Matvæli

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 16:47:14 (3218)

2000-12-12 16:47:14# 126. lþ. 46.10 fundur 74. mál: #A matvæli# (eftirlit, gjaldskrá o.fl.) frv. 169/2000, Frsm. KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[16:47]

Frsm. umhvn. (Kristján Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er svo sem ekki önnur aðferð í þessu tilviki en er almennt viðhöfð í dag á þessum eftirlitsmarkaði. Við vitum um eftirlit með fiskvinnslustöðvum, með skipum o.s.frv. að þetta er allt saman borið uppi af fyrirtækjunum sjálfum þó að í eðli sínu sé eftirlitsaðilinn opinber. Meira að segja eru mörg störf á vegum eftirlitsaðila boðin út þannig að einkafyrirtæki sjá um eftirlitið í umboði opinberra stofnana. Við erum því ekki að fara út á neinar nýjar brautir að þessu leyti.

Auðvitað gera allir sér grein fyrir því að þetta kostar peninga og enginn vill lenda í öðru eins fári og varð út af kampýlóbaktermálinu. Það er skylda okkar að gæta þess að neytandinn hafi einhverja tryggingu og að opinberir aðilar veiti þá tryggingu að meðferð matvæla sé eins góð og kostur er og það kostar auðvitað peninga.

Ef ég man rétt kom fram í nefndinni að menn gerðu ekki endilega ráð fyrir því að þetta mundi hafa áhrif á matvælaverð, að þetta yrði svo mikið, en tíminn verður að leiða í ljós hvort kostnaður af þessu fer inn í matvöruverðið en það hlýtur hann að gera að lokum. Það gerir allur kostnaður eðli máls samkvæmt.