Staðan í viðræðum um sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 14:39:30 (3195)

2000-12-12 14:39:30# 126. lþ. 46.94 fundur 199#B staðan í viðræðum um sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[14:39]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Hér er vélað með mikil verðmæti og mikla hagsmuni. Þess vegna skiptir gríðarlega miklu máli að vel sé á haldið. Ég get tekið undir með hv. málshefjanda sem sagði að í þessu máli væri með eindæmum klaufalega að farið. Vitaskuld er maður hugsi yfir því, virðulegi forseti, að málinu skuli vísað til Samkeppnisstofnunar til skoðunar. Svarið þaðan getur verið já eða nei en samtímis er hin hönd hæstv. viðskrh. að skipta sér af samrunanum. Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort það sé fyrir fram ákveðið að niðurstaða stofnunarinnar verði sú að þetta standist samkeppnislög. Það er alla vega mjög umhugsunarvert hvernig hæstv. ráðherra hefur haldið á þessu máli og af þeim sökum virðist mér sem markaðurinn hafi metið þessar eignir ríkisins og fellt í verði um rúmlega 20% síðan ákvörðunin var tekin. Það skiptir vitaskuld skattgreiðendur hér á landi og almenning miklu máli, að svona skuli haldið á verðmætum ríkisvaldsins. Vitaskuld eru það skattgreiðendur sem að endingu þurfa að borga fyrir allt ruglið.

Ég get sagt, virðulegi forseti, og hef sagt það oft áður að ég er algerlega andvígur þessum samruna. Satt best að segja fannst mér merkileg fullyrðing hv. þm. Hjálmars Árnasonar hér áðan að fækkun banka yrði til að lækka vexti. Það er nýtt lögmál, virðulegi forseti, að fákeppni leiði til lækkunar vaxta. Það er nýtt og satt að segja hef ég ekki heyrt þessa skoðun áður. Maður veit hins vegar ekki allt þannig að það getur vel verið að þetta hafi farið fram hjá mér, virðulegi forseti. En það er með ólíkindum að heyra þessa útleggingu á lögmálinu.