Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 17:21:51 (3224)

2000-12-12 17:21:51# 126. lþ. 46.11 fundur 215. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# (gildistími) frv. 159/2000, Frsm. 1. minni hluta GAK
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[17:21]

Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil gera grein fyrir áliti 1. minni hluta sjútvn. um það frv. sem við ræðum hér, sem er í raun bara frestunarákvæðisfrv., um að lögin standi óbreytt til eins árs.

Í frumvarpinu er lagt til að gildistími laganna verði framlengdur um eitt ár án breytinga. Að tillögu sjávarútvegsráðherra var sl. vor gerð sú breyting á lögum nr. 38/1998 að skipum sem stunduðu síldveiðar árin 1995, 1996 og 1997 eða skipum sem hafa komið í þeirra stað var heimilað að framselja aflahámark sitt án takmarkana. Tilgangur þessa ákvæðis átti að vera að tryggja betur en áður að úthlutaðar aflaheimildir í norsk-íslensku síldinni veiddust að fullu. Að sönnu hefur framsal aukist úr 11,6% á síðasta ári í 31,2% á þessu ári. Það tókst sem sagt að auka kvótabraskið við veiðar á norsk-íslensku síldinni. Önnur markmið með auknu framsali virðast ekki hafa náðst. Heildarveiðin var minni en árið á undan, samanber það að árið 1999 var úthlutað aflahámark 202.000 tonn en það ár varð heildarveiðin 203.493 tonn eða rétt umfram aflamarkið. Allur kvótinn var veiddur. Í ár var úthlutað 194.230 tonnum en aðeins 185.642 tonn veiddust eftir að kvótaframsalið var frjálst.

Árið 1999 var landað innan lands 203.493 tonnum, eða öllu sem veiðarnar gáfu, en árið 2000 var 165.399 tonnum landað hérlendis en 20.243 tonnum erlendis. Mest var saltað af norsk-íslensku síldinni árið 1998, alls 537 tonnum, 24 tonn fóru í söltun 1999 en ekkert árið 2000. Mest var sjófryst árið 1998, 1.797 tonn, en aðeins 138 tonn árið 2000. Þróun veiðanna sl. fjögur ár hefur verið sú að allt frá 1997 hefur veiðin í júní farið vaxandi en minnkað að sama skapi í maí.

Veiðarnar hafa þróast sem hér segir:

Í maí 1997 voru veidd 184.719 tonn eða bróðurparturinn af öllum kvótanum en í júní aðeins 25.522 tonn. Árið 1998 voru veidd 95.274 tonn í maí en heldur þó meira í júní eða 97.337 tonn. Verulegur tilflutningur var sem sagt yfir í júnímánuð á árinu 1998. Á árinu 1999 voru tæp 55.700 tonn veidd í maí en rúm 147.800 tonn í júní. Þá var mestur tilflutningur frá maí yfir í júní. Á árinu 2000, ári hins frjálsa framsals, voru veidd 2.198 tonn í maí og 166.174 tonn í júní.

Þessi þróun síldveiðanna úr norsk-íslenska stofninum hefur að sjálfsögðu að hluta orðið vegna breytinga á göngum síldarinnar en einnig vegna þess að síldin fitnar þegar líður fram á sumarið og verður þar með afurðameira hráefni og ætti þar með að auka verðmæti og þar með það verð sem útgerð og sjómenn fá fyrir aflann.

Júníveiðarnar jukust mest 1997--1998 eða um 72.485 tonn og síðan aftur 1998--1999, eða um 50.465 tonn, en minnst var aukningin eftir að frjálsa framsalið var leyft 1999--2000, eða um 17.372 tonn. Sýnilegur árangur af breytingunni er því enginn. Árið 2000 veiddust ekki tæp 9.000 tonn af kvótanum en aftur allur kvótinn árið 1999, með takmörkuðu framsali. Til erlendrar fiskvinnslu var landað rúmlega 20.000 tonnum árið 2000 en engu 1999.

Þessar staðreyndir benda ekki til þess að atvinna og verðmætasköpun innan lands hafi aukist við breytinguna yfir í frjálst framsal aflamarks í norsk-íslensku síldveiðunum.

Sjávarútvegsráðherra lýsti því yfir við breytingu á lögunum að ,,markmiðið væri að ná öll um kvótanum`` með breytingunni yfir í frjálst framsal. Það hefur ekki tekist eins og staðreyndir málsins sanna. Lagabreytingin var því óþörf og einu rökin sem eftir standa nú eru að endurskoðun laga um stjórn fiskveiða stendur yfir.

Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu. Undir þetta álit skrifar sá sem hér stendur.

Ég sé ekki ástæðu til að greiða þessu máli atkvæði og mun sitja hjá við afgreiðslu þess. Það er alveg ljóst að sá tilgangur sem boðaður var með lagabreytingunni af hæstv. sjútvrh. hefur ekki náðst. Ekki hafa orðið neinar aðrar breytingar en þær að framsalið hefur margfaldast. Ef það var eini tilgangurinn að auka framsalið en ná engum öðrum markmiðum eins og hér var lýst í ræðum þegar mælt var fyrir þessu frv. þá sitja menn bara uppi með það.