Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 23:32:54 (3107)

2000-12-08 23:32:54# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, Frsm. meiri hluta JónK
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[23:32]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna sem hefur staðið daglangt en ég vil aðeins þakka fyrir málefnalega og góða umræðu. Nú er komið að lokum 3. umr. um fjárlög, atkvæðagreiðsla verður á mánudaginn. Þó að þetta sé ein mikilvægasta lagasetning sem Alþingi gengur frá er ekki öllum málum lokið með samþykkt fjárlagafrv. Auðvitað er það ætíð svo að einhverjar útfærslur verða eftir og mál koma upp sem þarf að vinna að þó fjárlagafrv. sé orðið að lögum.

Við hjá fjárln. höfum ætíð ýmis verk að vinna og umsóknir berast til okkar allan þann tíma sem við erum að störfum þó við höfum frest til að skila umsóknum um fjárveitingar. Ég vil sérstaklega nefna eina umsókn sem barst til okkar en við höfum ekki tíma til að vinna að en það var umsókn um styrk til eftirmeðferðarheimilis fyrir þroskahefta og seinfæra einstaklinga í langtímameðferð í Hrísey en þar er húsnæði til staðar fyrir slíka starfsemi og slík úrræði vantar. Þetta erindi vannst ekki tími til að ræða á fundum fjárln. en ég vildi undir lok umræðunnar mæla með því við félmrn. að það taki þetta mál og vinni að því þannig að möguleiki sé þegar við komum næst að málinu að við fjöllum þá rækilega um það.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna enda hefur ekki verið beint til mín neinum sérstökum spurningum. Við höfum venjulega endað umræðuna, ég og hv. 13. þm. Reykv., með því að tala örlítið um einkavæðingu. Ég ætla ekki að orðlengja um það en mér finnst hann oftúlka nokkuð afstöðu mína til einkavæðingar.

Eitt vil ég þó taka fram í lokin að ekkert ber á milli okkar hæstv. heilbrrh. í þessum efnum. Við höfum algjörlega sömu afstöðu til einkavæðingar í heilbrigðiskerfinu.

Ég held ég ljúki umræðunni með þeim orðum og endurtek þakkir mínar til stjórnarandstöðunnar fyrir málefnalega umræðu í dag.