Atvinnuleysistryggingar

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 11:56:42 (3256)

2000-12-13 11:56:42# 126. lþ. 47.22 fundur 347. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (fræðslusjóðir) frv. 182/2000, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[11:56]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Nú er það alveg ljóst og skal haldið til haga að þingmenn Samfylkingarinnar styðja átakið sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Við höfum hins vegar farið yfir það hvernig starfsmenntamálum er háttað hér í landinu. Við erum ekki sátt við það hvernig á þeim hefur verið tekið. Við viljum hlut starfsmenntunar meiri en hún hefur verið. Ég er sammála hv. þm. um að öllum fjármunum, sem veitt er til starfsmenntunar, er vel varið. Við viljum gera starfsmenntun það hátt undir höfði að hún verði meiri hluti hinnar almennu menntunar í landinu, starfsmenntun og símenntun. Ég hélt satt að segja að fyrrverandi skólameistari mundi nú taka undir þá skoðun mína fremur en að vilja hafa þetta einhverja afgangsstærð inni í Atvinnuleysistryggingasjóði. Þar á að fjármagna verkefnið með höppum og glöppum. Þar á fyrst og fremst að fjármagna starfsþjálfun fyrir atvinnulaust fólk en hitt á að vera skipulegur þáttur af menntakerfi okkar og starfsmenntun okkar.

Hv. þm. segir auðvitað réttilega að í þjóðfélaginu hefur verið lögð minni áhersla á starfsmenntun en ætti að gera. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. um það en þeim mun meiri skylda hvílir á okkur hér í þessari virðulegu stofnun að halda merki starfsmenntunar á lofti og sýna það í verki, með löggjöf sem tekur skipulega á þessu, sem ég held að sé til staðar í þeirri löggjöf sem við höfum um starfsmenntun í atvinnulífinu, og ekki síður með því að stuðla að eðlilegri fjármögnun til þessa mikilvæga málaflokks. Ófaglært fólk á allt undir því komið að skipulega sé haldið á þessu máli og ekki síður atvinnulífið, herra forseti. Við þurfum auðvitað á þessu fólki að halda jafnvel þó að tækniþróunin sé nokkuð ör.