Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 18:46:34 (3238)

2000-12-12 18:46:34# 126. lþ. 46.17 fundur 197. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (barnabætur) frv. 166/2000, SJS
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[18:46]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég get í öllum aðalatriðum gert ræðu hv. síðasta ræðumanns, Jóhönnu Sigurðardóttur, að minni. Við styðjum brtt. þá sem flutt er af fulltrúum minni hlutans í efh.- og viðskn. af augljósum ástæðum. Hv. þm. Ögmundur Jónasson er einn flutningsmanna hennar og fulltrúi Vinstri hreyfingar -- græns framboðs í nefndinni.

Þetta mál er eins og hér kom fram skref í rétta átt en það veldur vonbrigðum og vekur athygli hversu stutt það skref er og hve veiklulega það er tekið í ljósi hástemmdra yfirlýsinga stjórnarflokkanna í stjórnarsáttmála, þá alveg sérstaklega Framsfl., um að gera bragarbót í þessum efnum. Eins og einhverja rekur ugglaust minni til þá var þetta eitt af stóru loforðunum sem Framsfl. dró upp úr hatti sínum í aðdraganda síðustu kosninga, að nú skyldi heldur betur brotið í blað og aðstæður barnafólks, barnafjölskyldna og barnanna sjálfra stórbættar. Reynt var að selja þjóðinni það að allt mundi læknast með því að taka upp sérstök barnakort. Nú bólar ekkert á barnakortunum, herra forseti. Það sem hér er verið að gera er í sögulegu samhengi dálítið merkilegt. Hér stendur til að taka pínulítið skref aftur til fortíðar, til þess fyrirkomulags sem var áður en núverandi stjórnarflokkar eyðilögðu það fyrir nokkrum árum.

Það sem hér á að gera, herra forseti, er ósköp einfaldlega að taka upp gömlu barnabæturnar aftur að hluta, þ.e. ótekjutengdar grunnbætur. Þær verða því miður aðeins greiddar upp að sjö ára aldri og þar er ekki á ferðinni sá munur eftir fjölskyldustærð eða aldri barna sem var í eldra kerfi.

Lengi vel var þetta þannig, herra forseti, að barnabæturnar voru að uppistöðu almennar grunnbætur til allra barnafjölskyldna. Það kerfi tók við, ef ég man rétt, af enn þá eldra kerfi sem einhvern tíma mun hafa verið við lýði og var fólgið í skattfrádrætti sem tengdist barnafjölskyldum. Um langt árabil var stuðningurinn í formi ótekjutengdra grunnbarnabóta. Til viðbótar bættist svo við svokallaður barnabótaauki og hann var tekjutengdur. Framan af var barnabótaukinn tiltekinn viðbótarstuðningur til tekjulægstu fjölskyldnanna. Það kerfi var keyrt um alllangt árabil og var í sjálfu sér ágætt að mörgu leyti. Stuðningurinn var að uppistöðu ótekjutengdar grunnbarnabætur og í þeim var fólgið það skattalega hagræði sem barnafjölskyldum var veitt gegnum kerfið umfram aðrar fjölskyldur. Fyrir því eru auðvitað ærin rök.

Vissulega geta líka verið rök fyrir því að koma til viðbótar með tiltekinn stuðning til lágtekjufólks ef menn af tekjujöfnunarástæðum eða öðrum slíkum ástæðum innan skattkerfisins telja það gefa betri dreifingu eða nýtingu fjármuna miðað við aðstæður fólks.

Svona var þetta, herra forseti, um nokkuð langt árabil þangað til upp úr 1990. Hv. síðasti ræðumaður verður líka að horfast í augu við að þá var farið að raska þessum hlutföllum skref fyrir skref og færa meira og meira af stuðningnum úr ótekjutengda hlutanum yfir í hinn tekjuengda. Á tilteknu árabili snerust þessi hlutföll í raun alveg við, frá því að stærsti hlutinn var ótekjutengdur yfir í að stærsti hlutinn var orðinn tekjutengdur. Ótekjutengdi hluti barnabótanna var tiltölulega lítill grunnur. Þessi þróun hófst í tíð ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Alþfl. 1991--1995 og hélt svo áfram á fullri ferð í tíð ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. Þar var svo smiðshöggið rekið á verkið með fullri tekjutengingu barnabóta. Nú brestur mig minni, herra forseti, til að rifja upp hvort það var á árinu 1997 eða 1998 sem það náðarhögg var greitt. Það var á því árabili og í raun ótrúlega stuttu fyrir síðustu alþingiskosningar ef maður hefur það í huga að þegar svo kom að kosningabaráttunni, þá dró gamla Framsókn upp úr hatti sínum --- hvað? Að snúa til baka. Taka aftur upp ótekjutengdar barnabætur sem þeir höfðu átt aðild að að leggja niður örfáum missirum áður. Nú er svo loksins snúið aftur en því miður bara miklu ræfilslegar, leyfi ég mér að segja, en maður hefði ætlað miðað við hástemmdar yfirlýsingar á sínum tíma.

