Landmælingar og kortagerð

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 12:32:57 (3268)

2000-12-13 12:32:57# 126. lþ. 47.12 fundur 75. mál: #A landmælingar og kortagerð# (stjórn og verkefni Landmælinga Íslands) frv. 171/2000, Frsm. minni hluta JÁ
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[12:32]

Frsm. minni hluta umhvn. (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Þó nokkrar umræður fóru fram um þetta mál við 1. umr. og snerust töluvert mikið um 1. gr. frv. sem fjallar um að leggja af stjórn stofnunarinnar. Í umfjöllun um málið var farið yfir þá tillögu og rætt við aðila, m.a. forstjóra um það atriði. Það kemur alveg skýrt fram að sú stjórn sem hefur verið yfir þessari stofnun hefur reynst mjög gagnleg.

Ég ætla ekki að lesa upphaf minnihlutaálitsins vegna þess að það er nánast samhljóða áliti meiri hlutans. Ég ætla að grípa niður í þar sem kemur að þessu fyrsta atriði, en þar segir:

,,Minni hlutinn telur að skýrt hafi komið fram í umfjöllun um málið að sú stjórn sem verið hefur yfir stofnuninni hefur verið afar gagnleg fyrir rekstur hennar og stefnumótun undanfarin ár og er þess vegna andvígur breytingunni. Aðrar breytingar sem eru lagðar til með þessu frv. eru til bóta.`` Minni hlutinn tekur undir þær og umsögn um þau atriði er samhljóða í aðalatriðum því sem hér hefur verið kynnt af hálfu meiri hlutans.

En í lok nál. minni hlutans segir:

,,Fram kom hjá umsagnaraðilum að þeir sem þurft hafa á gögnum að halda sem eru hjá stofnuninni hafi jafnvel leitað annað og nýtt sér í sumum tilvikum lélegri gögn en eru í eigu Landmælinga vegna hárrar verðlagningar stofnunarinnar. Minni hlutinn telur að verðlagning Landmælinga Íslands á gögnum sem lúta höfundarrétti ríkisins verði að vera sanngjörn og að viðskiptavinir stofnunarinnar geti nýtt sér þjónustu hennar. Minni hlutinn telur einnig álitamál að aðgangur skuli seldur að kortagrunni Landmælinga Íslands í samkeppni við aðila sem hafa ekki aðgang að sömu grunngögnum. Þetta hefur valdið því að ekki eru notuð bestu fáanleg gögn í öllum tilvikum.

Marka þarf aðgangi almennings að upplýsingum í eigu ríkisins stefnu. Við þá stefnumörkun þarf að taka afstöðu til þess hvort taka eigi gjöld fyrir slíkar upplýsingar eða hvort almenningur eigi rétt á ótakmörkuðum aðgangi að þeim sér að kostnaðarlausu. Minni hlutinn er andvígur 1. gr. frv.`` --- eins og ég sagði áðan --- ,,og mun greiða atkvæði gegn henni en styðja aðrar greinar þess.``

Til viðbótar langar mig til að vitna í bréf sem barst í hendur nefndarmanna. Það er reyndar bréf til forsrn. frá 3. febr. 1999 þar sem vinnuhópur á vegum Rannsóknarráðs með forstjórum helstu rannsóknastofnana landsins hafði fjallað um nauðsyn þess að stjórnvöld mörkuðu stefnu um aðgengi og verðlagningu opinberra rannsóknargagna og skrifaði þetta bréf til ráðuneytisins. Þar er lagt til að skipuð verði nefnd til að gera tillögur um þessi málefni. Í bréfinu eru verkefni nefndarinnar tilgreind, m.a. talað um að skilgreina þurfi opinber gögn og aðgengi að opinberum gögnum, hverjar greiðslur eigi að koma fyrir gögn og ýmis önnur atriði hvað varðar höfundarrétt o.fl. Í lok þessa bréfs segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Um þessar mundir er birt ný skýrsla frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um sama málefni og hér er til umræðu. Niðurstaðan virðist vera mjög í anda bréfsins, þ.e. um nauðsyn samræmingar, um leið og bent er á að auðvelt aðgengi að upplýsingum sé mikilvægur þáttur í þróun samfélaganna og atvinnulífsins.``

