Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Mánudaginn 11. desember 2000, kl. 11:17:59 (3116)

2000-12-11 11:17:59# 126. lþ. 45.91 fundur 183#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 126. lþ.

[11:17]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að það hafi verið óhjákvæmilegt að fá þessa umræðu um stöðu þessa máls gagnvart þinginu. Hæstv. ráðherra viðurkennir að fullkomin óvissa sé uppi og nefnir þar til sögunnar úrskurð samkeppnisráðs. Það virðist reyndar ekki síður vera óvissa uppi vegna klúðurs í málsmeðferðinni sjálfri samanber það hnútukast milli formanns bankaráðs Búnaðarbankans og hæstv. ráðherra sem hér hefur ítrekað verið gert að umtalsefni. Það var satt best að segja og undir það skal tekið með ólíkindum að heyra ásakanir ganga á víxl, annars vegar um klaufaleg vinnubrögð af hálfu bankaráðs Búnaðarbankans og hins vegar að hæstv. ráðherra hefði lélega heimildarmenn og væri illa upplýst um það sem fram hefði farið í þessum samningaviðræðum sem voru svörin af hálfu forsvarsmanna Búnaðarbankans.

Ég tek það fram, herra forseti, fyrir mitt leyti að ég tel ekki eftir mér að vinna einhverja daga umfram starfsáætlun og okkur er að sjálfsögðu ekki vandara um, þingmönnum en öðrum að vinna fram að jólafríi og það er ekki það sem hér er ámælisvert heldur það sem stefnir í varðandi vinnubrögð, það flaustur og óðagot sem hér á að fara að bjóða upp á, ef til kemur, í afgreiðslu stórmáls af þessu tagi er náttúrlega algerlega óverjandi. Mér sýnist að menn ættu þann kost skástan að ákveða hér og nú að það gengi auðvitað ekki að láta það hvarfla að sér að ljúka þessu bankamáli með þessum hætti, stórmáli af þessu tagi sem vekur ótal spurningar og er það fyrirferðarmikið m.a. hvað varðar samkeppnislöggjöfina og áhrif þar að Samkeppnisstofnun hefur þurft mikinn mannafla og margar vikur til þess að liggja yfir málinu og hefur þó ekki komist í gegnum það enn.

Herra forseti. Ég tel svo óhjákvæmilegt að þetta mál og ýmsir atburðir sem orðið hafa í því og þar á meðal nú yfir helgina komi til efnislegrar umræðu. Það er rétt að það komi fram að þingflokkur Vinstri hreyfingar -- græns framboðs hefur óskað eftir utandagskrárumræðu um málið.