Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Mánudaginn 11. desember 2000, kl. 11:10:19 (3112)

2000-12-11 11:10:19# 126. lþ. 45.91 fundur 183#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (aths. um störf þingsins), SvH
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 126. lþ.

[11:10]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það er leitt til þess að vita að uppi skuli vera mikil óvissa um þetta mikilvæga mál. En það er ekki tímaskortur sem gerir það að verkum að gjörsamlega er útilokað að taka það til endanlegrar afgreiðslu á næstunni heldur það heiftarklúður sem þetta mál er komið í.

Það var að mínum dómi mjög áhugavert að sameina þessi fyrirtæki af því sem ég þóttist sjá það út undan mér fyrir margt löngu að það kynni að verða sparnaður í rekstri fyrirtækjanna sameinaðra upp á 1 milljarð kr. og menn grípa ekki slíkt fé upp af götu sinni. En frá upphafi þessa máls að því er mér virðist hefur ekki verið rétt að því staðið og að því unnið af því sem þetta er mjög viðkvæmt mál án þess að ég ætli, herra forseti, að fara að ræða það mjög efnislega. Banki er meira en hús eða stjórn eða starfsfólk heldur fyrst og fremst viðskiptavinir hans.

Starfsfólkið sjálft og viðskiptavinirnir hafa verið hafðir algjörlega út undan í því starfi sem unnið hefur verið. Og nú er bætt gráu ofan á svart með því að hæstv. bankamálaráðherra setur af bankaráðið og bankastjóra Búnaðarbankans og fiskar þar upp deildarstjóra þó að hann kunni að vera með nýtt framsóknarflokksskírteini upp á vasann. Slík óvild og andstaða sem býr í starfsfólki bankans sem menn ættu að kynna sér sjálfir veldur því að hér kemur ekki til nokkurra mála að rasa að þessu. Þetta mál þarf að setja á ís í eins og tvö til þrjú ár og athuga það þá því að ef það verður tekið til afgreiðslu með þessum hætti eins og mál standa nú, þá mun eigandinn, skattþegninn, tapa stórlega á málinu. Sameinaður banki --- munið orð mín --- verður þá innan árs orðinn jafnstór eða minni en Landsbankinn einn er í dag.