Námsmatsstofnun

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 17:46:44 (3229)

2000-12-12 17:46:44# 126. lþ. 46.12 fundur 176. mál: #A Námsmatsstofnun# (heildarlög) frv. 168/2000, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[17:46]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það frv. sem er til umræðu er fyrst og fremst samið upp úr og byggt á niðurstöðum álitsgerðar stýrihóps menntmrh. um mat á starfsemi Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála.

Í þeirri samantekt kemur m.a. fram það álit að setja eigi ný lög um stofnunina sem taki mið af nýjum viðhorfum í stjórnsýslu og breyttu hlutverki stofnunarinnar innan nýrra laga um grunnskóla og framhaldsskóla og að treysta beri sjálfstæði stofnunarinnar og skipa henni stjórn. Stofnunin eigi að leggja megináherslu á hagnýtar rannsóknir og þróunarstarf í próffræði, samræmd próf, mat á námsárangri og rannsóknir, sem bera árangur skólastarfs hér saman við árangur í öðrum löndum, og til að nýta gögn, yfirsýn og reynslu stofnunarinnar og viðhalda færni sérfræðinga hennar gæti stofnunin stundað alhliða rannsóknir á sviði uppeldis- og menntamála í samvinnu við háskólastofnanir hér á landi og erlendar rannsóknastofnanir og tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi um þær. Í þriðja lagi er ein af meginniðurstöðum þessarar álitsgerðar að stofnunin eigi að aðstoða fræðsluyfirvöld í heildarmati á skólastarfi í samvinnu við háskóla og aðrar stofnanir sem sinna uppeldis- og menntamálum, og svo eru þarna nokkur atriði til viðbótar.

Segja má að frv. fylgi nokkuð álitsgerðinni en þó ekki alveg, t.d. stendur í álitsgerðinni að til að nýta gögn, yfirsýn og reynslu stofnunarinnar og viðhalda færni sérfræðinga hennar geti stofnunin stundað alhliða rannsóknir á sviði uppeldis- og menntamála en ekki er gert ráð fyrir því samkvæmt frv.

Þessi lög hafa verið löguð að því sem framkvæmdin hefur verið. Að nokkru leyti má segja að þau hafi verið löguð að því. Í gömlu lögunum stóð: ,,Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála skal vera sjálfstæð vísindaleg stofnun er heyrir undir menntamálaráðherra.``

Hér virðist hafa verið stefnt á nokkurs konar ,,universitas`` en raunar hefur stofnunin aldrei starfað sem slík heldur hefur hún annast framkvæmd samræmdra prófa á grunnskólastigi hingað til og annast alls konar samanburð, t.d. hefur hún séð um þátttöku okkar í erlendum rannsóknum. Í 1. gr. laganna núna stendur einmitt: ,,Hlutverk stofnunarinnar er að annast framkvæmd samræmdra prófa á grunn- og framhaldsskólastigi, svo sem mælt er fyrir um í lögum, reglugerðum og aðalnámskrám, auk annarra verkefna á sviði námsmats og rannsókna sem tengjast því svo sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum.``

Þarna er líka komin til sögunnar önnur ástæðan sem er fyrir því að þessi nýju lög eru sett og endurskoðun á hlutverki þessarar stofnunar, þ.e. ný lög um framhaldsskóla sem gera ráð fyrir samræmdum prófum á framhaldsskólastigi.

2. gr. laganna gerir ráð fyrir að megináherslurnar verði á prófagerð og námsmati í starfi stofnunarinnar, og þar er tekinn út með því sem sagt er í athugasemdum við 2. gr. frv. sá þáttur sem Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála var ætlað að annast samkvæmt gömlu lögunum, þ.e. eftirlit með skólastarfi í landinu. Það er tekið fram í athugasemdum við 2. gr. að það sé hér eftir á ábyrgð menntmrn. ,,sem hefur komið á laggirnar sérstakri mats- og eftirlitsdeild, auk þess sem ráðuneytið hefur staðið að útgáfu námskráa án beinnar aðildar Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála``. Þetta líst ekki öllum jafnvel á og t.d. kemur fram í umsögn eða greinargerð sem Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála sendi um frv. að hér sé lögð til stærri breyting en marga grunar. ,,Heildarmat á stöðu menntamála í landinu er best fyrir komið`` --- segir í þessu áliti --- ,,hjá sjálfstæðri vísindalegri stofnun. Það er óhjákvæmilegt við slíka heildarúttekt að allir þættir sem hafa áhrif á afrakstur og gæði menntunar í landinu séu teknir með, þar á meðal mat á ýmsum stjórnvaldsákvörðunum. Stjórnvald getur ekki stundað trúverðugt mat á sjálfu sér. Það sjá líklega flestir`` --- segir í álitsgerð stofnunarinnar.

