Staðan í viðræðum um sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 14:18:34 (3188)

2000-12-12 14:18:34# 126. lþ. 46.94 fundur 199#B staðan í viðræðum um sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[14:18]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Stutt hefur verið milli stóratburða í heimi íslenskra fjármálastofnana undanfarin ár. Nú er nýjasti kaflinn í þeirri sögu að skrifast með næsta dramatískum hætti í fjölmiðlum. Orðaskipti hæstv. viðskrh. og formanns bankaráðs Búnaðarbankans í fjölmiðlum um helgina sæta vissulega tíðindum. Það er ekki á hverjum degi sem samstarfsaðilar á æðstu stöðum saka hver annan um klaufaskap, ófagleg eða ómarkviss vinnubrögð, um að vera upplýstur af vondum heimildarmönnum o.s.frv., svo teknar séu nokkrar tilvitnanir í fjölmiðla af skeytasendingunum um helgina.

Tilraunir hæstv. viðskrh. til íhlutunar í samrunaferli Landsbankans og Búnaðarbankans með þeim hætti sem raun ber vitni vekur margar spurningar.

Í fyrsta lagi vakna spurningar um lagalegan grundvöll hæstv. ráðherra til slíkrar íhlutunar. Ljóst er að í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði og í lögum um hlutafélög er hlutverk bankaráðanna ótvírætt í þessum efnum. Bankaráðin eða ígildi stjórnar í hlutafélagi, þegar hlutafélagabankar eiga í hlut, eru kosin af aðalfundum, af hluthafafundum í heild sinni og bera ábyrgð gagnvart hluthöfum á hluthafafundi. Þeir eru óumdeilanlega, sbr. 31. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði, æðsta stjórn fyrirtækisins milli aðalfunda og þeir fara jafnframt, skv. 39. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði, sérstaklega með það verkefni að taka ákvarðanir um og leggja til við hluthafafund mögulegan samruna við aðrar fjármálastofnanir.

Í öðru lagi þarf að hyggja að því að ríkið er ekki eitt eigandi bankanna lengur. Þar eiga aðrir hluthafar sinn rétt og þeir eru ekki þeir sömu í tilviki hvors banka um sig. Hagsmunir þeirra eru fólgnir í sanngjarnri og réttlátri málsmeðferð og eðlilegri skiptingu eða eðlilegum hlutföllum þegar eignarhlutur bankanna er metinn saman.

Síðast en ekki síst, herra forseti, er staða hæstv. viðskrh. í þessu tilviki mjög sérstök og afar vandmeðfarin. Hæstv. viðskrh. er fyrir utan það að fara með eignarhlutinn jafnframt yfirmaður bankamála, viðskrh. og yfirmaður Samkeppnisstofnunar sem jafnframt hefur þetta til umfjöllunar og forúrskurðar. Í því samhengi má velta fyrir sér, herra forseti, hvort ekki væri vænlegra í þessu tilviki, hvort þetta mál sé ekki rök fyrir því, að koma eignarhlut ríkisins fyrir með öðrum hætti en að hann sé milliliðalaust í höndum fagráðherra. Ef annaðhvort sjálfstætt eignarhaldsfélag ríkisins eða hæstv. fjmrh. hefði farið með eignarhlutinn í þessu tilviki þá hefði það væntanlega einfaldað málin og komið í veg fyrir að hæstv. viðskrh. kæmist í þessa afar vandasömu stöðu. Þeim mun vafasamara, herra forseti, og skal ekki kveðið fastar að orði, hlýtur að teljast, í ljósi þessara aðstæðna, að hæstv. viðskrh. reyni að koma fram íhlutun í lögbundið hlutverk bankaráðanna eins og raun ber vitni.

Í gegnum þetta ferli, herra forseti, hefur starfsfólk bankanna búið við mikla óvissu. Því miður hafa engar tryggingar verið gefnar af hálfu stjórnenda bankanna, hæstv. ráðherra eða ríkisstjórnar fyrir því að ekki komi til uppsagna. Þó hefði verið lágmark að a.m.k. einhver tími yrði tryggður til þess að skoða málefni starfsmanna og auðvelda þeim sem gætu ekki unnið áfram við hinn sameinaða banka, ef af yrði, að finna sér önnur störf.

Það er ljóst, herra forseti, að þetta mál er nánast í upplausn. Þau orð sem hæstv. viðskrh. valdi formanni bankaráðs Búnaðarbankans og Búnaðarbankanum eiga nú væntanlega betur við um málsmeðferð hæstv. ráðherra sjálfs. Ég er þá að vísa til klaufaskapareinkunnargjafar.

Ég hef leyft mér að spyrja hæstv. viðskrh. eftirfarandi spurninga í þessu sambandi og með vísan til þessa rökstuðnings:

1. Til hvaða atriða vísar ráðherra þegar talað var um klaufaleg vinnubrögð af hálfu Búnaðarbankans í sameiningarviðræðunum?

2. Í krafti hvaða lagaákvæða var tilraun ráðherra til íhlutunar um það hvernig yfirstjórn Búnaðarbankans stæði að málum í sameiningarviðræðunum?

3. Er þess að vænta að starfsfólk fái tryggingu fyrir því að ekki komi til uppsagna ef af sameiningu verður?

4. Er það enn á dagskrá að leggja frv. um sameiningu bankanna fram á Alþingi fyrir jól?

5. Hvað er því til fyrirstöðu að sameining bankanna verði reikningslega miðuð við áramót en unnin endanlega á næstu mánuðum þar á eftir eins og algengt er með sameiningu fyrirtækja og eins og gert var í tilviki sameiningar Íslandsbanka og Fjárfestingarbanka atvinnulífisins?