Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 17:14:43 (3223)

2000-12-12 17:14:43# 126. lþ. 46.11 fundur 215. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# (gildistími) frv. 159/2000, Frsm. meiri hluta EKG
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[17:14]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 445 frá meiri hluta sjútvn.

Nefndarálitið er vegna frv. þar sem lagt er til að gildistími laga nr. 38/1998, um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum, verði framlengdur um eitt ár svo að þau gildi fyrir árið 2001, þ.e. næsta ár, en annars hefðu þau fallið úr gildi um næstu áramót.

[17:15]

Ráðgert er að sú efnislega endurskoðun sem mælt er fyrir um í 3. gr. laganna fari fram samhliða heildstæðri endurskoðun sem nú er unnið að á lögum um stjórn fiskveiða og allir þekkja. Vegna þess að slík heildarendurskoðun stendur yfir er ekki talin ástæða til að taka þessi lög upp sérstaklega núna. Um þetta eru hagsmunaaðilar sem hafa komið á fund nefndarinnar að langmestu leyti sammála.

Á árinu var gerð sú breyting á lögum nr. 38/1998 að af skipum sem stunduðu síldveiðar á viðmiðunarárunum 1995, 1996 og 1997 og skipum sem komið hafa í þeirra stað var heimilt að framselja aflahámark án takmarkana. Þetta hefur m.a. haft þau áhrif að framsal á þessu ári var 31,2% en var 11,6% á síðasta ári. Ef við skoðum tonnafjöldann þá var tilflutningurinn í fyrra rúm 23 þús. tonn en 60.600 á þessu ári þannig að óhætt er að segja að áhrif lagasetningarinnar hafi verið allmikil.

Það er líka ljóst að heilmikil breyting er að verða í þeim flota sem hefur stundað þessar veiðar. Fram kom í máli þeirra sem heimsóttu sjútvn. að menn höfðu gert ráð fyrir því í upphafi að þegar þessi stofn gengi meira inn í íslenska landhelgi yrðu veiðarnar stundaðar af minni bátum. Reynslan hefur ekki orðið sú. Heilmikil þróun hefur orðið í þessari veiði. Í staðinn fyrir gamla báta hafa verið að koma stærri skip og þau skip hafa verið betur útbúin fyrir nótaveiðina og meðhöndlun á afla nótaveiðiskipa, þ.e. með sjókælitönkum og annars konar útbúnaði til að fara betur með aflann í því skyni að gera sér meiri mat úr honum og gera það að verkum að hægt sé að vinna hann til manneldis í stað þess að bræða hann eða vinna með öðrum hætti.

Þetta hefur líka haft þau áhrif, sem við vekjum athygli á í nál., að þessar breytingar, þ.e. að stærri skip hafa komið í stað hinna minni hafa haft áhrif á úthlutun á síldarkvótanum til þeirra báta sem fyrir eru.

Í reglunum í dag er gert ráð fyrir að hluti af úthlutunum til þessara skipa ráðist af stærð skipanna. Þess vegna er augljóst mál að þegar stærri skip koma í staðinn fyrir hin minni hefur það þau áhrif til lengri tíma litið að smám saman nagast af kvóta þeirra skipa sem fyrir eru í þessum flota. Þess vegna er mjög mikilvægt að ljúka þessari endurskoðun þannig að slíkri óvissu linni. Það er t.d. ljóst að á þessu ári eru að koma fimm til sex skip sem væntanlega verða þá þátttakendur í síldveiðinni á næsta ári. Auðvitað þurfa önnur skip að hverfa frá veiðinni í staðinn en það er almennt talað um minni skip og þess vegna mun það hafa áhrif á úthlutun kvótans á næsta ári þó ekkert annað gerist. Þess vegna er mikilvægt að því verði örugglega lokið á næsta ári að endurskoða kvótareglurnar þannig að þessari óvissu linni. Þar fyrir utan er nánast óviðunandi að menn séu óvarðir í þeim skilningi að hægt sé að ganga á kvóta þeirra með þessum hætti.

Sjútvn. aflaði sér upplýsinga um ráðstöfun afla íslenskra skipa úr norsk-íslenska síldarstofninum á árunum 1995--2000. Þær fylgja með á sérstöku fskj. Athyglisvert er að skoða þessa þróun. Almennt má segja að talsvert mikil breyting hafi orðið á þessu ári. Meira er fryst af síld en áður var úr þessum stofni. Hins vegar er ekkert saltað. Í þessu sambandi er mikilvægast að hafa það í huga að í þessu skiptir göngumynstur síldarinnar mestu máli. Við sjáum líka að síldin var nánast eingöngu veidd í júnímánuði en nánast ekkert í maímánuði. Það var þó aðalveiðimánuðurinn framan af því tímabili sem við höfðum til skoðunar.

Þetta hafði það í för með sér að breytt göngumynstur síldarinnar, síldin hélt sig utar, varð til þess að meira var siglt með afla og hann seldur í Noregi á almennum fiskmörkuðum eða til verkenda þar í landi. Þetta er mikilvægt að hafa í huga, að það er auðvitað ekki bara stjórnkerfi veiðanna sem ræður því hvernig aflanum er ráðstafað. Það er líka göngumynstrið og það sem menn hafa upp á síðkastið kallað veiðanleika sem er nýtt orð í þessari umræðu. Það hefur heilmikið um það að segja hvernig aflanum er ráðstafað. Ef hann kemur seinna á árinu þá er síldin feitari og gengur betur til manneldis að öllu jöfnu. En þá verður það líka að vera þannig að hún sé nær landi svo hún skemmist ekki í meðhöndlun en bætt aðstaða um borð í síldarbátum hefur vissulega gert það að verkum að menn eiga auðveldara með þetta en áður.

Virðulegi forseti. Það er ekki ástæða fyrir okkur sem að þessu nál. stöndum að hafa fleiri orð um þetta. Þetta er í sjálfu sér tiltölulega einfalt frv. og eingöngu um það að ræða að framlengja gildistöku laganna um eitt ár meðan menn komast að niðurstöðu um hvernig eigi að skipa þessum málum til framtíðar. Ég tel að ástæða sé til að leggja á það áherslu, eins og ég hef verið að gera, að hægt sé að ljúka þessari endurskoðun á næsta ári þannig að menn sjái fram í tímann og hvaða aðstæður þeim verða búnar á næstu árum.