Fjárlög 2001

Mánudaginn 11. desember 2000, kl. 12:28:38 (3148)

2000-12-11 12:28:38# 126. lþ. 45.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, JB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 126. lþ.

[12:28]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um hvort veita skuli heimild til sölu á allmörgum jörðum í eigu ríkisins. Herra forseti. Það liggur ekki fyrir nein stefnumörkun af hálfu landbrn. eða úttekt á því hvernig best væri að verja þessum eignum af hálfu ríkisins, ekki einu sinni í þeim reglum sem landbrn. hefur sjálft sett sér um að kanna náttúrugildi og útivistargildi jarðanna liggur fyrir.

Ein er sú jörð sem þarna er sérstaklega nefnd. Það er jörðin Reykir í Hjaltadal en þar fær Hitaveita Hjaltadals sitt heita vatn. Þar er mikið heitt vatn í jörðu og það er algjört glapræði að bjóða þessa jörð fala til kaups. Ég beini þeim eindregnu tilmælum til ríkisstjórnarinnar og til hæstv. landbrh. að endurskoða þessa afstöðu sína. Reykir í Hjaltadal er ein af perlum Hjaltadals og er hluti af því landi sem liggur að Hólum og Hitaveita Hjaltadals á þar sín upptök.