Þeir bæta við að sérstök mats- og eftirlitsnefnd í menntmrn. sé mikilvæg með hliðsjón af breyttri skipan skólakerfisins. Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála hafi átt gott samstarf við þessa deild menntmrn. og telji tilvist hennar ótvírætt til bóta. Aftur á móti sé ólíklegt að fram fari víðtækar rannsóknir á skólakerfinu á vegum þessarar deildar. Þvert á móti þurfi að vera til staðar öflug rannsóknastofnun sem geti mætt þörfum hennar á vönduðum rannsóknum og margvíslegum upplýsingum um skólakerfið. Til að svo geti orðið verði fastar fjárveitingar til rannsókna við Námsmatsstofnun að vera tryggðar.

Það kemur sem sagt ákaflega vel í ljós í þessu sjálfsmati Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála að þeir eru ósáttir við þann hluta frv. sem tekur til rannsóknanna og telja að þeirra hlutur eigi að vera samkvæmt lögum meiri en gert er ráð fyrir í þessu frv.

Varðandi 3. gr. laganna varð mikil umræða í nefndinni vegna þess að þar var samkvæmt því sem frv. gerði ráð fyrir ekki gert ráð fyrir neinum sérstökum kröfum um menntun og eftir ítarlegar umræður í nefndinni var ákveðið og um það voru allir nefndarmenn sammála að bera fram brtt. um að gera svipaðar hæfniskröfur til forstöðumannsins og eru gerðar til háskólakennara en þó þannig að ekki er gert ráð fyrir dómnefnd við valið. Um þessa brtt. er alger samstaða í nefndinni.

Ýmislegt kom fram hjá þeim sem voru kallaðir til umsagnar til nefndarinnar og t.d. bentu nokkir á að ákvæði vantaði í lögin um reglubundna úttekt á stofnuninni. Fólki fannst ekki rétt að samþykkja þessi lög öðruvísi en að þar kæmi inn breyting hvað þetta varðar. Einnig er bent á að ákvæði vantaði um nánara samstarf við háskólastigið og ýmsir umsagnaraðilar töldu að það mundi vera til bóta ef sú breyting kæmi inn í lögin en það varð ekki niðurstaða nefndarinnar.

Eins og ég sagði kom það mjög greinilega fram bæði í þessari álitsgerð og einnig þegar forstöðumaðurinn kom til nefndarinnar að þeir voru ekki mjög upprifnir yfir þessum nýju lögum að öllu leyti en þó tóku þeir alltaf sérstaklega fram að þeir væru mjög jákvæðir varðandi nýtt hlutverk stofnunarinnar að ýmsu leyti en átöldu að það þyrfti reglur eða lög um fastar fjárveitingar, voru ekki ánægðir með að þetta væri bara bundið við fjölda prófa og einnig gerðu þeir veigamikinn ágreining við þennan tilflutning á rannsóknaþættinum.

Það kemur fram að fjmrn. gerir ekki ráð fyrir að sú áherslu- og nafnbreyting sem felst í frv. hafi áhrif á útgjöld ríkisins. Eiginlega má segja að þarna liggi meginágreiningur minn við þetta frv. vegna þess að mér finnst að ef gert er ráð fyrir því að rannsóknaþátturinn, sem var áður gert ráð fyrir að væri hjá þessari stofnun, sem býr núna við mjög skertar fjárveitingar og í rauninni annað hlutverk, miklu þrengra hlutverk en hún hafði áður, flytjist til háskólastofnana þá hafi það komið mjög greinilega fram í viðræðum við hæstv. menntmrh. við 1. umr. málsins að hann geri ekki ráð fyrir að háskólar fái auknar fjárveitingar af þessu tilefni. Ég verð að segja að eftir því sem ég tel mig vita best er rannsóknastarfsemi háskólanna svo þröngur stakkur skorinn eins og málum er háttað í dag að varla er hægt að bæta á þá miklum rannsóknaverkefnum sem er ekki gert ráð fyrir að hafi neinn viðbótarkostnað í för með sér sem greiðist þá af ráðuneytunum. Í því liggur meginfyrirvari minn við þetta frv.

Þetta kemur líka fram í umsögn Háskólans á Akureyri þar sem þeir segja:

,,Í umsögn fjármálaráðuneytis er sagt að sú breyting sem frumvarpið kveður á um hafi ekki áhrif á útgjöld ríkisins, þau ráðist af fjölda og umfangi samræmdra prófa.`` --- Og þeir segja hér: --- ,,Þetta er eðlilegt en ekki má gleyma því að hin nýja stofnun hefur rannsóknahlutverk og útgjöld ríkisins hljóta að stjórnast af því líka.``

Að öðru leyti ætla ég ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. að sinni. Ég hef gert grein fyrir í hverju fyrirvari minn við málið liggur.