Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 14:56:19 (3201)

2000-12-12 14:56:19# 126. lþ. 46.6 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, Frsm. minni hluta JóhS
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[14:56]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Hér er tekið til lokaumræðu mál sem mikið hefur verið rætt í tengslum við fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga, þ.e. breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem fjallar um, eins og að mig minnir að það sé orðað í frv., hinar mildandi aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að koma til móts við aukna skattbyrði sem ríkisstjórnin mun leggja á almenning þegar á næsta ári.

Við í stjórnarandstöðunni höfum gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að standa þannig að málum í þessu fjárhagslega uppgjöri milli ríkis og sveitarfélaga, að velta allri skattbyrðinni yfir á almenning.

Þegar málið var tekið til 2. umr. höfðu fulltrúar ASÍ óskað eftir að koma á fund efh.- og viðskn. vegna málsins. Með þeirri heimsókn kom upp algerlega ný staða í þessu máli. Forsvarsmenn ASÍ ræddu þetta mál í samhengi við kjarasamninga og sama gerðu fulltrúar BSRB aðeins síðar. Fulltrúar ASÍ héldu því fram að með áformum um almennar skattahækkanir í landinu á næsta ári væri kjarasamningum á vinnumarkaði teflt í tvísýnu, grafið undan kjarasamningum. Vitnuðu fulltrúar ASÍ til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga fyrr á árinu þar sem ríkisstjórnin gaf yfirlýsingu í fimm töluliðum til að greiða fyrir kjarasamningum. 1. liður þeirrar yfirlýsingar, sem undirrituð var af hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., var um að skattleysismörk mundu fylgja launaþróun. Hins vegar er ljóst að með hærra skatthlutfalli munu skattleysismörk raskast og raungildi skattleysismarka.

Við 2. umr. málsins var felld tillaga sem þingmenn Samfylkingarinnar fluttu. Hún gerði ráð fyrir að ríkisvaldið mundi minnka sinn hlut í staðgreiðslunni sem nemur þeirri hækkun sem áformuð er eða búast má við á útsvari. Sú tillaga var felld við 2. umr. málsins og við þá umræðu boðuðu fulltrúar Samfylkingarinnar að við 3. umr. stæði til að flytja brtt. sem gerði ráð fyrir að breyta skattleysismörkunum þannig að raungildi þeirra haldist eins og um var samið í kjarasamningum fyrr á þessu ári.

Jafnframt óskuðu fulltrúar stjórnarandstöðunnar í efh.- og viðskn. eftir því að fá á fund nefndarinnar fulltrúa Landssamtaka aldraðra og fulltrúa Öryrkjabandalagsins en ljóst var við 2. umr. að þessi breyting á sköttum, þ.e. almenn skattahækkun án þess að láta skattleysismörkin fylgja, mundi fjölga verulega í hópi skattgreiðenda þegar á næsta ári um 2.100--2.200 samkvæmt upplýsingum fjmrn. Jafnframt var ljóst að verulegur hluti viðbótarinnar væru lífeyrisþegar.

[15:00]

Meirihlutafulltrúar í efh.- og viðskn. féllust á að kalla þessa fulltrúa fyrir milli 2. og 3. umr. og var það mjög gagnlegur fundur þar sem fulltrúar þessara heildarsamtaka lífeyrisþega komu sínum sjónarmiðum á framfæri.

(Forseti (HBl): Forseti biður hv. þm. afsökunar en það er svolítill kliður í salnum sem er ekki gott undirspil.)

Fulltrúar Öryrkjabandalagsins sem mættu á fundinn, Helgi Seljan og Garðar Sverrisson, fóru yfir hvernig kjör aldraðra hefðu rýrnað á síðasta ári með ýmsum breytingum sem hafa verið gerðar á kjörum og aðbúnaði fatlaðra. Þeir nefndu hækkun á símkostnaði, lyfja- og lækniskostnaði, verulega hækkun á húsnæðiskostnaði. Þeir sögðu að hann hefði hækkað um 50% og töldu fram að sú hækkun sem þó hefði orðið á lífeyrisgreiðslum á liðnu ári hefði margfalt verið étin upp vegna annarra kostnaðarhækkana sem stjórnvöld hafa beitt sér fyrir og er þar ekki síst um að ræða hækkun á húsnæðiskostnaði og lyfjakostnaði sem hækkaði um 37% á miðju þessu ári.

