Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Mánudaginn 11. desember 2000, kl. 11:06:03 (3110)

2000-12-11 11:06:03# 126. lþ. 45.91 fundur 183#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (aths. um störf þingsins), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 126. lþ.

[11:06]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Mér finnst í sjálfu sér mjög eðlilegt að hv. þm. taki þetta mál upp í upphafi fundar þar sem það er mikil óvissa og því miður get ég ekki létt á þeirri óvissu á þessari stundu vegna þess að ég veit ekki á þessari stundu hvort málið kemur inn í þingið.

Eins og allir hv. þm. vita er þetta mál til umfjöllunar hjá samkeppnisráði og á meðan samkeppnisráð hefur ekki svarað og ekki kveðið upp úrskurð þá veit ég ekki hver úrskurðurinn verður. Ég hef hins vegar undirbúið málið þannig í mínu ráðuneyti að það verður ekkert að vanbúnaði að leggja fram frv. á hv. Alþingi strax og niðurstaða fæst ef hún er á þá lund að þetta sé mögulegt. Ég geri mér fulla grein fyrir því að tíminn er skammur og hv. þm., sem kannski loksins voru farnir að eygja þá von að fá jólaleyfi samkvæmt starfsáætlun, geta ekki á þessari stundu verið vissir um að svo verði. Ég vonast eftir því að hv. Alþingi sé tilbúið til þess að vinna að þessu máli ef niðurstaðan verður sú að hægt verði að sameina bankana. Ég tel að hv. þm. hafi ýmsar upplýsingar og þetta mál sé ekki í sjálfu sér algjörlega nýtt á döfinni og það sé mögulegt að samþykkja frv. fyrir jólaleyfi sem geri okkur þetta mögulegt.

Þetta er það sem ég vildi segja og ég legg áherslu á það í lokin að ef það verður niðurstaðan að sameina bankana þá er mjög mikilvægt ef ekki algjörlega nauðsynlegt að lög um það verði sett fyrir jól.