Aðgerðir lögreglunnar í fíkniefnamálum

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 14:17:05 (3186)

2000-12-12 14:17:05# 126. lþ. 46.1 fundur 193#B aðgerðir lögreglunnar í fíkniefnamálum# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[14:17]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra. Ég geri alls ekki lítið úr mikilvægi leitarhunda og fíkniefnahunda. Þeir eru mjög gagnlegir, t.d. í baráttunni við fíkniefnin. En ég get aldrei sætt mig við að hundum sé sigað á börn eða unglinga eða fólk yfirleitt, sérstaklega ekki í þessu tilviki eins og virðist vera. Það segir í fréttinni --- ég hef ekki frekari heimildir en þessa frétt á vegum Morgunblaðsins --- að hundurinn hafi elt þennan dreng upp á fjöll. Svo virðist sem hundurinn hafi verið sendur á eftir barninu. Mér finnst það óhugnanlegt og ég vonast til að hæstv. ráðherra stöðvi þessi mál og sjái til að slíkum aðferðum verði ekki beitt.