Neytendalán

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 18:09:15 (3232)

2000-12-12 18:09:15# 126. lþ. 46.14 fundur 90. mál: #A neytendalán# (upplýsingaskylda seljenda) frv. 179/2000, MF
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[18:09]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá framsögumanni, hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, standa nefndarmenn í efh.- og viðskn. að þessu nál. Ég var ekki viðstödd afgreiðsluna en hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Lúðvík Bergvinsson, þingmenn Samfylkingarinnar, standa að nál. og þeirri afgreiðslu nefndarinnar sem hér um ræðir.

Við þessa umræðu viljum við þó sérstaklega benda á umsögn frá Samkeppnisstofnun þar sem stofnunin lýsti því að frá því að lögin um neytendalán voru sett árið 1993 hafi Samkeppnisstofnun ekki fengið neinar fjárveitingar til eftirfylgni við þessi lög. Í umsögn Samkeppnisstofnunar segir, með leyfi forseta:

,,Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. segir að verði frv. að lögum verði ekki séð að það hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð. Með vísan til þessa vill Samkeppnisstofnun benda á að stofnunin hefur aldrei fengið fjárveitingu til að standa undir kostnaði við eftirlit með lögum um neytendalán. Allt frá því að lögin um neytendalán voru sett á árinu 1993 hefur stofnunin af vanefnum reynt að sinna eftirlitshlutverki sínu. Í ljósi þeirra breytinga sem frv. þetta hefur í för með sér sem og nýlegra breytinga á útreikningsreglum árlegrar hlutfallstölu kostnaðar telur Samkeppnisstofnun nauðsynlegt að ráðist verði í kynningu fyrir neytendur og lánveitendur á ákvæðum laganna. Samkeppnisstofnun leggur áherslu á að stofnuninni verði gert kleift að ráðast í slíka kynningu.``

Þetta er, virðulegi forseti, í raun sams konar mál og ég var að ræða áðan þegar annað frv. var til umræðu, þ.e. kostnaðaráætlunin frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. Hún fylgir gjarnan frv. og í henni er fyrst og fremst fjallað um kostnað ríkissjóðs en ekki þann kostnað sem fellur á þær stofnanir sem eiga að fylgja lögunum eftir þó að um ríkisstofnanir sé að ræða. Það er auðvitað mjög alvarlegt ef Samkeppnisstofnun hefur ekki fengið fjármagn til að sinna þessu hlutverki sínu sem og ýmsum öðrum verkefnum sem alþingismenn hafa lagt henni á herðar á undanförnum árum. Við þingmenn Samfylkingarinnar bíðum enn eftir skýrslu sem óskað var eftir fyrir ári. Þeirri skýrslubeiðni hefur ekki verið hægt að sinna, m.a. vegna þess að fjármagn skortir til að sinna verkefninu. Eftirlitsskyldan sem Samkeppnisstofnun ber vegna þessara laga virðist kannski ekki mjög mikil en engu að síður kostar hún peninga og ekki síður að kynna lögin, sem Samkeppnisstofnun leggur megináherslu á.

Í nál. efh.- og viðskn. kemur einnig fram að við samningu reglugerðar sé rétt að hafa samráð við helstu hagsmunaaðila. Bent er á að Alþýðusamband Íslands hefur sérstaklega óskað eftir slíku samráði, þ.e. við setningu reglugerðar á grundvelli þessa frv. ef það verður samþykkt og verður að lögum. Slík ósk kemur einnig fram hjá Samkeppnisstofnun. Hún segir í umsögn sinni:

,,Samkeppnisstofnun væntir þess að stofnunin verði höfð með í ráðum við samningu boðaðrar reglugerðar um framkvæmd við veitingu upplýsinga en einmitt þessi þáttur hefur valdið erfiðleikum við framkvæmd laganna.``

Ég tel nauðsynlegt, virðulegi forseti, að sú þekking sem nú liggur hjá Samkeppnisstofnun varðandi framkvæmd laga um neytendalán verði nýtt eins og kostur er og stofnunin komi að starfinu ásamt ASÍ og öðrum hagsmunaaðilum. Ég býst við að BSRB óski einnig eftir því að fá að koma að samningu reglugerðar, alla vega að fá hana til umsagnar. Ég held að það hljóti að vera nauðsynlegt.

Neytendasamtökin sendu ekki inn umsögn varðandi þetta frv. en það kom hins vegar fram á fundinum hjá formanni nefndarinnar að Neytendasamtökin hefðu haft samband við formann nefndarinnar og lýst yfir ánægju sinni með frv. Það sama kemur fram hjá Ráðgjafarstofnun heimilanna sem fagna sérstaklega þessu frv. og afgreiðslu þess. Við þingmenn Samfylkingarinnar tökum undir það að hér er um verulega réttarbót að ræða. Jafnframt tökum við undir þá kröfu Samkeppnisstofnunar að hún fái fjármagn til að fylgja eftir þessum lögum. Eðlilegt hefði verið, þar sem vitað var að koma mundi að lokaafgreiðslu frv. nú fyrir jól, að gera ráð fyrir þeim fjármunum í fjárlögum fyrir næsta ár en svo virðist ekki vera. Miðað við það sem ég hef séð í umsögnum varðandi fjárveitingar til Samkeppnisstofnunar virðist hvergi hafa verið tekið tillit til þeirrar löggjafar sem hér um ræðir né aukinna verkefna sem Samkeppnisstofnun hlýtur að taka að sér með breyttu og auknu hlutverki á næstu árum.

Ég ítreka að við tökum undir kröfur ASÍ, Samkeppnisstofnunar og annarra sem vilja fá reglugerðina til skoðunar.