Það bólar ekkert á kortunum sem við skildum auðvitað sem svo að ætti að verða grundvallarkerfisbreyting. Einhverjir bundu vonir við að þau ættu að verða til að undirstrika sjálfstæðan rétt barnanna í þessu samhengi. Þannig er það víða í kringum okkur að þetta er ekki bara meðhöndlað sem tekjuspursmál fjölskyldna heldur litið á þetta sem grundvallarréttindamál sem tengist mannréttindum barnanna. Með þeim hætti má líta á þetta sem ákveðinn sjálfstæðan framfærslulífeyri frá samfélaginu til barnanna sjálfra þangað til þau komast á þann aldur að geta unnið fyrir sér sjálf. Í Þýskalandi hefur, herra forseti, t.d. þýski stjórnlagadómstóllinn dæmt barnabætur í þýska kerfinu eign barnanna til að undirstrika þá stöðu þeirra, að þær séu í raun samfélagslegur lífeyrir til barna þangað til þau hafa náð þeim aldri að geta aflað sér tekna sjálf.

Hvernig sem á þetta er litið, herra forseti --- það getur út af fyrir sig verið réttarfarslegt spursmál hvort menn vilja nálgast þetta frá sjónarhóli framfærsluþarfar fjölskyldnanna, sem við skulum vona að börn eigi yfirleitt, eða út frá sjálfstæðum rétti þeirra sjálfra --- er aðalatriðið að tryggja börnunum og fjölskyldum þeirra eðlilega framfærslu og taka með sanngjörnum og réttmætum hætti tillit til mismunandi framfærsluþarfar fjölskyldna þar sem börn eru á heimili, eru að alast upp og þurfa sitt og hinna þar sem svo háttar ekki til. Það er í raun hneykslanlegt að menn skyldu fara svo offari í þessum málum að þessi munur skyldi hverfa með öllu eins og ástandið hefur verið í tvö ár eða svo.

Hér á hins vegar að hverfa lítillega til baka og því ber að fagna því svo langt sem það nær. Þetta er þó veiklulega úr garði gert. Ég tek því eindregið undir þá brtt. sem fulltrúar minni hlutans í efh.- og viðskn. flytja á þskj. 498. Það væri strax skref í rétta átt að setja þessar ótekjutengdu barnabætur inn upp að 16 ára aldri, á því árabili sem þarna um ræðir, þ.e. á árunum 2001--2002. Út frá því mætti síðan skoða framhaldið. Vissulega er innbyggð í þessi lög ákveðin þróun sem bætir heldur stöðuna með því að skerðingarmörkin eru hækkuð. Eins verð ég að segja að ég er sammála þeirri breytingu sem frv. felur í sér og kemur strax til framkvæmda að fella niður hina furðulegu eignaskerðingu sem einnig var til staðar í kerfinu. Reyndar er það svo, herra forseti, að þegar maður minnist hinna illræmdu jaðaráhrifa sem hér hafa stundum komið til umræðu í skattkerfi okkar þá voru Íslendingar orðnir sérstakir snillingar í að raða þarna einni skerðingu ofan á aðra. Það var hreint með ólíkindum hversu langt var búið að ganga í íslenska skattkerfinu í þessum efnum og er auðvitað allt of langt gengið enn þann dag í dag. Enn finnast jaðaráhrif í skattkerfi okkar, ég tala ekki um almannatryggingakerfi okkar, sem eru auðvitað geigvænleg. Til eru dæmi um upp undir 100% jaðaráhrif þegar kemur t.d. að skerðingu örorkulífeyris vegna tekna maka og fleiri slíkra þátta.

Hér var við lýði tvöfalt skerðingarkerfi þannig að bæði tekjur og eignir gátu skert barnabætur. Þetta bættist við önnur skerðingarákvæði, t.d. gagnvart tekjutengdri skerðingu vaxtabóta, tekjutengdri afborgun námslána og slíku sem getur hlaðist hvert ofan á annað eins og menn þekkja. Það er auðvitað hreinsun að því, það verður að segja það eins og er og menn verða að eiga það sem þeir eiga, að eignatengd skerðingarákvæði skuli hverfa þarna út. Nóg er að hafa hitt eftir inni og búa við að þarna á að taka hænufetin í átt að því að lagfæra þessi hlutföll með ákveðnum hætti eins og útlistað er í lagatextanum og útskýrt á bls. 3 í grg. með frv. í tiltekinni töflu.

Herra forseti. Það er merkilegt að það er alltaf eins og tíminn líði allt öðruvísi þegar eitthvað er lagfært í þágu launamanna og fjölskyldna í landinu. Það tekur ævinlega mörg ár og þarf að taka í litlum hænufetum hvern áfanga fyrir sig. Ég minnist þess ekki að þurft hafi að gaufa svona við hlutina þegar var verið að létta skatti af fjármagnseigendum eða hlutabréfaeigendum eða lækka tekjuskatt af hagnaði gróðafyrirtækja. Þá var þetta tekið á einu bretti si-svona. Þá var þetta ekki að vefjast fyrir mönnum, herra forseti. En það er ekki sama hvort það er Jón og séra Jón í þessum efnum, barnafjölskyldurnar eða gróðapungarnir, eins og einhvern tíma hefur verið sagt. Það þarf ekki að bíða eftir búdrýgindum þeirra í smáskömmtum heldur er það gert á einu bretti.

Herra forseti. Ég held að ég hafi ekki meira um þetta mál að segja. Við hvetjum eindregið til þess að þessi brtt. minni hlutans verði samþykkt. Það væri skref í rétta átt. Auðvitað munu menn styðja þetta frv. því það er til bóta, það litla sem það er og svo langt sem það nær. Ég lít svo á að baráttunni fyrir því að koma hér aftur á sæmilega sanngjörnu bótakerfi eða skattahagræði barnafjölskyldna sé engan veginn lokið þó að þetta nái fram að ganga.