Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 22:39:53 (3101)

2000-12-08 22:39:53# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[22:39]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þegar kemur að lokum umræðunnar, sem ég hef fylgst með að mestu leyti, verð ég að segja að ekki hefur létt af mér áhyggjum að fylgjast með umræðunni. Mér hefur fundist að hún sannaði það sem ég taldi og setti fram í ræðu minni við 2. umr. um fjárlögin að ekki væri bjart fram undan í íslenskum efnahagsmálum og að menn væru ekki að taka á málum hvað varðaði ríkið og ríkissjóð með þeim hætti að líklegt væri að menn næðu tökum á þeirri spennu sem er nú uppi í þjóðfélaginu.

Það sem hefur gerst frá 2. umr. eins og málið lá þá fyrir og þangað til núna er að það hefur enn versnað. Nú er það ekki þannig að einstakir þingmenn geti út af fyrir sig verið á móti þeim tillögum sem hafa komið fram en menn hljóta þó að horfa yfir málið sem heild að lokum. Þegar á þetta er horft í heild er niðurstaðan sú að sú þenslutíð, sem er nú uppi, skilar af sér niðurstöðum fyrir ríkissjóð sem er nánast ógerningur að halda í horfinu með þegar samdrátturinn gengur í garð. Sá tekjuafgangur sem hv. þingmenn og ráðherrar stjórnarliðsins hafa verið að tala um er afleiðing þenslunnar að stórum hluta til og þeirra hugmynda að selja eigur ríkisins. Greinilegt er að sú nauðhyggja sem hefur komið fram í umræðunni, sem felst í því að að fjármagna þurfi gjaldeyrisskort sem sé fram undan vegna viðskiptahallans og verðbólgunnar með sölu á ríkiseignum. Það er hún sem er að skila þeim ákvörðunum sem liggja fyrir.

Ég held að því miður sé ekki líklegt að ná þeirri mjúku lendingu sem menn eru að tala sífellt um að þurfi að ná út úr þeirri efnahagsmálakreppu, sem ég vil kalla þetta, því að það er alveg greinilegt að það er vandamál fram undan sem þarf að sigla út úr og það verður ekki gert auðveldlega. Menn eru ekki að auðvelda sér það sem fram undan er með þeim fjárlögum sem hér stendur til að samþykkja, það er alveg ljóst. Það er greinilegt að menn binda vonir við að með því að greiða niður gjaldeyri, með því að halda uppi genginu eins og hér er stefnt að með viðskiptahalla og þeim aðgerðum sem hafa verið í gangi af hálfu Seðlabankans, halda uppi háum vöxtum líka, verði hægt að fresta vandamálunum og vonirnar eru bundnar við það að þau líði síðan frá.

Mér finnst ekki líklegt að svona fari. Ég held að það sem er að gerast sé það að menn eru að byggja upp stíflu í efnahagslífinu. Hún hefur reyndar verið byggð upp fyrir þó nokkuð löngu að mestu leyti en haldið er áfram að hlaða ofan á hana með þeim fjárlögum sem nú á að fara að samþykkja. Að leiða einhverja kúna út úr fjósinu til að selja er ekki björgulegur búskapur. Það kann að vera að menn bindi vonir við að þetta gangi allt saman upp en vaxandi verðbólga, áframhaldandi mikill viðskiptahalli, óstöðugt gengi krónunnar, sem er haldið uppi með aðgerðum, segja okkur að í raunveruleikanum mundi gengið falla ef ekki væru notuð öll ráð til þess að koma í veg fyrir það. Ráðin sem eru notuð til að reyna að koma í veg fyrir að gengið falli eru ekki bara Seðlabankans því að það eru fleiri sem eiga hlut að máli. Það er nánast allt fjármálakerfi í landinu að reyna að koma í veg fyrir að gengið fari neðar því að menn hafa hreinlega ekki efni á því að gengið falli meira. Þess vegna standa menn með krónunni eins og það heitir í dag. Hvað segir það okkur að bæði Seðlabankinn og nánast allt fjármálakerfið í landinu stendur með krónunni? Það segir okkur að það þarf þetta til, samt titrar gengið alla daga.

[22:45]

Við verðum að vona það besta, a.m.k. gerum við það flestir, ekki þó allir. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson lét það mjög greinilega í ljósi að hann teldi að gengið ætti að fá að falla eitthvað meira. Hann hélt því líka fram að viðskiptahallinn væri að stórum hluta til vegna eyðslu. Hæstv. forsrh. Davíð Oddsson hélt því fram að þetta væri góðkynja viðskiptahalli og hann væri ekki kominn til vegna eyðslu. Verulega hefði dregið úr eyðslunni, þetta væru fjárfestingar. Það væri gott að einhver skæri úr um hvað þarna er á ferðinni, hvort það er eyðsla eða fjárfestingar.

