Staðan í viðræðum um sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 14:28:19 (3190)

2000-12-12 14:28:19# 126. lþ. 46.94 fundur 199#B staðan í viðræðum um sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[14:28]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Með fádæma klaufaskap og klúðri hefur hæstv. ráðherra komið sér í nokkuð alvarlega klípu sem erfitt er að sjá að gangi upp gagnvart hlutafélagalögum. Þessi sneypuför hæstv. ráðherra virðist farin að lykta af yfirtöku Landsbankans á Búnaðarbankanum í stað sameiningar bankanna. Um leið hefur hæstv. ráðherra sýnt starfsfólki bankanna fullkomna lítilsvirðingu. Það býr nú við meiri óvissu en nokkru sinni um starfsöryggi sitt. Hæstv. ráðherra hefur aðeins unnið það með framgöngu sinni í málinu að fá á baukinn opinberlega frá formanni bankaráðs Búnaðarbankans. Það er spurning hvort hæstv. ráðherra ætlar að leysa bankaráð frá störfum sem hunsar svo vilja hæstv. ráðherra.

Í ofanálag hefur hæstv. ráðherra tekist að ýta enn undir þann ótrúverðugleika sem þessi risasameining hefur á markaðnum. Ótrú markaðarins á þessari sameiningu birtist í miklu verðfalli þessara banka með ærnu tapi fyrir skattgreiðendur. Þannig hefur gengi og markaðsvirði Búnaðarbankans fallið um 20,5% og Landsbankans um 23% frá þeim degi að ríkisstjórnin setti fram tilmæli sín um samruna Búnaðarbanka og Landsbanka 12. október fram til dagsins í dag eða um 11 milljarða kr. Á sama tíma hefur markaðsvirði Íslandsbanka-FBA aðeins minnkað um tæp 10% og úrvalsvísitala á sama tímabili um 10,7%.

Stofnun þessa bankarisa mun stuðla að enn frekari einokun og fákeppni á bankamarkaði sem bitnar sérstaklega harkalega á allri þjónustu við einstaklinga á landsbyggðinni sem greiða fyrir með hærri kostnaði og verri þjónustu. Því verður vart trúað að Samkeppnisstofnun muni gefa grænt ljós á þessa sameiningu, ekki síst út frá gífurlegri markaðshlutdeild þessa bankarisa í einstaklingsþjónustunni.

Hæstv. viðskrh. ætti þegar í stað fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að viðurkenna mistök í þessu máli og hætta að misbjóða þingi og þjóð í kapphlaupi sínu við að knýja þetta risamál með offorsi í gegnum Alþingi án þess að nauðsynlegar skýrslur og úttektir liggi fyrir í málinu.