Það sama var raunverulega að segja um fulltrúa Samtaka aldraðra sem mættu á fundinn, Benedikt Davíðsson og Ólaf Ólafsson. Þeir töluðu um þá aldraða sem eiga fasteignir og bentu á að fasteignagjaldahækkunin ein og sér sem er bein afleiðing hækkunar fasteignamats sem hækkaði vegna þenslu sem hér hefur orðið á húsnæðismarkaðnum og er bein afleiðing af þeirri breytingu sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir í húsnæðismálum, þ.e. að fasteignagjaldshækkunin ein ásamt hækkun sem hefur orðið hjá þeim sem greiða eignarskatt, hefði þegar étið upp þá hækkun sem varð á lífeyri þeirra á árinu. Það þarf ekki að sökum að spyrja, herra forseti, að auðvitað mótmæltu þessir fulltrúar lífeyrisþega mjög þeim áformum sem uppi eru af hálfu ríkisstjórnarinnar í þessu efni og töldu þeir líka til það sem yfir vofði á næsta ári, þ.e. enn frekari hækkun á fasteignagjöldum vegna hækkunar á fasteignamati sem hefur verið ákveðin, þ.e. 14% hækkun, og koma mun til framkvæmda með álagningu fasteignagjalda á næsta ári. Eins var talin fram hækkun sem ríkisstjórnin beitir sér fyrir, þ.e. hækkun í Framkvæmdasjóð aldraðra sem er um 500 kr. nefskattur á alla að undanþegnum öldruðum 70 ára og eldri. En það var dregið einmitt fram sem er mjög sérstætt og Alþingi ætti að sjá sóma sinn í að breyta, að örorkulífeyrisþegar, t.d. þeir sem eru með fulla tekjutryggingu, þurfa að greiða þennan nefskatt. Ég hygg að ef samstaða næðist um það á þingi að fella það út að öryrkjum með fulla tekjutryggingu væri gert skylt að greiða þennan nefskatt, þá mundi það kosta 15--16 millj. Ég held að það sé ekki meira. Menn ættu að skoða það mál í samhengi vegna þess að allt telst þetta með í buddu lífeyrisþeganna þegar verið er að bæta pinklum á. Mörgum finnst kannski 500 kr. hækkun á mánuði ekki mikil. En 500-kallinn skiptir miklu fyrir þá sem ekkert eiga í vasanum, þ.e. þegar hann er ekki til.

Þetta vildi ég draga fram um aldraða og öryrkja. Við fórum yfir umsögn þeirra við 2. umr. og ég tel ekki ástæðu til að gera það aftur. Ég vil þó í lokin nefna að á milli 2. og 3. umr. bárust nefndinni nokkrar ályktanir frá verkalýðsfélögum alls staðar að af landinu sem voru að mótmæla þeim áformum sem uppi eru um skattahækkanir. Ályktanir komu frá Verkalýðsfélaginu Hlíf, Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur, Eflingu -- stéttarfélagi, Verkamannafélagi Vestmannaeyja, Trésmiðafélagi Reykjavíkur, Sunniðn, Rafiðnaðarsambandi Íslands, Málarafélagi Reykjavíkur, Einingu/Iðju, Bílaiðnaðarfélaginu, Félagi blikksmiða, Öldunni -- stéttarfélagi, Félagi hársnyrtisveina, Félagi garðyrkjumanna, Félagi byggingarmanna, Eyjafirði.

Allir þessir aðilar höfðu sent milli 2. og 3. umr. til efh.- og viðskn. ályktanir þar sem þessu er mótmælt og vil ég í lokin lesa tvær af þessum ályktunum með leyfi forseta. Fyrst frá Verslunarmannafélagi Vestmannaeyja:

,,Hækkun útsvars án samsvarandi lækkunar tekjuskatthlutfalls hefur í för með sér auknar skattaálögur á launafólk og þar með kjaraskerðingu.

