Fjárlög 2001

Mánudaginn 11. desember 2000, kl. 12:11:26 (3140)

2000-12-11 12:11:26# 126. lþ. 45.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 126. lþ.

[12:11]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Við umræður um fjárlögin voru framsóknarmenn spurðir að því hvernig á því stæði að þeir ætluðu ekki að standa að fullu við loforð sín um að stórbæta stöðu barnafólks. Sem kunnugt er á að bæta í barnabæturnar en þó ekki meira en svo að þær verða ekki jafngildar því sem þær voru fyrir 10 árum síðan, ekki heldur því sem þær voru þegar þeir settust að völdum. Ótengdar barnabætur verða 33 þús. kr. en ekki 40 þús. eins og þær voru 1997 og aðeins til sjö ára aldurs.

Fulltrúi Framsfl. við umræðuna sagði að það væri eitt að setja fram kosningaloforð, annað að gera stjórnarsáttmála og mátti skilja að það væri Sjálfstfl. sem stæði í vegi fyrir því að kosningaloforð framsóknarmanna næðu fram að ganga. Nú gefst framsóknarmönnum kostur á því að standa við sín eigin loforð.