Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 18:17:51 (3235)

2000-12-12 18:17:51# 126. lþ. 46.16 fundur 232. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (álagningarstofnar) frv. 158/2000, MF
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[18:17]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í nál. þessu standa hv. þm. Samfylkingarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir og Lúðvík Bergvinsson, að því. Ég tók ekki þátt í lokaafgreiðslu málsins en styð það með því þó að fyrir liggi sá vilji hjá formanni nefndarinnar og reyndar öllum hv. nefndarmönnum að taka fyrir skýrslu Fjármálaeftirlitsins til viðskrh. um starfsemi þess og áætlaðan rekstrarkostnað fyrir næsta ár og ræða sérstaklega í nefndinni strax eftir áramótin.

Í umsögnum um frv. þetta koma fram af hálfu Samtaka fjármálafyrirtækja nokkrar athugasemdir sem ég tel fulla ástæðu til að nefndin skoði betur í yfirferð sinni yfir skýrsluna. Samtök fjármálafyrirtækja benda m.a. á að ástæða sé til að ætla að kostnaður við eftirlit með fjármálastarfsemi hér á landi sé þegar hærri en almennt tíðkast í ríkjum sem Íslendingar bera sig gjarnan saman við. Þeir segja með leyfi forseta:

,,Íslensk stjórnvöld hljóta því að sýna fyllstu gát áður en þau taka ákvörðun um að auka enn umsvif Fjármálaeftirlitsins og kostnað við starfrækslu þess.

Aðildarsambönd SFF eiga fulltrúa í samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila um rekstrarumfang Fjármálaeftirlitsins, og standa því að áliti samráðsnefndarinnar er fylgir frv. í heild sinni. Þau sjónarmið sem þar eru sett fram og rökstudd í sjö töluliðum standa að sínu leyti öll enn. Skal því að svo stöddu látið nægja að vísa til álits samráðsnefndar um rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins og þar með um þau álagningarhlutföll sem frv. tekur mið af.``

Í flestum tilvikum er um að ræða afar jákvæðar umsagnir, m.a. vegna þess að þegar frv. um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi var lagt fram fyrir ári voru allir aðilar sammála um að þau fyrirtæki eða eftirlitsskyldir aðilar skyldu standa undir þeim kostnaði sem hlýst af þessum þætti í starfsemi Fjármálaeftirlistsins. Þegar frv. var lagt fram fylgdi því ekki einungis skýrsla Fjármálaeftirlitsins heldur einnig þær athugasemdir sem samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila gerir við rekstraráætlun fjármálaeftirlitsins, í sjö liðum eins og áður hefur komið fram.

Þar eru gerðar nokkrar athugasemdir sem er nauðsynlegt að vekja athygli á við þessa umræðu. Í fyrsta lagi segir samráðsnefndin að athyglisvert sé að stofnunin njóti engra vaxtatekna af umframfjármunum sínum í þeim tilvikum sem eftirlitsgjaldið gefur meira fjármagn en notað er síðan til starfseminnar:

,,Athyglisvert er, að stofnunin nýtur engra vaxtatekna af þessum umframfjármunum sínum eða af innheimtu eftirlitsgjaldi almennt. Samráðsnefndin hefur áður látið í ljós þá skoðun að slíkt er afar óeðlilegt. Skal því enn ítrekað við stjórnendur FME að leita leiða til að bæta úr þessu.``

Virðulegi forseti. Síðan er gerð athugasemd eða beðið um athugun á starfsmannafjölda Fjármálaeftirlitsins. Samráðshópurinn telur að þar sé jafnvel um of mikla fjölgun starfsmanna að ræða, að launakostnaður Fjármálaeftirlitsins vegi þungt í störfum þess og hljóti því að hafa áhrif á það gjald sem lagt er á hverju sinni. Í þessum athugasemdum segir, með leyfi forseta:

