Norðurlandasamningar um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 15:27:44 (3205)

2000-12-12 15:27:44# 126. lþ. 46.9 fundur 81. mál: #A Norðurlandasamningar um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði# (framfærsluskylda með maka, barni eða móður barns o.fl.) frv. 178/2000, JBjart
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[15:27]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. allshn. um frv. til laga um breytingar á Norðurlandasamningum um alþjóðleg einkaréttarmálaákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð og um innheimtu meðlaga. Í nefndaráliti er tilgreindur gestur, Benedikt Bogason frá dómsmrn. sem fjallaði um málið. Eins bárust umsagnir um frv. bæði frá Barnaverndarstofu og dómstólaráði.

Með frv. er lagt til að heimilt verði að fullgilda fyrir Íslands hönd breytingar á tveimur Norðurlandasamningum, annars vegar samkomulag um breytingar á samningi um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð og hins vegar samkomulag um breytingu á samningi um innheimtu meðlaga. Jafnframt er lagt til að samningarnir fái lagagildi hér á landi þegar þeir öðlast gildi gagnvart Íslandi.

Allshn. mælir með samþykkt frv. og undir nefndarálitið rita hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Ásta Möller, Guðrún Ögmundsdóttir, Katrín Fjeldsted, Lúðvík Bergvinsson og Ólafur Örn Haraldsson. Sú sem hér stendur var fjarverandi við afgreiðslu málsins en tók þátt í meðferð þess og auk mín voru fjarverandi við afgreiðsluna hv. þm. Hjálmar Jónsson og Sverrir Hermannsson.