Að minnsta kosti er órói í fjármálakerfi landsins og ástæða er til að hafa miklar áhyggjur af því. Það er líka órói á vinnumarkaðnum. Kennaraverkfall stendur yfir og samningar eru í gangi. Það eru samningar lausir á vinnumarkaðnum og líkur eru til þess að aðrir samningar á vinnumarkaðnum losni. Allar vísbendingarnar sem eru uppi núna benda til þess að mjög erfitt verði að halda aftur af verðbólgunni og viðskiptahallinn muni halda áfram að vaxa.

Síðan er það ekki heldur traustvekjandi að hæstv. ráðherrar tali út og suður. Hæstv. ráðherrar Sjálfstfl. og flestir þingmenn Sjálfstfl., ekki allir, tala eins og allt sé í fína lagi, allt í góðu lagi, bara fínt ástand í efnahagsmálunum. En hæstv. ráðherrar Framsfl. og hv. þingmenn Framsfl. sjá váboða í hverju horni. Það eru vandamál uppi. Hæstv. utanrrh. sagði mjög greinilega á fundi, sem Framsfl. hélt, að það bæri að viðurkenna að hættumerki væru uppi. Hæstv. forsrh. bar þetta allt til baka í dag. Hann hafði allt aðra skoðun á málinu. Þetta er ekki mjög traustvekjandi frá einni hæstv. ríkisstjórn að menn skuli tala með þessum hætti út og suður, skuli ekki hafa eina skoðun á því hvernig efnahagsmálin líta út. Það vantar mikið á að þar sé talað einum rómi.

Ég ætla ekki að lengja umræður með því að fara yfir einstök mál. Ég hef þann skilning og ég hef samúð með því að hv. alþingismenn eru ekki í neinum færum til þess og síst alþingismenn stjórnarandstöðunnar að vera á móti einstökum málum. Menn verða að horfa á málin í heild sinni og það hlýtur alltaf að verða á ábyrgð þeirra sem hafa tekið völdin og bera ábyrgð á lýðræðislegum meiri hluta, hvort sem það er í ríkisstjórn, bæjarstjórnum eða annars staðar, að hafa þá heildaryfirsýn sem þarf og taka þær ákvarðanir sem ráða rammanum utan um fjárlög eða fjárhagsáætlanir.

Við sjáum hvar sá rammi liggur. Hann liggur þannig að hér er verið að eyða miklu meiri fjármunum en mögulegt er að hafa til ráðstöfunar í framtíðinni þegar samdráttur hefur gengið í garð. Fyrir utan það að tekjustofnar ríkisins, sem eru núna til staðar, munu ekki verða það áfram. Þá þurfa menn að horfast í augu við að leggja á nýja skatta. Yfirlýsingar stjórnarþingmanna, líka hæstv. ráðherra og hv. þingmanna, liggja fyrir um það að menn vilji leggja af suma skatta sem ríkið hefur núna eða ríkissjóður hefur núna til tekjuöflunar. Þar má nefna stimpilgjaldið. Það hefur komið mjög skýrt fram að hæstv. fjmrh. vill að það verði lagt af og ég er honum sammála um að það þurfi að gera. Það liggur líka fyrir að það er sennilega nokkuð öruggur stór meiri hluti fyrir því að hér verði lagðir af eignarskattar, þá þarf að taka á því.

Ríkissjóður hefur ekki til frambúðar neina tekjumöguleika sem skila slíkum tekjum í ríkissjóð sem hann hefur haft núna á þessum árum þenslunnar þegar samdrátturinn gengur í garð.

Ég ætla, hæstv. forseti, ekki að hafa ræðu mína lengri. Ég hef því miður ekki neitt sérstakt jákvætt að segja um lok fjárlagaumræðunnar. Mér finnst að menn séu ekki að standa vaktina eins og hefði þurft að gera. Sú ríkisstjórn sem situr núna er ekki líkleg til stórræðanna til að taka á þegar erfiðleikarnir ganga í garð. Hún hefur sýnt það með því að standa fyrir þrennum kosningafjárlögum í röð. Það er ekki hægt að kalla þessi fjárlög annað en kosningafjárlög því að aðhaldið sem er í þeim er nákvæmlega ekki neitt. (Gripið fram í: En engar kosningar.) En engar kosningar. Þrenn kosningafjárlög, engar kosningar.

Ég hef lokið máli mínu, hæstv. forseti.