Atvinnuleysistryggingar

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 11:49:16 (3252)

2000-12-13 11:49:16# 126. lþ. 47.22 fundur 347. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (fræðslusjóðir) frv. 182/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[11:49]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er hægt að taka undir með þingmanninum varðandi þessi úrræði og hugmyndir hans um uppbyggingu atvinnulausra einstaklinga sem búið hafa við atvinnuleysi í einhvern tíma. Ég er sammála því að búa þarf til ný atvinnutækifæri, möguleika á að viðkomandi geti menntað sig til starfa á ný og sé ekki bundinn við að leita að starfi í því fagi sem hann starfaði að áður. Við vitum að þegar atvinnuleysi verður þá verða gjörbreytingar á vinnumarkaði.

Atvinnuleysistryggingasjóður er hins vegar mjög afmarkaður í huga fólks. Hann tengist nákvæmlega því sem þingmaðurinn var að ræða um, þ.e. atvinnuleysi og úrræðum fyrir atvinnulausa, greiðslum til fólks og nýjum úrræðum. En þegar við komum að hugsuninni um starfsmenntun í atvinnulífinu þá erum við að tala um allt aðra hluti. Herra forseti. Þá erum við að tala um þá umskólun sem þarf að eiga sér stað í atvinnulífinu. Þá erum við að tala um að bregðast við breyttum atvinnuháttum. Þá erum við að tala um það sem allir fræðimenn ræða í dag, að menn geti ekki lengur menntað sig til eins starfs heldur verði þeir að mennta sig mörgum sinnum á lífsleiðinni til ólíkra starfa, vegna tækniþróunar og gjörbreytinga í atvinnulífinu.

Það er önnur hugsun og tengist ekki beint atvinnuleysi. Við viljum sjá starfsmenntasjóð, öflugan starfsmenntasjóð sem tekur sjálfstætt á málum fólks, sem sjálfstætt veitir nýju lífi í staðnað atvinnulíf og bregst við breytingum sem þar verða. Ræða hv. þm. náði því bara um málið til hálfs.