Atvinnuleysistryggingar

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 11:27:00 (3250)

2000-12-13 11:27:00# 126. lþ. 47.22 fundur 347. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (fræðslusjóðir) frv. 182/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[11:27]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Um það geta allir verið sammála að brýnt er að taka skipulega á starfs- og endurmenntunarmálum ófaglærðs fólks og að unnið sé að því heildstætt og markvisst.

Með frv. því sem hæstv. félmrh. mælir hér fyrir á vissulega að setja fjármagn til fræðslumála ófaglærðra. Ég vil hins vegar segja, eins og aðrir ræðumenn úr þessum ræðustól, að það ber ekki mikinn vott um áhuga hæstv. ráðherra á fræðslumálum ófaglærðra að hann skuli nánast gleyma málinu í skúffum sínum þó um það hafi verið samið í vor að lögin skyldu taka gildi á árinu 2001 og ekki vonum seinna að koma með það fyrir þingið þegar örfáir dagar eru til jóla, enda hefur hæstv. ráðherra viðurkennt sleifarlag sitt í því efni.

Við þetta mál er mjög margt að athuga, herra forseti. Fari maður í fyrsta lagi aðeins yfir forsögu málins þá gilda í landinu lög um starfsmenntun í atvinnulífinu sem sett voru 1992. Þá var stofnaður starfsmenntasjóður sem var tengdur þeim lögum. Áður hafði á vegum félmrn. verið sett nokkurt fjármagn til þessa verkefnis, starfsmenntunar í atvinnulífinu. Þessum starfsmenntasjóði var fyrst og fremst ætlað að hafa það verkefni að veita fjármagn til starfsmenntunar ófaglærðra.

Ég held að málin hafi þróast með þeim hætti í starfsmenntamálum ófaglærðs fólks að kannski hafi fáir heildarsýn yfir stöðu þessa mikilvæga máls. Og ég vil spyrja ráðherrann: Hefur af hálfu félmrn., en undir það heyra t.d. lög um starfsmenntun í atvinnulífinu, verið kortlögð með einum eða öðrum hætti þörfin fyrir starfsmenntun í atvinnulífinu fyrir ófaglærða sérstaklega? Hefur ráðherrann einhverjar hugmyndir um hve stór hópur ófaglærðra þyrfti á skipulegri starfsmenntun að halda?

Við höfum lög um starfsmenntun í atvinnulífinu sem hæstv. ráðherra kippti nú hálfpartinn stoðunum undan þegar hann tók að færa fjármagnið frá þeim sjóði og í Atvinnuleysistryggingasjóð, sem ég held að hafi ekki verið skynsamleg ráðstöfun, herra forseti. Mér líkar ekki hugsunin á bak við að setja fjármagn sem tengist starfsmenntun í atvinnulífinu í Atvinnuleysistryggingasjóð.

[11:30]

Hvað eru menn að segja með því, að fræðsla eða starfsmenntun fyrir atvinnulausa sé bara hluti af atvinnuleysinu? Það er ekki rétt hugsun í þessu, herra forseti. Starfsmenntun í atvinnulífinu er nokkuð sem á að vera sífellt í gangi. Það er mjög mikilvægur þáttur fyrir atvinnulífið til að mennta starfsfólkið og eins fyrir starfsfólkið sjálft til þess að tryggja því betri kjör í framtíðinni. Það er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt að undir Atvinnuleysistryggingarsjóð heyri einhver starfsþjálfun sem eftir því sem ég best veit er fyrir atvinnulausa sem skrá sig atvinnulausa og fá ekki vinnu. En þar er verið að taka á málum þegar fólk er orðið atvinnulaust og það á að vera sérkafli út af fyrir sig sem eðlilegt og rétt er að fjármagnaður sé af því fjármagni sem Atvinnuleysistryggingasjóður hefur til ráðstöfunar.

En starfsmenntun í heild sinni á að vera fyrir fólk á vinnumarkaði sem ekki er atvinnulaust. Hún á að vera partur af eðlilegu námi, eðlilegu starfsnámi sem bjóða á fólki reglulega upp á, ekki síst ófaglærðu fólki vegna þess að við vitum það og ekki þarf að hafa mörg orð um það að ófaglærðir fylgja ekki eftir í hinni öru tækniþróun sem orðin er. Við sjáum að störf ófaglærðs fólks úreldast í æ meira mæli og þess vegna ber okkur skylda til þess, bæði út af framleiðni í atvinnulífinu og út af kjörum þessa fólks, að sjá svo um að skipulega sé farið í starfsmenntun hjá ófaglærðu fólki.

Hér er vissulega verið að gera það með ákveðnum hætti að því er varðar fræðslumál ófaglærðra og hugsunin er sú sama og ég var hér að lýsa varðandi það samkomulag sem var gert í tengslum við kjarasamningana. En hér hefur bæði verið gagnrýnt hvernig að fjármögnun er staðið í þessu sambandi og hvernig þetta er tekið úr tengslum við aðra starfsmenntun í landinu. Við höfum ákveðin lög um hvernig standa eigi að starfsmenntun í atvinnulífinu.

