Atvinnuleysistryggingar

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 12:12:46 (3262)

2000-12-13 12:12:46# 126. lþ. 47.22 fundur 347. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (fræðslusjóðir) frv. 182/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[12:12]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. ræddi mest í síðari ræðu sinni um stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs en ég gat ekki heyrt, herra forseti, að hann svaraði þeim spurningum sem beint var til hans. Ég skal endurtaka þær án þess að orðlengja mál mitt, herra forseti.

Það sem mig fýsti að vita í ljósi þess að við höfum lög um starfsmenntun var hvort einhver nýleg úttekt lægi fyrir eða tilraun hefði verið gerð til þess að kortleggja þörfina fyrir starfsmenntun í atvinnulífinu, hve mikið væri af ófaglærðu fólki sem hefði þörf fyrir slíka starfs- eða endurmenntun og hvort því væri boðin slík starfsmenntun skipulega.

Herra forseti. Það er partur af því að við höfum heildarsýn yfir þetta mikilvæga mál sem allir eru sammála um að þurfi að taka á og partur af því að ráðist sé þá í það að skipuleggja þennan málaflokk með þeim hætti að við náum árangri og að á honum verði tekið á þann hátt að áherslur verði lagðar í samræmi við mikilvægi þess að koma á starfsmenntun fyrir ófaglært fólk.

Ég sé, herra forseti, að mér hefur verið veittur ræðutími en ekki andsvarstími og getur verið að það sé einhver misskilningur milli mín og hæstv. forseta en andsvar átti að nægja mér. En úr því að mér hefur verið boðið upp á ræðutíma þá skulum við bara hafa það þannig en ég ætla ekki að nýta hann samt sem áður.

[12:15]

Ég var fyrst og fremst að óska eftir kortlagningu á þörfinni og ef hún lægi fyrir hvort ráðherrann væri þá tilbúinn að beita sér fyrir því að nefndin sem fær málið til meðferðar fengi að skoða þá niðurstöðu. Ef ekkert liggur fyrir um þörfina fyrir starfsmenntun ófaglærðra væri ráðherrann þá tilbúinn að beita sér fyrir því að í það yrði ráðist skipulega og gerð áætlun til nokkurra ára sem tæki á þessu stóra máli sem er brýnt bæði fyrir ófaglærða og atvinnulífið í heild sinni?

Í annan stað var spurning mín til hæstv. ráðherra hvort hann teldi ekki að ætti að líta á þetta mál sem eðlilegan hluta af starfsmenntun, heildarstarfsmenntun í landinu, en starfsmenntun ófaglærðra ætti ekki að vera sett á þann bás að fara inn í Atvinnuleysistryggingasjóð og fjármagnast þar en ekki sem hluti af heildstæðri mennta- og starfsmenntastefnu í landinu.