Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 17:28:33 (3225)

2000-12-12 17:28:33# 126. lþ. 46.11 fundur 215. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# (gildistími) frv. 159/2000, Frsm. 2. minni hluta JÁ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[17:28]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Í 3. gr. laga um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum, nr. 38/1998, segir að sjávarútvegsráðherra skuli fyrir 1. nóvember árið 2000 leggja fyrir Alþingi frumvarp um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum eftir árið 2000. Þrátt fyrir þetta ákvæði hefur sjávarútvegsráðherra lagt til með frumvarpi að lögin um norsk-íslenska síldarstofninn verði áfram í gildi. Frestun þess að leggja fram nýtt frumvarp um veiðarnar byggir hann á þeirri forsendu að sú efnislega endurskoðun sem mælt er fyrir um í 3. gr. laganna verði framkvæmd samhliða heildstæðri endurskoðun sem nú er unnið að á lögum um stjórn fiskveiða á vegum nefndar sem sjávarútvegsráðherra skipaði á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða í lögum um stjórn fiskveiða. Norsk-íslenski síldarstofninn er hins vegar deilistofn og ættu veiðarnar því að fara fram skv. 5. gr. laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Þingmenn Samfylkingarinnar leggja til, í sérstöku frumvarpi, sbr. þskj. 429, 330. mál, breytingar á 5. gr. þeirra laga til samræmis við það sem Samfylkingin leggur til varðandi úthlutun aflaheimilda í lögunum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990.

[17:30]

Eins og alkunna er voru veiðar íslenskra fiskiskipa úr norsk-íslenska síldarstofninum ekki stundaðar svo neinu næmi í yfir 30 ár. Á síðustu árum hefur orðið þar breyting á. Norsk-íslenski síldarstofninn hefur verið í framför eftir langvarandi lægð. Með samningum um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum milli síldveiðiþjóðanna á norðanverðu Atlantshafi hafa Íslendingar tryggt sér veiðiréttindi úr stofninum á hafsvæðunum utan íslensku fiskveiðilögsögunnar. Vegna þess hve langur tími leið frá því að síldveiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum voru stundaðar af íslenskum fiskiskipum var ekki á veiðireynslu að byggja hjá þeim flota sem tekið hefur þátt í veiðunum. Síldveiðiskipin, sem veiðarnar stunduðu fyrir þrjátíu árum, hafa flest horfið úr íslenska flotanum og útgerðir margra þeirra eru hættar störfum. Það fyrirkomulag sem gilt hefur við veiðarnar á undanförnum árum hefur verið til bráðabirgða, samanber fyrrgreint ákvæði 3. gr. laga nr. 38/1998, að sjútvrh. skuli fyrir 1. nóvember 2000 leggja fyrir Alþingi frv. um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum. Bráðabirgðaástandi varðandi fyrirkomulag veiðanna var heldur ekki ætlað að skapa grunn að fastri aflahlutdeild, samanber álit meiri hluta sjútvn. við afgreiðslu frv. til laga um veiðar utan lögsögu, 57. mál á 121. þingi, þar sem segir í nál. meiri hlutans:

,,Veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum verði á grundvelli leyfa til veiðanna á sambærilegum forsendum og verið hafa. Veiðireynsla úr þessum stofni myndi ekki grunn að fastri aflahlutdeild.``

Ástæða þykir til að árétta þetta því útvegsmenn virðast almennt ganga að því sem vísu að þeir séu að ávinna sér rétt til úthlutunar samkvæmt veiðireynslu þegar þar að kemur. Það hefur víða komið fram að menn hafi í raun eytt miklum fjármunum í jafnvel óarðbærar veiðar vegna þess að þeir telji sig þannig vinna sér inn veiðiréttindi þó að hér liggi fyrir í umfjöllun Alþingis að slíku hafi ekki verið til að dreifa og hafi ekki verið afstaða manna á hv. Alþingi þegar þessi mál voru til umræðu.

Annar minni hluti sjávarútvegsnefndar telur að löngu sé tímabært að skipa þessum málum til frambúðar og skapa veiðum úr norsk-íslenska síldarstofninum lagaramma og starfsumhverfi þannig að útgerðir þeirra viti að hverju þær ganga. Skoðun 2. minni hluta er að um veiðarnar eigi að gilda lögin um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, nr. 151/1996, og að veiðarnar verði boðnar út. Þessi stefna er í samræmi við þá stefnu Samfylkingarinnar að bjóða eigi út nýtingu takmarkaðra gæða sem eru í þjóðareign eða þjóðarforsjá.

Annar minni hluti mun því ekki styðja frumvarp sjávarútvegsráðherra um framlengingu gildandi laga.

Ég vil svo taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni í ræðu hans áðan. Þau markmið sem menn settu sér með reglum um framsal aflaheimilda hafa alls ekki náðst og síður en svo að framsalið hafi aukið verðmætasköpun í þessari grein, því miður.

Ég vil til viðbótar segja að mér finnst sérstök ástæða til að vekja athygli á því að þegar menn ræða um réttindi manna til að nýta sér auðlind eins og þessa fiskstofna um ókomin ár er að mínu viti algerlega óviðunandi að stefna eigi að því að rétturinn til að nýta þennan stofn eigi að byggjast á útgerðum fáeinna skipa yfir tiltekið tímabil og í framtíðinni eigi síðan að stefna að því, eins og greinilegt er að meiri hlutinn gerir og þeirri stefnu hefur almennt verið haldið gagnvart sjávarútveginum, að þeir sem nýta þessa auðlind núna eigi að eignast réttinn til að nýta hana hve stór sem þessi stofn gæti orðið. Hver segir að þessi stofn geti ekki vaxið meira en hann hefur þegar gert?

Það er algerlega óviðunandi að þjóðarauðlind eins og þessi eigi að verða handa einhverjum örfáum og ekki sé einu sinni haft fyrir því lengur að rökstyðja það með veiðum eða nýtingu til lengri tíma heldur nægi að rökstyðja það með því að menn hafi veitt tiltekið hlutfall úr stofninum meðan hann var svona stór og það skuli síðan eiga að vera röksemd fyrir því að í einhverri langri framtíð eigi menn þennan stofn í hlutfalli við þá nýtingu sem þá var til staðar. Ef þetta er ekki að færa mönnum þjóðarauðlind á silfurfati þá veit ég ekki hvað það er.

Þess vegna vil ég gera þetta að lokaorðum mínum: Sú stefna sem ævinlega skín í gegnum alla umræðu um aðganginn að auðlindinni hjá þeim sem hafa haldið uppi þeirri stefnu sem gilt hefur fyrir stjórn fiskveiða er algerlega fráleit. Það er fráleitt að menn í útgerð eigi að eiga aðganginn að auðlindinni með þeim hætti sem er og svo greinilega er stefnt að af hendi meiri hlutans hvað varðar síldina eins og allt annað.