Ég vil spyrja ráðherra nánar af því hann hefur þann málaflokk með höndum samkvæmt þeim lögum sem gilda um starfsmenntun í atvinnulífinu: Hvernig kemur þessi starfsmenntasjóður inn í heildarsamhengið, bæði varðandi gæði náms og skipulag, almennt varðandi starfsmenntun ófaglærðra þegar síðan til eru ýmsir sjóðir eins og fræðslusjóðir utan við það sem er á vegum stéttarfélaga? Vantar ekki heildarsamræmingu í þetta, herra forseti? Ég hef það á tilfinningunni að ekki sé nægjanlega skipulega og vel staðið að þessum málum.

Það má líka taka undir það, eins og fram kom t.d. hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal, að þetta frv. er ákveðinn þáttur í lausn á kjaradeilu og farin er sú leið að taka peninga fyrir einn ákveðinn afmarkaðan hóp úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem allir greiða gjald í með sambærilegum hætti. Eins og nefnt er í greinargerð frv. er ekki farin sú leið að láta hlutaðeigandi standa undir þessu með álagsprósentu á laun, eins og hér segir, líkt og tíðkast hefur hjá fjölmörgum stéttum heldur er farin sú leið að láta Atvinnuleysistryggingasjóð greiða ákveðið framlag í tiltekinn árafjölda til fræðslusjóða þessara stéttarfélaga sem eru annars vegar Flóabandalagið og hins vegar Verkamannasambandið.

Ég hefði haldið að það hefði verið eðlilegra í tengslum við þetta mál, þar sem þetta er hluti af kjarasamningum, ef atvinnurekendurnir sjálfir hefðu borgað beint inn í fræðslusjóðina þar sem þetta var hluti af lausn á kjaradeilu en ekki að verið sé að sækja í almenna sjóði eins og Atvinnuleysistryggingasjóð sem hefur náttúrlega það meginhlutverk að greiða til þeirra atvinnulausu þannig að það á ekki að vera að seilast í hann í þessu skyni. Það býður bara upp á það, herra forseti, að í þessu skyni verði aftur og aftur farið í þennan sama vasa sem er Atvinnuleysistryggingasjóður. Mér finnst það ekki vera hlutverk Atvinnuleysistryggingasjóðs að standa undir almennri starfsmenntun ófaglærðra í landinu. Mér finnst það vanvirðing við hina ófaglærðu að þannig sé haldið á starfsmenntamálum þeirra. Þau eiga að vera eðlilegur hlutur af menntakerfinu í landinu, þ.e. í þessu tilviki starfsmenntun og endurmenntun sem við eigum að fara miklu skipulegar í.

Mig grunar nokkuð, herra forseti, og spyr því ráðherrann um það: Er ekki hlutfallslega miklu minna framlagi varið hér til starfs- og endurmenntunar en í löndunum sem við berum okkur saman við? Er þetta ekki hluti af því vandamáli sem við stöndum frammi fyrir, ekki bara núna, heldur höfum staðið frammi fyrir lengi, að framleiðni er fremur lítil hjá okkur miðað við aðrar þjóðir? Ég held að öllu því fjármagni sem fer til starfsmenntunar frá hinu opinbera sé vel varið og að hið opinbera verji fjármagni til þess að halda skipulega á þeim þætti og það mun skila sér margfalt aftur bæði í bættum kjörum launþeganna sjálfra, hinna ófaglærðu, og eins í bættri stöðu atvinnulífsins.

Þetta eru auðvitað smáaurar, herra forseti, sem við höfum varið til þessa málaflokks sem heitir starfsmenntun í atvinnulífinu, af hálfu hins opinbera á umliðnum árum og það er raunverulega til skammar hve lítið það hefur verið. Ég man að þegar þessu var fyrst komið á í félmrn. voru settar 50 millj. kr. í þetta og það eru örugglega liðin tíu, tólf ár síðan fyrst voru settar í þetta 50 millj. kr. Það var þó á tímum mikillar niðursveiflu og þegar ekki voru miklir fjármunir umleikis. En nú þegar yfir flóir af peningum í ríkissjóði erum við enn samt með svipaða fjárhæð, 58 millj. á árinu 1999 samkvæmt því sem ég var að fletta upp í fjárlögum, 55 millj. á yfirstandandi ári og 60 millj. eru áætlaðar í starfsmenntasjóðinn á næsta ári. Þetta eru engir fjármunir, herra forseti, miðað við hve mikilvægt verkefni er hér á ferðinni.

