Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 22:20:48 (3098)

2000-12-08 22:20:48# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[22:20]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Meðan hv. þm. Jón Kristjánsson getur ekki gefið svar við þeirri einföldu spurningu: Hvers vegna er þeim tveimur náttúruverndarsamtökum sem hér er rætt um mismunað á þennan hátt, þá getur hv. þm. ekki átt von á öðru en hann fái það sem hann kallar dylgjur úr þessum ræðustóli.

Herra forseti. Ég vil með leyfi fá að vitna í bréf Umhverfisverndarsamtaka Íslands sem þau skrifa 17. október til hv. formanns fjárln., Jóns Kristjánssonar, þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Þá hafa samtökin verið með í undirbúningi að ná saman góðum hópi fræðimanna til að gera úttekt á gróðurhúsaáhrifum okkar Íslendinga og gera tillögur um hvernig megi draga úr þeim. Þetta er að mati samtakanna afar mikilvægt, ekki síst með það í huga hvernig við Íslendingar getum staðið við alþjóðlegar skuldbindingar um minni losun gróðurhúsalofttegunda og skapað svigrúm fyrir orkufrekan iðnað.``

Herra forseti. Það skyldi þó ekki vera þegar öllu er á botninn hvolft að þessi yfirlýsing Umhverfisverndarsamtaka Íslands sé þvílíkur demantur í augum hv. þm. Framsfl. að þetta sé skýringin á mismununinni. (Gripið fram í.) Að auka svigrúm fyrir orkufrekan iðnað.