Vegurinn yfir Möðrudalsöræfi

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 13:55:09 (3168)

2000-12-12 13:55:09# 126. lþ. 46.1 fundur 190#B vegurinn yfir Möðrudalsöræfi# (óundirbúin fsp.), JHall
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[13:55]

Jónas Hallgrímsson:

Virðulegur forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. samgrh. Merkum áfanga var náð nú á haustdögum þegar nýr vegur, svonefnd Háreksstaðaleið, milli Norður- og Austurlands var tekin í notkun og ég undirstrika að fagna ber sérstaklega þeim vegabótum. En galli gæti leynst á gjöf Njarðar.

Álykta má þar til annað kemur formlega fram að með tilkomu þessarar nýju þjóðleiðar leggist vegurinn um Möðrudalsöræfi af og það yrði afskaplega slæmt um ferðamannatímann a.m.k. Ekki er einasta að útsýni frá veginum um Möðrudalsöræfi sé stórbrotið og ógleymanlegt hverjum sem um fjöllin fer, heldur verða ferðaþjónustufyrirtæki á svæðinu, svo sem við Sænautasel og í Möðrudal, afskipt með samgöngur og viðskipti mundu stórminnka og þar með væri tilverurétti þeirra ógnað.

Þá má benda á að frá gömlu þjóðleiðinni um Möðrudal tengjast aðrar leiðir inn á hálendið, svo sem inn í Kverkfjöll og til fleiri staða. Því leyfi ég mér að spyrja hæstv. samgrh.: Mun hæstv. samgrh. beita sér fyrir að gömlu þjóðleiðinni um Möðrudal verði haldið við og opinni fyrir almennri umferð frá vori til hausts svo lengi sem fært þykir og auðvelda þannig aðgang ferðaþjónustu og ferðamanna að þeim möguleikum sem þar felast?