Herra forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra í fyrsta lagi hvort hann geti ekki litið á það og verið sammála mér um það að þetta eigi að vera eðlilegur hluti af menntamálum í landinu, starfsmenntun fyrir ófaglærða, og þess vegna sé ekki eðlilegt að hafa fjármögnun hans undir Atvinnuleysistryggingasjóði. Enda gilda hér sérlög um starfsmenntun í atvinnulífinu frá 1992. Ég veit ekki til þess að þau hafi verið numin úr gildi. Er ekki eðlilegt að farið sé að þeim lögum og sérstaklega stuðlað þar að menntun ófaglærðra og að sett sé myndarlegt fjármagn til þessarar uppbyggingar á komandi árum í staðinn fyrir að hengja þetta sem nokkurs konar viðhengi á Atvinnuleysistryggingasjóð, sem eitthvert aukaverkefni þess sjóðs, eins og ráðherrann gerði fyrir nokkrum árum síðan?

Síðan vil ég spyrja, af því að 60 millj. eru ætlaðar á næsta ári í starfsmenntasjóðinn sem koma þá væntanlega sem hluti af framlagi úr Atvinnuleysistryggingasjóði: Varðandi það fjármagn sem hér er verið að tala um, er þá ekki um að ræða viðbótarframlag umfram þessar 60 millj.? Ég vænti þess að það sé alveg kristaltært að ekki sé verið að taka af þessum 60 millj. inn í þetta sérstaka fræðsluátak sem hér er á ferðinni. (Félmrh.: Að sjálfsögðu.) Að sjálfsögðu. En, herra forseti, reynslan kennir okkur að hafa varann á í svona efni vegna þess að þessi ríkisstjórn er mjög dugleg við að smygla alls konar ,,hér-og-þar-pinklum`` inn á verkefni sem ætti ekki að vera að taka aura af og þess vegna er mjög gott að fá það tryggilega fram að þetta sé alveg sjálfstætt og að ekki sé verið að taka af því litla fjármagni sem fyrir er í starfsmenntasjóði.

Síðan eiga þessir peningar að fara inn í fræðslusjóði þessara félaga, annars vegar Verkamannasambandsins og hins vegar Flóabandalagsins. Þó hér sé um að ræða að hluta til opinbert fjármagn sem kemur úr Atvinnuleysistryggingasjóði hvernig verður því ráðstafað? Hvernig verður þessari fræðslu háttað? Mun að einhverju leyti vera tekið tillit til þeirra laga sem við störfum eftir varðandi gæði menntunarinnar, um starfsmenntun í atvinnulífinu, eða munu verkalýðsfélögin sjálf sjá alfarið um skipulagningu á þessari fræðslu eftir sínu eigin höfði?

Ég býst við að eitthvað hafi verið hugsað um það hvort hér sé bara fyrst og fremst verið að láta peninga í þetta án þess að hið opinbera eða þeir sem koma nálægt framkvæmd laga um starfsmenntun í atvinnulífi komi með einum eða öðrum hætti nálægt því hvernig þessum peningum verði ráðstafað og hvernig gæðum menntunar verði háttað sem þeir aðilar fá sem njóta góðs af þessu fjármagni.

Herra forseti. Ég ítreka það eins og nokkrir aðrir að það er óeðlilegt hvernig þetta fjármagn er fengið. Annaðhvort hefði það átt að koma beint frá atvinnurekendunum sjálfum eða þá með sérstöku framlagi beint úr ríkissjóði, en ekki að taka það úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Við vitum ekkert hvað bíður hér handan við hornið í þeirri óvissu sem nú er í efnahagslífinu. Þó að atvinnuleysi sé ekki mikið þá er því þó spáð vaxandi á næstu árum þannig að við skulum ganga hægt um þær dyr að vera sífellt að taka úr þessum sjóði, enda á þetta að vera partur af eðlilegu starfsnámi í landinu sem er fjármagnað öðruvísi en með atvinnuleysispeningum.

Um þetta vildi ég spyrja, herra forseti, og hvort ráðherrann sé tilbúinn, þótt hann hafi það ekki handbært hér, að veita þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar, sem væntanlega verður félmn., heildaryfirlit yfir það hver þörfin er á starfsmenntun og endurmenntun ófaglærðra og hvort ráðherrann telji að hið opinbera taki skipulega á því máli. Og hvort hann geti verið mér sammála um að ákveðna heildarsýn vanti í þennan mikilvæga málaflokk, sem er starfsfræðsla og starfsmenntun ófaglærðs fólks, miðað við þá öru þróun sem verið hefur í tæknimálum og tæknibyltingu í atvinnulífinu. Ég geri ráð fyrir því að við hljótum öll að vera sammála um að ekki er hægt til þess að horfa að ófaglærðir standi eftir í þeirri tæknibyltingu sem við búum við. Við verðum að búa ófaglært starfsfólk undir það að geta tekist á við þær breytingar sem eru að verða í atvinnulífinu um leið og það bætir kjör sín með skipulagðri starfsmenntun sem hið opinbera á að mínu viti á að hafa frumkvæði að að leggja í myndarlegt framlag.