Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Mánudaginn 11. desember 2000, kl. 11:21:49 (3118)

2000-12-11 11:21:49# 126. lþ. 45.91 fundur 183#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (aths. um störf þingsins), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 126. lþ.

[11:21]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Samfylkingarinnar Svanfríður Jónasdóttir talaði um fráleita aðferð af minni hálfu í þessu máli, þ.e. að málinu skuli hafa verið vísað til samkeppnisráðs til úrskurðar, og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, kvaddi sér hljóðs á Alþingi sérstaklega til þess að beina mér inn á þessa braut, eða þannig mátti skilja orð hans. Þetta er núna kölluð fráleit aðferð. Þetta er sú lýðræðislega aðferð sem ég kaus að fara í þessu máli. Það er þess vegna sem við erum í þessari tímaþröng vegna þess að samkeppnisráð þarf að taka þennan tíma til þess að fara yfir málið og tíminn er orðinn naumur sem hv. Alþingi hefur, það er rétt.

Ég tel hins vegar að við höfum möguleika á Alþingi að ljúka málinu fyrir jól og ég vonast til þess að hv. þm. sýni samstarfsvilja í þeim efnum að þetta sé mögulegt. Bankarnir eru fyrirtæki sem eru skráð á markaði. Við vitum öll að það er ekki æskilegt fyrir fyrirtæki sem þannig er ástatt um að vera í opinberri umræðu vikum saman eins og hv. þm. virðast vera að tala um.

Út af þeirri umræðu sem fór fram um helgina og varðaði Búnaðarbankann vil ég segja að ég taldi nauðsynlegt að grípa inn í það mál og ég sem fer með eignarhlut ríkisins, sem er yfir 70% í bankanum, hlýt að hafa fullan rétt á því að kalla formann bankaráðs á minn fund og beina tilmælum til hans. Hann er skipaður af mér. Ég hef ekki farið fram á neitt við bankaráðið. Ég kallaði formanninn á minn fund vegna þess að ég hafði áhyggjur af vinnubrögðum Búnaðarbankans í málinu af því að tíminn er svo skammur sem raun ber vitni. Þetta er málið. Ég lak því ekki í fjölmiðla.