbúa sambýla hefur verið miðað við að þeir [þ.e. íbúarnir] greiði að jafnaði sem svarar 4% af stofnkostnaði í leigu og að árleg niðurgreiðsla húsnæðiskostnaðar verði því sem nemur 6% af stofnkostnaði.``

Það á sem sagt að taka upp leigu á sambýlum og vistheimilum fyrir fatlaða sem ekki hefur verið hingað til. Þetta kemur skýrar fram í töflu sem hér fylgir en þar er rætt um auknar leigugreiðslur íbúa á sambýlum upp á 220 milljónir. Til að koma til móts við þá sem þurfa að standa undir þessum greiðslum eru áætlaðar um 40 millj. kr. í húsaleigubætur.

[21:30]

Þetta er, herra forseti, algjör breyting í málaflokki fatlaðra. Framkvæmdasjóður fatlaðra hefur allt frá árinu 1980 fjármagnað gífurlega uppbyggingu í vistheimilum og sambýlum fyrir fatlaða og ríkissjóður staðið undir rekstrinum en ekki íbúarnir sjálfir með leigugreiðslu. Einungis í þeim tilvikum að sjóðurinn hefur fjármagnað 10% en félagasamtök 90%, t.d. hefur Þroskahjálp staðið að uppbyggingu nokkurra slíkra íbúða, hefur verið um einhverjar leigugreiðslur að ræða. Hér stendur því til að gera grundvallarbreytingu á rekstrarformi í þessum málaflokki. Maður sér meira að segja alveg hvað hér er á ferðinni, herra forseti. Það er líka talað um að rétt sé að breyta um rekstrarform og hér stendur orðrétt, með leyfi forseta:

,,Lagt er til að stofnað verði hlutafélag sem eigi allar húseignir sem í dag eru notaðar sem þjónustuhúsnæði fatlaðra.``

Það er sem sagt hálfgerð einkavæðingarlykt af þessu öllu, herra forseti. Það á að stofna hlutafélag um allar húseignir sem núna eru búsetuúrræði fyrir fatlaða. Það á að fara að láta fatlaða sjálfa standa undir leigugreiðslunum.

Ég vil spyrja formann fjárln. hvort hann geri sér grein fyrir því hvað felst í samkomulaginu sem hæstv. félmrh. gerði. Það er verið að velta kostnaði af þessari ákvörðun hæstv. félmrh. yfir á fatlaða og þroskahefta einstaklinga sem eiga að standa undir henni með leigugreiðslum. Við erum að taka upp algjörlega nýtt fyrirkomulag, þetta er grundvallarbreyting á þjónustu þjóðfélagsins við fatlaða. Þetta er grundvallarbreyting.

Herra forseti. Raunverulega sýndarmennskan í þessu af hálfu félmrh. er að það er ekki gert ráð fyrir einni einustu krónu nú við 3. umr. fjárlaga til viðbótar til að standa undir því samkomulagi sem gert var um helgina við Öryrkjabandalagið. Eigi, herra forseti, að leysa búsetumál fatlaðra og tæma biðlistana á næstu fimm árum þá hlýtur að eiga að byrja þegar á næsta ári að koma upp sambýlum. Auðvitað vantar fjármagn til að reka þau ef Öryrkjabandalagið fer í uppbyggingu sambýla þegar á næsta ári.

Við hljótum að taka þessi mál til sérstakrar umræðu þegar tækifæri gefst. Ég vænti þess, herra forseti, að sú nefnd sem núna hefur til athugunar breytingar á félagsþjónustu sveitarfélaga, þar sem yfirtaka sveitarfélaganna á þessum málaflokki er undirbúin, skoði breytingar á fjármögnun uppbyggingar á þjónustu fyrir fatlaða, skoði vel hvað hér er á ferðinni. Við hljótum þó að freista þess að fá hæstv. félmrh. til að standa við orð sín. Við í Samfylkingunni höfum því flutt tillögu við 3. umr. þess efnis að 200 millj. fari til reksturs þeirra sambýla sem hússjóður Öryrkjabandalagsins mun væntanlega koma á fót á næstu vikum og mánuðum.

Herra forseti. Ég tók eftir því að í tengslum við áðurnefnda yfirlýsingu kom fram að verja ætti um 300 millj. vegna þjónustu við langveik börn. Því var komið af stað í tengslum við tillögu sem var samþykkt á Alþingi, um stefnumörkun í málefnum langveikra barna. Gert var ráð fyrir að auka við þá þjónustu þannig að langveik börn fengju ekki minni þjónustu en gert er ráð fyrir í lögunum um málefni fatlaðra. Til þess þarf fjármagn. Nú hef ég komist að raun um að það eru engar 300 millj. sem setja á til þess málefnis. Þar er um að ræða einhverja tugi milljóna. Mér er sagt að þetta geti verið um 80 millj. kr.

Því flytjum við einnig brtt. að því er varðar langveik börn hér við 3. umr. fjárlaga þannig að staðið verði við þá stefnumótun sem Alþingi ákvað að fylgt yrði í þessum málaflokki. Við leggjum til að 300 millj. verði veittar til þessa þarfa verkefnis en málefni langveikra barna hafa svo sannarlega setið eftir á umliðnum árum. Það er tímabært, herra forseti, löngu tímabært að gera átak í þeim málaflokki.

