Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Mánudaginn 11. desember 2000, kl. 11:03:46 (3109)

2000-12-11 11:03:46# 126. lþ. 45.91 fundur 183#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 126. lþ.

[11:03]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Samkvæmt starfsáætlun Alþingis er meiningin að jólahlé verði á fundum Alþingis frá og með föstudeginum 15. þessa mánaðar. Þannig háttar til að í dag verða ekki reglulegir þingfundir fyrir utan atkvæðagreiðslur þannig að eftir standa þá fjórir virkir dagar af starfstíma Alþingis. Engu að síður er það svo, herra forseti, að okkur eru að berast fréttir um það utan úr bæ að til standi jafnvel að henda inn í þingið á allra síðustu sólarhringum eða jafnvel klukkutímum, sem ætlunin var að yrði þinghald fyrir jól, stórmáli sem er fyrirhuguð sameining ríkisviðskiptabankanna og afgreiðsla á því máli fyrir jól. Þetta hlýtur, herra forseti, að teljast nokkuð sérstætt í ljósi þess hversu stórt mál er þar á ferð og þær aðstæður sem okkur þingmönnum eru með þessu ætlaðar ekki mjög góðar.

Það mætti ýmislegt um þessi bankamál öll segja, herra forseti, en það er ekki tilefni til að ræða þau efnislega nú þótt ýmislegt bendi reyndar til þess að ætlunin sé að reyna að knýja fram niðurstöðu í tímapressu þannig að málið nái fram fyrir jólaleyfi og hæstv. viðskrh. reyni að fara að knýja áfram niðurstöðu í málinu sem með miklum ólíkindum hlýtur að teljast.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, í ljósi þessa, að spyrja hæstv. forseta og þar sem svo vel vill til að hæstv. viðskrh. er hér einnig: Er hægt að veita okkur þingmönnum einhverjar upplýsingar um stöðu þessa máls? Er við því að búast að starfsáætlun Alþingis verði hent á haugana, ef svo má að orði komast, einhvern næstu daga með því að stórmáli sem ekki var vitað til þegar starfsáætlunin var samin að yrði hér til umfjöllunar, verði kastað inn á borð okkar þingmanna?