Sýslumannsembættið í Ólafsfirði

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 14:07:26 (3178)

2000-12-12 14:07:26# 126. lþ. 46.1 fundur 192#B sýslumannsembættið í Ólafsfirði# (óundirbúin fsp.), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[14:07]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. hvað varðar sýslumannsembættið á Ólafsfirði. Nú er komið á annað ár síðan sýslumaðurinn var fluttur frá Ólafsfirði og mun hann hafa verið fluttur til Siglufjarðar. Síðan hefur ekkert gerst formlega í málum embættisins á Ólafsfirði. Allt virðist vera í lausu lofti. Að minnsta kosti er bæjarstjórninni á Ólafsfirði ekki kunnugt um það og fólkinu því síður hver áform ráðuneytisins eru varðandi þjónustu við Ólafsfjörð. Ég tel að mjög mikilvægt sé að hæstv. ráðherra og ráðuneytið gefi fólkinu skýra línu um hvernig á að haga þjónustunni við Ólafsfjörð í framtíðinni.

Allir vita að spurningin er um hvort þjónustan fer fram frá sýslumannsembættinu á Akureyri en þá hefur bæjarstjórnin sett fram skýra kröfu um að opinber störf komi í staðinn sem verði þá hjá embættinu á Ólafsfirði. Allt er þetta gerlegt. Það er mjög mikilvægt að heyra frá hæstv. ráðherra hver áformin eru.

Einnig er vert að geta þess að ráðuneytið mun hafa flutt lögregluna í sýslumannsembættisbústaðinn á Ólafsfirði án þess að formlega væri gengið frá kynningu, hvað þá samráði við bæjarstjórnina um slík áform og það bendir til þess að ekki sé allt í lagi í sambandi við samskipti ráðuneytis og yfirvalda á Ólafsfirði.