Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 23:29:51 (3105)

2000-12-08 23:29:51# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[23:29]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir að vekja athygli á þáltill. um sjónvarpssendingar á öll heimili á Íslandi. Ég var 1. flm. þessarar tillögu í fyrra. Með mér voru allmargir þingmenn allra flokka eins og fram kom í máli hv. þm. Auðvitað er það mannréttindamál og sjálfsagt í upphafi 21. aldar að allir geti setið við sama borð og sjónvarpið sé allra landsmanna.

Samt sem áður er það svo að með litlu meiri kostnaði en reiknað var út að yrði af því að koma sjónvarpsdreifikerfinu í það gagn að það nýttist öllum væri hægt að koma öllum tengingum til viðkomandi heimila, t.d. tölvutengingum og öðru slíku. Ég hyggst í upphafi vorþingsins leggja fram aðra tillögu um útreikning á því hversu miklu meiri kostnaður það væri að koma ISDN-línum og ljósleiðara til allra þessara heimila og annarra í dreifðum byggðum landsins.