Matvæli

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 16:45:01 (3217)

2000-12-12 16:45:01# 126. lþ. 46.10 fundur 74. mál: #A matvæli# (eftirlit, gjaldskrá o.fl.) frv. 169/2000, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[16:45]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst rétt að vekja athygli á þessu þar sem ég get ekki séð annað miðað við þá upptalningu sem fram kemur í frv. þar sem þetta er dregið saman sérstaklega í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. hvaða verkefni það eru sem þarna er um að ræða. Það eru auknar rannsóknir, greiningar, námskeið, þjálfun og sérstækar ráðstafanir.

Við þekkjum það úr rekstri fyrirtækja í dag, hvort sem um er að ræða einkaaðila eða opinbera aðila að gjaldtaka, t.d. vegna rannsókna og til þess að standa undir rannsóknum eða námskeiðshaldi, greiningu eins og hér er talað um og sértækri þjálfun, getur verið veruleg. Við þingmenn höfum ábyggilega flestir, ef ekki allir hv. þm., orðið varir við í heimsóknum til fyrirtækja sem starfa í matvælaiðnaði að eftirlitsgjöld eru nú þegar mjög há og margþætt og vissulega er löngu tímabært að samræma þetta eftirlit og koma því yfir á eina hendi. Ég er fullviss um að það mundi bæði fela í sér minni kostnað fyrir fyrirtækin og líka fyrir hið opinbera, sem sér um eftirlitið, ef allt eftirlit með framleiðslu matvæla væri samræmt og á einni hendi. Þetta skiptir verulegu máli og er dæmigert um það --- og nú er ég ekki fyrst og fremst að ásaka hv. umhvn. fyrir að hafa ekki sinnt störfum sínum --- en hins vegar er það þannig að þetta er dálítið dæmigert fyrir það að við erum að afgreiða frumvörp, gera þau að lögum sem geta falið í sér álögur á fyrirtæki og einstaklinga án þess að hafa í raun og veru gert okkur grein fyrir og mótað afstöðu til þess hvernig þessum kostnaði verði mætt og ráðherra einum, eða þremur í þessu tilviki, er treyst til að sjá um framkvæmd mála en hv. umhvn. hefur auðvitað tækifæri til að fylgjast með því.