Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Mánudaginn 11. desember 2000, kl. 11:12:31 (3113)

2000-12-11 11:12:31# 126. lþ. 45.91 fundur 183#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 126. lþ.

[11:12]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. hefur komið fram í fjölmiðlum og átalið klaufaleg vinnubrögð bankanna í sameiningu eða viðræðum um hugsanlega sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka og kallað eftir faglegum vinnubrögðum um þetta mál. Nú er það svo að margoft hefur verið óskað eftir því að þetta mál komi til umfjöllunar á Alþingi og þess vegna faglegrar, vandaðrar og ítarlegrar umræðu.

Ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst á takmörkunum að hægt sé að bjóða þjóðinni upp á þau vinnubrögð að halda Alþingi í óvissu um það hvort þetta mál komi yfirleitt fyrir þingið núna fyrir jólin og starfsmönnum bankans er ekki hægt að bjóða upp á vinnubrögð af þessu tagi. En þá fyrst fannst mér kasta tólfunum þegar hæstv. viðskrh. kom fram í sjónvarpi í gær og gaf yfirlýsingu um hvernig hún ætlaði að skáka fulltrúum Búnaðarbankans til á taflborði stjórnmálanna. Eitthvað fannst mér skorta þar á fagleg vinnubrögð og eitthvað fannst mér þetta lykta meira af pólitík, þröngri hagsmunapólitík sem er ekki bjóðandi upp á á Alþingi.