Frestun vegaframkvæmda

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 13:50:47 (3164)

2000-12-12 13:50:47# 126. lþ. 46.1 fundur 189#B frestun vegaframkvæmda# (óundirbúin fsp.), GE
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[13:50]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hæstv. samgrh. er þetta vinsæl fyrirspurn að gefnu tilefni en ég vil þakka fyrir þau svör sem ég fékk. Þau skýra þó málið ekkert frekar en sú umræða sem hefur verið frá því á haustdögum. En fyrirspurnir eru oft bornar fram vegna þess að engin svör koma. Það er ástæðan.

Eins og fram kom í máli mínu áðan og hefur gert oftar en tvisvar í haust, þá sagði hæstv. ráðherra að upplýsingar mundu liggja fyrir fyrir og við 2. umr. um þetta mál. Þess vegna ítreka ég spurninguna núna og ég tel að það sé brýn nauðsyn á að svör komi. Mér er alveg ljóst að ærið oft hefur það verið þannig að talað hefur verið um frestun framkvæmda og síðan hefur það verið ákveðið með endurskoðun. En það háttar öðruvísi til núna, hæstv. samgrh.