Verslunarmannafélag Vestmannaeyja vill að gefnu tilefni benda stjórnvöldum á að slíkt gengur þvert gegn markmiðum kjarasamninganna frá síðastliðnu vori en þau voru að treysta undirstöður kaupmáttar.

Að öðru óbreyttu þýða boðaðar breytingar á útsvari og tekjuskatti einnig raunlækkun skattleysismarkanna en það gengur þvert gegn yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gefin var í tengslum við gerð kjarasamninganna.

Þar var því lofað að skattleysismörk myndu fylgja umsaminni launaþróun.

Verslunarmannafélag Vestmannaeyja bendir stjórnvöldum á að allar aðgerðir sem hafa í för með sér kjaraskerðingar fyrir launafólk eru til þess fallnar að grafa undan forsendum gildandi kjarasamninga. Aðildarfélög og -sambönd ASÍ töldu að víðtæk sátt hefði náðst um kjarasamninga sem stuðluðu að áframhaldandi stöðugleika, tryggðu undirstöður kaupmáttar og bættu sérstaklega stöðu þeirra sem lakast stóðu fyrir. Það er því ábyrgðarhluti af hálfu stjórnvalda að grípa til kjaraskerðinga gagnvart launafólki nú, ekki síst í ljósi þess að gangi nýjustu spár um verðlagsþróun eftir mun stór hluti launafólks verða fyrir kaupmáttarskerðingu á næstu missirum. Þetta er enn alvarlegra í ljósi þess að stjórnvöld létu hjá líða að grípa til afgerandi aðgerða til að draga úr þenslu þegar öll hættumerki blöstu við á árunum 1998 og 1999.

Verslunarmannafélag Vestmannaeyja ítrekar athugasemdir hagdeildar ASÍ um skaðsemi hagstjórnar sem ýtir undir og ýkir hagsveiflur í efnahagslífinu í stað þess að reyna að draga úr þeim og tryggja stöðugleika. Náist markmið kjarasamninganna um stöðugleika og traustan kaupmátt ekki verður það mjög dýrt, ekki aðeins fyrir launafólk heldur atvinnulífið og samfélagið allt.

Verslunarmannafélag Vestmannaeyja heitir því á stjórnvöld að taka þátt í því að verja lífskjör launafólks og forsendur kjarasamninganna í stað þess að grafa undan hvoru tveggja.``

Í lokin vil ég vitna í yfirlýsingu sem undirrituð er af forsvarsmönnum Verkalýðsfélagsins Hlífar, Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og Eflingar -- stéttarfélags. Hún er stutt. Byrjað er á því að vitna í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 10. mars 2000. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Í yfirlýsingunni segir að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir því að persónuafsláttur og skattleysismörk breytist í takt við umsamdar almennar launahækkanir á samningstímabilinu.

Í áformum ríkisstjórnarinnar sem nú liggja fyrir Alþingi kemur fram að ekki á að standa við áður útgefna yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Samhliða þessu á að hækka skatta á launafólk. Í þessu sambandi viljum við vísa til samantektar hagdeildar ASÍ um þetta mál sem fram hefur komið. Það er ekki hlutverk félagsmanna innan Flóabandalagsins eða annarra samtaka launafólks innan ASÍ að viðhalda einir stöðugleika í efnahagslífinu. Við viljum minna á að endurskoðun forsendna kjarasamninga liggur fyrir á næstu vikum. Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um skattamál var gefin í tengslum við kjarasamninga og við lítum á hana sem hluta af samkomulagi ríkisstjórnar og aðila á vinnumarkaði. Ef þau áform ríkisstjórnar verða að veruleika að hækka skatta mun það ekki auðvelda framlengingu launaliðar kjarasamninga.``

Herra forseti. Hér eru aðvaranir á ferðinni sem full ástæða er fyrir ríkisstjórn og hv. Alþingi að taka mark á og því er sú brtt. flutt sem ég hef mælt fyrir og gengur út á það að viðhalda því raungildi skattleysismarka sem um var samið í kjarasamningum allt fram til ársins 2003, herra forseti. Það er auðvitað mikilvægur þáttur í því að þeir kjarasamningar sem samið var um á almennum vinnumarkaði fyrr á þessu ári haldi og það er veigamikið atriði til þess að viðhalda stöðugleikanum, herra forseti.