Neytendalán

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 18:06:12 (3231)

2000-12-12 18:06:12# 126. lþ. 46.14 fundur 90. mál: #A neytendalán# (upplýsingaskylda seljenda) frv. 179/2000, Frsm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[18:06]

Frsm. efh.- og viðskn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 490 um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 121/1994, um neytendalán.

Frv. er samið að fenginni reynslu af framkvæmd laga um neytendalán frá árinu 1994. Því er ætlað að fella brott ákvæði sem reynst hafa óþörf eða hafa gegnt sínu hlutverki og jafnframt að lagfæra orðalag. Auk þess er frv. ætlað að bæta í lögin tilvísun til þess Evrópuréttar sem þau byggjast á.

Efh.- og viðskn. bendir á að í umsögn Samkeppnisstofnunar um frv. kom fram að stofnunin hefði aldrei fengið sérstaka fjárveitingu til að standa undir kostnaði við eftirlit með lögum um neytendalán. Þá kemur fram í umsögninni að í ljósi þeirra breytinga sem frv. hefur í för með sér sé nauðsynlegt að ráðist verði í kynningu á ákvæðum laganna fyrir neytendur og lánveitendur og leggur Samkeppnisstofnun áherslu á að henni verði gert kleift að ráðast í slíka kynningu. Á þetta var lögð áhersla í starfi nefndarinnar og er rétt að það komi fram.

Nefndin bendir á að við þessa kynningu væri hægt að hafa samráð og samstarf við hagsmunaaðila. Þá er í frv. gert ráð fyrir að í 13. gr. laganna verði að finna sérstaka heimild til að setja reglugerð um framkvæmd upplýsingaskyldu. Nefndin vekur athygli á því að við samningu reglugerðarinnar sé rétt að haft verði samráð við helstu hagsmunaaðila, en Alþýðusamband Íslands hefur sérstaklega óskað eftir slíku samráði.

Það er engin ástæða til að fara ítarlega yfir brtt. sem nefndin er sammála um að flytja en þó ber að nefna að í frv. er gert ráð fyrir að f-lið 1. mgr. 2. gr. laganna, sem kveður á um að lánssamningar sem tryggðir eru með veði í fasteign séu undanþegnir lögum um neytendalán, verði breytt þannig að hann taki til lánssamninga sem Íbúðalánasjóður gerir eða annarra sambærilegra fasteignaveðlánasamninga sem gerðir eru vegna öflunar íbúðarhúsnæðis.

Enn fremur er ástæða til að vekja athygli á að í frv. er gert ráð fyrir að g-liður 1. mgr. 2. gr. laganna verði felldur brott, en þar er vísað í 3. gr. sem fjallar um yfirdráttarheimild. Lánssamningar sem fela í sér yfirdráttarheimild á tékkareikningi verða því ekki lengur undanþegnir ákvæðum laganna og upplýsingaskyldan samkvæmt þeim mun því ná til slíkra samninga. Því er nauðsynlegt að samræma 3. gr. laganna hinni fyrirhuguðu breytingu. Þær breytingar felast einkum í því að bætt er við greinina nýjum staflið, e-lið, þar sem tekið er fram að í samningi um yfirdráttarheimild skuli lántakanda greint frá árlegri hlutfallstölu kostnaðar við mismunandi notkun á heimildinni, en ljóst er að sú tala kann að vera breytileg eftir því hvernig heimildin er notuð hverju sinni. Einnig er gert ráð fyrir því að neytanda verði árlega sendar almennar upplýsingar með dæmum um útreikning kostnaðar vegna þessa liðar. Þetta er gert til þess að koma í veg fyrir það að menn þurfi í hvert skipti sem þeir óska eftir breytingu á yfirdráttarheimild að gera það skriflega. Þess í stað verði það gert innan ársins og að upplýsingarnar berist skriflega einu sinni á ári þannig að mönnum sé þá ljós staða málsins.