Landmælingar og kortagerð

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 12:22:00 (3267)

2000-12-13 12:22:00# 126. lþ. 47.12 fundur 75. mál: #A landmælingar og kortagerð# (stjórn og verkefni Landmælinga Íslands) frv. 171/2000, Frsm. meiri hluta KPál
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[12:22]

Frsm. meiri hluta umhvn. (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta umhvn. um frv. til laga um breyting á lögum um landmælingar og kortagerð, nr. 95/1997, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Magnús Jóhannesson ráðuneytisstjóra, Sigríði Auði Arnardóttur og Ingimar Sigurðsson frá umhvrn., Magnús Guðmundsson frá Landmælingum Íslands og Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Umsagnir um málið bárust nefndinni frá ýmsum aðilum, m.a. frá LÍSU, samtökum um landupplýsingar á Íslandi fyrir alla.

Einnig ákvað nefndin að notast við umsagnir frá 125. löggjafarþingi en þá bárust umsagnir frá Landmælingum Íslands, Landsvirkjun, Landgræðslu ríkisins, Arkitektafélagi Íslands, Landmati, raunvísindadeild Háskóla Íslands, Náttúruverndarráði, Skipulagsstofnun, Fasteignamati ríkisins og Náttúrufræðistofnun Íslands. Einnig hafa borist nýjar umsagnir, m.a. frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og Arkitektafélaginu.

Í frv. eru lagðar fram ýmsar breytingar sem skipta máli fyrir landmælingar og kortagerð. Í fyrsta lagi er lögð fram sú breyting að stjórn yfir Landmælingum Íslands verði lögð niður. Þar hefur verið þriggja manna stjórn en samkvæmt stefnu ríkisstjórnarinnar er ekki talin ástæða til að vera með stjórnir í stofnunum heldur eigi þær að heyra beint undir ráðherra og er það talið að mörgu leyti skilvirkara.

Þetta mál kom töluvert til umræðu og sýnist sitt hverjum eins og gengur. Það kom fram að forstjóri Landmælinga taldi að stjórn gæti verið til bóta en í umræðunni hefur komið fram að í sjálfu sér banni ekkert forstjóranum að hafa tæknilega ráðgjafa sér við hlið. Við teljum því ekki að forstjóra Landmælinga Íslands þurfi neitt að skorta ráðgjöf þó svo að hann sé ekki með stjórn sér við hlið.

Ýmis verkefni eru skilgreind betur gagnvart þessari stofnun en áður var og má þar nefna ýmislegt eins og fjarkönnun, öflun, úrvinnslu og miðlun gagna á sviði loft- og gervitunglamynda, þ.e. myndatöku úr flugvélum og gervitunglum. Landmælingar eru í samvinnu við Háskóla Íslands að þróa tækni fyrir fjarkönnun og er hún talin geta nýst mjög vel, sérstaklega á sviði vöktunar, t.d. eldfjalla og margt fleira.

Einnig er verið að skerpa á skilum um skráningu og miðlun upplýsinga en Landmælingum er falið að skrá og miðla upplýsingum um landfræðileg gagnasöfn af Íslandi sem séu í eign íslenska ríkisins. Hér er samt ekki um að ræða neina yfirtöku á gögnum annarra stofnana heldur einungis miðlun upplýsinga og ekki verið að gera ráð fyrir neinni innheimtu fyrir það eða innheimtu Landmælinga fyrir aðrar stofnanir ríkisins. Slíkur upplýsingavefur er þegar kominn á netinu og heitir hann Landlýsing og hefur verið unninn í samvinnu við LÍSU eða samtök landupplýsingar á Íslandi fyrir alla. Það er því mjög góð samstaða um þetta atriði.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því að Landmælingar miðli upplýsingum um örnefni í samráði við Örnefnastofnun Íslands, ekki sé aðeins verið að kortleggja þau heldur einnig að miðla upplýsingum til almennings.

