Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 15:59:12 (3210)

2000-12-12 15:59:12# 126. lþ. 46.6 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[15:59]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka að þegar talað er um að forsendur kjarasamninganna séu brostnar nú þegar eins og sum verkalýðsfélögin vilja halda fram og sumir talsmenn þeirra, þá er ekki verið að ræða um þær breytingar sem felast í þessu frv. eingöngu heldur þessa mörgu samverkandi þætti. Mig minnir að í forsendum við afgreiðslu fjárlaganna hafi til að mynda verið gert ráð fyrir því að virðisaukaskatturinn skilaði um 2 milljörðum meiri tekjum í ríkissjóð en gert var ráð fyrir þegar frv. er lagt fram í haust og samkvæmt því sem kom fram á fundi efh.- og viðskn. er það mat Þjóðhagsstofnunar og starfsmanna fjmrn. að það skýrðist fyrst og fremst af verðhækkunum vegna þess að menn búast við samdrætti á ýmsum sviðum. Engu að síður er reiknað með meiri tekjum af virðisaukaskattinum og það væri fyrst og fremst vegna þess að menn búast við að verðlagið hækki verulega og langt umfram þær forsendur sem menn gáfu sér í kjarasamningum.

Ég hef verulegar áhyggjur af því, virðulegi forseti, ef það er niðurstaða þeirra verkalýðsfélaga sem eru að fjalla um kjarasamningana og launaliðinn núna þessa dagana, að áður en nokkrir aðrir kjarasamningar eru gerðir --- ég held að 60 kjarasamningar séu lausir hjá sveitarfélögunum núna um áramótin --- að þá séu forsendurnar fyrir launaliðnum þegar brostnar. Það er auðvitað verulegt áhyggjuefni, virðulegi forseti.