,,Eftirlitsskyldir aðilar hljóta að krefjast þess að eftirlitskostnaður þeirra sé ekki hærri en erlendum keppinautum er gert að greiða í heimaríkjum sínum. Ástæða er til að ætla að eftirlitsgjaldið hér á landi sé nú þegar hærra en almennt tíðkast í nágrannalöndum okkar. Æskilegt er að slíkur samanburður verði gerður. Í áætluninni er gert ráð fyrir að laun og launatengd gjöld hækki úr 138,8 millj. kr. í 162,2 millj. kr., eða um 17% milli ára, og er þá tekið tillit til ráðningar fjögurra viðbótarstarfsmanna.``

Þarna vegur launakostnaðurinn langþyngst. Varðandi starfsmannamálin segir jafnframt í greinargerð samstarfsnefndarinnar, með leyfi forseta:

,,Áður en ráðist er í boðaða ráðningu fleiri sérfræðinga til FME, hvetur samráðsnefndin stjórnendur stofnunarinnar að kanna rækilega, hvort ekki gæti verið hagfelldara að vissum verkefnum verði sinnt með tímabundnum ráðningum starfsfólks, aðkeyptri þjónustu sérfræðinga eða jafnvel að endurskoðendur hinna eftirlitsskyldu aðila verði ,,nýttir`` betur til upplýsingaöflunar fyrir FME og skýrslugjafar.``

Þá er í 4. lið gerð athugasemd eða bent á óvenjuhá stjórnarlaun þeirra sem sitja í stjórn Fjármálaeftirlitsins. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Stjórnarlaun eru ákvörðuð af ráðherra, en í stjórn FME sitja lögum samkvæmt þrír menn. Stjórnarlaun stofnunarinnar á þessu ári stefna í rúmlega 4,6 millj. kr., og áætlanir gera ráð fyrir að stjórnarlaun verði ríflega 4,8 millj. kr. á árinu 2001. Ekki verður betur séð en laun stjórnarmanna FME séu hærri en almennt tíðkast hjá opinberum stofnunum og flestum þeim aðilum, sem falla undir eftirlit FME.``

Þá er í fimmta lagi rætt um fjölda utanlandsferða og nauðsyn á erlendu samstarfi. Þar segir: ,,Almennt er samráðsnefndin þeirrar skoðunar að álagt eftirlitsgjald skuli sem framast er kostur vera í samræmi við þann tíma og kostnað sem ætla má að fari í eftirlitið, jafnt með hlutaðeigandi flokki eftirlitsskyldra aðila og einstakra aðila innan hvers flokks.``

Hér er fjallað um þá gjaldflokka sem eftirlitsskyldir aðilar lenda í sem kveðið er um í 8. gr. laganna.

Í 7. og síðasta lið segir, með leyfi forseta:

,,Í reglugerð nr. 777/1998, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, hefur verið að finna ákvæði um skipan og starfshætti samráðsnefndarinnar. Var sú reglugerð sett m.a. með vísan til 16. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Með lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, var 16. gr. laga nr. 87/1998 beinlínis úr gildi felld. Af því leiðir að sem fyrst þarf að huga að því að setja reglugerð á nýjan leik, sem skýtur styrkari stoðum undir skipan og hlutverk samráðsnefndar.``

Það er bagalegt, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra skuli ekki vera hér. Ég hefði gjarnan viljað heyra hjá hæstv. ráðherra hvort þessi reglugerð hefði verið sett.

Eins og áður hefur komið fram hefur nefndin tækifæri til að fara yfir skýrslu Fjármálaeftirlitsins ásamt öllum þeim athugasemdum sem komu fram í sjö liðum frá samráðsnefndinni og jafnvel þá að spyrja hæstv. ráðherra um hvernig lögum um Fjármálaeftirlitið hefur verið framfylgt í reglugerðum og farið yfir einstaka þætti, bæði það sem er í reglugerð og það sem samráðsnefndin og eftir atvikum efh.- og viðskn. telur að sé ábótavant. Ég vil samt taka fram, virðulegi forseti, að ég tel mjög góð vinnubrögð við þetta frv., þ.e. að skýrsla Fjármálaeftirlitsins er birt í heilu lagi ásamt athugasemdum frá samráðsnefndinni þannig að það liggur ljóst fyrir við umræðuna hvaða ágreiningsatriði eru helst uppi um þessa gjaldtöku og nefndin mun fara yfir það eftir áramót.