Þarna er í raun og veru verið, hæstv. forseti, að taka undir það sem þeir kalla í bréfinu ,,amerísku leiðina``, þ.e. opið og ódýrt aðgengi að gögnum almennings sem til staðar eru hjá hinu opinbera. Undir bréfið skrifa Aðalsteinn Sigurgeirsson frá Skógrækt ríkisins, Hallgrímur Jónasson frá Iðntæknistofnun, Hermann Sveinbjörnsson frá Hollustuvernd ríkisins, Hákon Ólafsson frá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Hjörleifur Einarsson frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Jóhann Sigurjónsson frá Hafrannsóknastofnun, Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Magnús Jónsson frá Veðurstofu Íslands, Sigurður Guðjónsson frá Veiðimálastofnun, Vilhjálmur Lúðvíksson frá Rannís, Þorkell Helgason frá Orkustofnun og Þorsteinn Tómasson frá RALA.

Þetta bréf er skrifað 3. febr. 1999 eins og ég sagði áðan en ekkert hefur gerst í þessu máli. Full ástæða er til að benda á að fram kom í umfjöllun um þetta mál hjá nefndinni að það er greinilega dálítið út og suður hvernig menn vilja fara með þessa hluti. Nauðsynlegt er að farið verði yfir það hvernig reglur eigi að vera um þessi gjöld og verðlagningu á þjónustu og gögnum sem eru til staðar hjá stofnunum eins og þeirri sem við erum að fjalla um.

Það er ekki einu sinni á hreinu heldur hvernig eigi að fara með höfundarrétt og aðgang að því sem gæti lotið einhvers konar verndun höfundarréttar. Ég hygg að menn séu ekki einu sinni sammála um það hvort um sé að ræða endilega höfundarrétt í öllum tilvikum. Það sem kom fram í máli hv. þm. Kristjáns Pálssonar áðan um þessi atriði er rétt, en ég vil þó bæta við það því að greinilegt er og kom fram í viðtölum við ýmsa sem komu til nefndarinnar að mönnum finnst að þessari stofnun hafi verið ýtt út í að taka hærri gjöld en hefur verið hægt að innheimta öðruvísi en ganga lengra í þessu efni en skynsamlegt og sanngjarnt er. Þess vegna er full ástæða til að fara yfir þessa hluti og nauðsynlegt að tryggja að það verði gert sem allra fyrst.

Mér er ekki grunlaust um það að sú krafa sem er gerð í fjárlögum nú á stofnunina til að innheimta gjöld setji hana í þann vanda að keyra þessa stefnu þannig áfram með sama hætti og gert hefur verið að menn séu þá að greiða allt of há gjöld og það verði til þess að þeir leiti eftir gögnum annars staðar frá sem séu ekki jafngóð. Þetta kom fram í umfjöllun nefndarinnar og fullyrðingar komu fram um það að dæmi væru til þess að stofnunin hefði verið að innheimta gjöld fyrir gögn sem hún hefur undir höndum sem væru svo há að heildarkostnaður næðist inn ef einungis fjórir, fimm aðilar fengjust til að borga gögnin.

Þetta er auðvitað ekki nógu gott og síðan er náttúrlega algjörlega óviðunandi ef bestu gögn sem til staðar eru um landmælingar og kortagerð, eins og hér er verið að ræða um, og þessi grunnur er ekki til staðar hjá annarri stofnun en þessari, ef þau gögn eru ekki nýtt í öllum tilfellum vegna þess að menn telja sig bara ekki hafa efni á því. Það verður til þess að farið verður að byggja jafnvel upp einhverja kortagrunna annars staðar sem byggja á verri grunngögnum til að hægt sé að hafa aðgang að ódýrari leiðum í þessu efni.

Þetta vildi ég segja. Mér finnst þetta vera kannski það sem er aðaláhyggjuefnið við lokin á þessu máli. Ég geri ráð fyrir að þegar búið verði að afgreiða málið hér, ef tillaga meiri hlutans um að 1. gr. verði samþykkt eða frv. óbreytt, munum við sitja hjá við afgreiðslu málsins í lokin. Ég vil að það komi skýrt fram að ég tel að full ástæða sé til að framhald verði á þessari vinnu og að kallað verði eftir stefnumörkun sem sárlega vantar hvað varðar geymslu gagna, umfjöllun um þessi mál og verðlagningu og með það í huga að sem allra frjálsastur aðgangur verði að slíkum gögnum og það hamli ekki stofnunum og verði ekki til þess að menn byggi upp kannski margfalda kortagrunna eða upplýsingabanka úti um allt.