Barnabæturnar sem við leggjum til, 1.285 millj. kr., ætla ég ekki að hafa mörg orð um. Við ræddum það í tengslum við frv. ríkisstjórnarinnar þar sem gert er ráð fyrir hærri barnabótum, í tengslum við loforð í kjarasamningum og í annan stað til að standa við loforð sem framsóknarmenn héldu á lofti í síðustu kosningum og þeir ætla greinilega ekki að standa við nema að hluta. Þeir lofuðu því að ótekjutengdar barnabætur eða svokölluð barnakort yrðu að veruleika á kjörtímabilinu fyrir öll börn. Öll börn, sögðu þeir og börn eru samkvæmt skilgreiningum í alþjóðasáttmálum, sem við höfum samþykkt hér á hv. Alþingi, börn allt til 18 ára aldurs. Framsóknarmenn ætla ekki að standa við það loforð nema að hálfu og greiða ótekjutengdar barnabætur, rúmar 30 þús. kr., til barna upp að sjö ára aldri. Það er sennilega um helmingur barnanna. Ætli það séu ekki um 30 þúsund börn af 60--70 þúsund börnum á aldrinum að 16 ára aldri?

Hvenær á að standa við hinn helminginn, herra forseti? Ég spyr formann fjárln. um það. Var fólkið blekkt í síðustu kosningum? Því var sagt að greiða ætti 30 þúsund kr. með hverju barni en tillaga hv. þm. Framsfl. gerir ráð fyrir að hverju barni eða fjölskyldu hvers barns upp að sjö ára aldri verði greiddar rúmar 30 þús. kr. Ekki var hægt að skilja formann Framsfl., þegar hann var spurður um þetta fyrir nokkru í sjónvarpi, öðruvísi en svo að þetta væri allt sem kæmi í þessu efni á kjörtímabilinu. Enda á það sem þó á að gera ekki að koma til framkvæmda, ekki strax, ekki á næsta ári, heldur á þremur árum, sú breyting sem ríkisstjórnin stendur fyrir að því er varðar barnabæturnar. Tillaga okkar sem við flytjum hér, upp á 1.285 millj., miðar að því að greiða barnabætur, rúmar 33 þús. kr. til allra barna að 16 ára aldri.

Herra forseti. Ég ætla að ljúka máli mínu þó að ýmislegt fleira mætti svo sem tiltaka í þessu efni. Ég hefði viljað beina einni spurningu til formanns fjárln. sem ég sé að hefur yfirgefið salinn, herra forseti. Það er raunar lokaspurning mín hér í ræðulok. Sjálfsagt hefur hv. þm. verið kallaður í símann eða eitthvað brugðið sér frá. Ég spyr um hv. þm. af því að ég hefði gjarnan viljað að hann svaraði þeirri spurningu.

Ég þakka fyrir að hv. formaður fjárln. er genginn í salinn. Ég hef eina spurningu til hans í lokin sem lýtur að barnabótunum, verðlagshækkun vegna lífeyrisgreiðslna aldraðra og öryrkja og því sem fram kemur í frv. til fjárlaga og ekki hefur verið útfært, þ.e. um sparnað sem hæstv. heilbrrh. ætlar samkvæmt fjárlagafrv. að beita sér fyrir og snertir lækkun á kostnaði vegna lyfja. Í fjárlagafrv. er talað um aukna greiðsluþátttöku sjúklinga í lyfjakostnaði. Hæstv. heilbrrh. átti að spara milljarða á þessu ári sem ég veit ekki til að hafi gengið eftir. Til viðbótar sýnist mér að áætlaðar séu á fjárlögum 370 millj. kr. í lyfjakostnað.

Ég sagði við 2. umr. fjárlaga að mér fyndist ótækt að skilja þennan lið eftir óskýrðan vegna þess að mér finnst nóg að gert í hækkun á lyfjakostnaði sjúklinga sem hafa þurft að sæta 37% hækkun fyrr á þessu ári á algengum lyfjum. Ég spyr því: Hefur hæstv. heilbrrh. skýrt fyrir fjárln. hvernig eigi að mæta áformum hennar um lækkun á lyfjakostnaði þar sem segir að m.a. eigi að auka greiðsluþátttöku sjúklinga eða er sá þáttur skilinn eftir í vindinum eins og svo mörg önnur mál hér við lokaafgreiðslu fjárlaga? Við getum í því sambandi nefnt vegamál, sölu eigna eða leiguíbúðirnar þar sem enginn veit hvernig með verður farið. Hvað kemur t.d. á móti því að ríkisstjórnin ætlar að hætta niðurgreiðslu á vöxtum til leiguíbúða? Hér er því gerð lokatilraun, herra forseti, til að spyrja um þennan mikilvæga þátt sem snertir mjög heimili landsmanna, þ.e. lyfjamálin.

Herra forseti. Ég lýk máli mínu en vil taka fram að frv. sem hér er til lokaafgreiðslu, til 3. umr., hefur svo sannarlega ekki batnað við meðferð málsins milli 2. og 3. umr. Mér finnst það enn, miðað við breytta þjóðhagsspá frá Þjóðhagsstofnun og spár fleiri aðila, styðja það sem við í Samfylkingunni höfum sagt, að alvarlegar blikur eru á lofti í efnahagsmálum. Ríkisstjórnin hefur ekki brugðist við eins og nauðsynlegt var eða í samræmi við aðvaranir. Því er ástæða til þess núna, þegar við erum að afgreiða fjárlagafrv. sem sýnir efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, að hafa áhyggjur af framvindunni á næsta ári, ekki síst stöðu heimilanna.