Atvinnuleysistryggingar

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 11:52:44 (3254)

2000-12-13 11:52:44# 126. lþ. 47.22 fundur 347. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (fræðslusjóðir) frv. 182/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[11:52]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Maður getur stundum orðið alveg gáttaður á útúrsnúningum stjórnarliðsins í umræðum á Alþingi.

Það er hárrétt að ég er sammála þeim göfugu markmiðum sem fram koma í lögum um starfsmenntun í atvinnulífinu og þeim göfugu markmiðum átti að ná í gegnum sérstakan starfsmenntasjóð. Menn höfðu metnað fyrir hönd þess sjóðs. Síðan urðu stjórnarskipti og nýr félmrh. rúllaði þessum sjóði inn í Atvinnuleysistryggingasjóð þrátt fyrir andmæli okkar sem höfðum metnað í þessum málum.

Við höfum undanfarið flutt tillögur um að setja aukið fjármagn í starfsmenntamál. En nú kemur hæstv. félmrh. eftir dúk og disk með frv. um átak í fræðslumálum samkvæmt samkomulagi milli Samtaka atvinnulífsins, Flóabandalagsins, Verkamannasambandsins og ríkisins. Auðvitað gat ríkisstjórnin sjálf ekki sýnt nokkurn metnað eða markmið í þessum efnum. Hún kemur bara með einhvern pening af því það á að fullnægja samkomulagi sem gert var í samningum. Guði sé lof fyrir samninga.

Það sem við höfum rætt um er að sýna þarf ákveðinn metnað og setja upp skipulagða starfsemi samkvæmt lögum um starfsmenntun í atvinnulífinu. Það á að vera sjálfstætt og framsýnt afl en ekki ganga út frá einhverri upphæð, oftast nær óbreyttri tölu frá samdráttartímanum, í Atvinnuleysistryggingasjóði sem aðeins er aukið samkvæmt samningum sé knúið á um það. Um þetta erum við að ræða, herra forseti.