Staðan í viðræðum um sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 14:32:32 (3192)

2000-12-12 14:32:32# 126. lþ. 46.94 fundur 199#B staðan í viðræðum um sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), SvH
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[14:32]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Hér hefur því verið haldið fram að umsögn hinnar svonefndu Samkeppnisstofnunar muni ráða úrslitum um hvort mál þetta fær framgang eða ekki. Sá sem hér stendur getur ekki lagt mjög mikið upp úr umsögn Samkeppnisstofnunar. Hann varð áheyrsla að því ekki alls fyrir löngu að sú stofnun taldi það ekki hafa neitt að segja þótt einn aðili eignaðist yfir 60% af allri smásöluverslun í Reykjavík.

En það eru önnur miklu mikilvægari skilyrði óuppfyllt en umsögn Samkeppnisstofnunar í þessu sambandi. Með ólíkindum er ef þeir sem vinna að sameiningu þessara tveggja stóru banka, stóru fyrirtækja í þjóðfélaginu, hafa ekki leitað ráðs við þá sem þekkja til slíkra mála, t.d. á öðrum Norðurlöndum þar sem flestir bankar hafa unnið slík verk. Þar hafa menn komist að því að frumskilyrði þess að vel fari úr hendi sé að fá starfsfólkið með í leik. Undirstaða bankaviðskiptanna er viðskiptamaðurinn og sambandið við viðskiptamanninn og hvernig hann bregst við og honum líkar stendur og fellur með störfum og þjónustu starfsfólksins.

Hvernig er þessu háttað í bönkunum tveimur? Hafa þeir haft fyrir því, sem nú er að fara fram með lagaboði, að kynna sér þá stöðu mála? Ég er hræddur um ekki. Ef valdboði verður beitt til að þvinga þessa sameiningu saman nú eftir það sem á undan er gengið og síðustu afrek hæstv. viðskrh., að ætla að setja af allt bankaráð Búnaðarbankans og bankastjórana, þá mun það valda stórkostlegu fjártjóni hjá þessum tveimur fyrirtækjum. Þeir sem fyrir fjártjóninu verða eru skattborgarar þessa lands. Ef þingmönnum tekst með setu sinni yfir jóladagana að hindra framgang þessa máls þá vinna þeir vel fyrir kaupinu sínu.