Fjárlög 2001

Mánudaginn 11. desember 2000, kl. 11:55:50 (3133)

2000-12-11 11:55:50# 126. lþ. 45.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 126. lþ.

[11:55]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það er að okkar dómi stóralvarlegt mál að ríkisstjórnin skuli ætla að ganga frá fjárlögum með húsnæðismálin í fullkominni óvissu, leiguíbúðakerfið fjárvana. 50 millj. kr. eru ætlaðar til stuðnings félagslegu húsaleigukerfi. Þetta eru fjármunir til lánveitinga en ekki til að styrkja þetta kerfi og það er mjög alvarlegt mál. Við leggjum til 750 millj. kr. framlag til stuðnings félagslegu leiguhúsnæði. Það mundi duga ekki aðeins til að halda í horfinu heldur til þess að stíga skref fram á við og bæta stöðu fólks sem á í húsnæðiserfiðleikum. Það er brýnt mál. Það er þjóðþrifamál.