Einnig er lagt til að ráðherra setji reglugerð um vottun þeirra mælingamanna sem sjá eiga um mælingar eignamarka landa og lóða til að tryggja að þeir uppfylli ákveðnar hæfniskröfur, auk ákvæða um réttindi þeirra og skyldur og því er verið að tryggja hag þeirra sem nýta sér slíka þjónustu með þessari löggjöf.

Gjaldskrármál voru nokkuð til umræðu innan nefndarinnar. Í álitum utan úr bæ kom fram að verðlagningin gæti verið mjög há og erfið og svokölluð vigruð gögn væru það dýr að ekki væri hægt fyrir minni fyrirtæki að nýta sér þau. Því er tekið sérstaklega fram í meirihlutaáliti umhvn. að gætt verði fyllsta hófs í verðlagningu. Það hefur komið fram hjá forstjóra Landmælinga að verðlagningu á þessum kortum verði stillt í hóf eins og kostur er. Áskrifendur sem kaupa mikið hafa fengið þessi kort á mun lægra verði eða 2/3 verðs á almennum markaði. Enn frekar verður seilst til að lækka þetta þannig að öllum geti nýst. Það er reyndar staðreynd að sum fyrirtæki dreifa þessu ókeypis á netinu og verður eflaust ekki við það ráðið.

Einnig er talað um það í áliti meiri hlutans að koma þurfi upp heildrænni stefnu í aðgengi almennings að upplýsingum í eigu ríkisins að þessu leyti. Þetta hefur sérstaklega komið fram í athugasemdum stofnunarinnar sjálfrar, þ.e. Landmælinga Íslands sem hefur beðið sérstaklega um samræmda, heildræna stefnu í þessu. Þá er fyrst og fremst verið að tala um að samræma gjaldskrár stofnana ríkisins fyrir kort og upplýsingar sem gefnar eru út af stofnunum ríkisins.

[12:30]

Höfundarréttur var nokkuð til umræðu í nefndinni af þeim gögnum sem eru til. Ég held að þegar upp er staðið sé ekki neinn ágreiningur um það innan nefndarinnar enda kemur það ekki fram. Út af fyrir sig gera menn ekki ráð fyrir að verið sé að taka höfundarrétt af neinum og þeir sem eiga réttinn njóti hans áfram samkvæmt höfundarréttarlögum hvað sem líður lögum um landmælingar og kortagerð og þar með eigi ekki að þurfa að vera óvissa í þessu efni.

Herra forseti. Eins og kemur fram í lok nál. er fjallað um heildræna stefnu og hvort aðgangur eigi að vera ókeypis að upplýsingum sem hið opinbera er með. Auðvitað er það pólitísk spurning hvort Alþingi sem fjárveitingavald ákveði að setja hluta af skattfé borgaranna til þess að greiða fyrir því að slíkar upplýsingar komi rétt og án endurgjalds til allra sem vilja nota. En fram að þessu hefur þó alltaf verið talið eðlilegt að menn greiddu fyrir þá þjónustu sem þeir nýta sér. Þess vegna er ekki tekið á þessu máli, enda almennt álitið að þessi gjaldtaka sé ekki það há að hún eigi að hamla þróun og tekið er fram að menn reyni að stilla gjaldskránni í hóf og Alþingi eða ráðuneyti taki þá tillit til þess í kröfu um tekjur stofnana að þær þurfi ekki að verðleggja þjónustu sína svo hátt að ekki sé hægt að nýta hana.

Herra forseti. Í nál. er lagt til af meiri hlutanum að frv. verði samþykkt óbreytt og undir það rita Ólafur Örn Haraldsson formaður, sem er fjarstaddur, Kristján Pálsson, Ásta Möller, Gunnar Birgisson, Katrín Fjeldsted og Jónas Hallgrímsson og Kolbrún Halldórsdóttir með fyrirvara.