Landmælingar og kortagerð

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 12:43:33 (3269)

2000-12-13 12:43:33# 126. lþ. 47.12 fundur 75. mál: #A landmælingar og kortagerð# (stjórn og verkefni Landmælinga Íslands) frv. 171/2000, Frsm. meiri hluta KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[12:43]

Frsm. meiri hluta umhvn. (Kristján Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þarf ekki langt andsvar við hv. þm. Jóhann Ársælsson út af þessu máli. Minni hlutinn er í grundvallaratriðum sammála meiri hlutanum í afgreiðslu málsins nema þá gagnvart stjórninni. Ég tek alveg undir að nauðsynlegt er að gjaldtaka sé skynsamleg og sanngjörn fyrir þá þjónustu sem Landmælingar veita eins og á sviði gagnaupplýsinga. Ég talaði sérstaklega um þetta við forstjóra Landmælinga í morgun og hann sagði að unnið væri mjög hart að því að reyna að endurskoða gjaldskrána á þeim vigruðu kortum sem hafa verið mjög dýr, og til þess að mæta gagnrýni. Ég held að bæði meiri og minni hluti hafi verið með þau viðvörunarorð að fara varlega í gjaldtökunni þannig að ekki sé verið að ýta mönnum út í ódýrari lausnir sem jafnvel gagnast ekki nægilega vel. Ég held því að skoðanir okkar á málinu fari saman.

Varðandi stjórnina er spurningin einfaldlega þessi: Er nauðsynlegt að hafa stjórn yfir slíkri stofnun eða ekki? Telja stjórnvöld það nauðsynlegt, sem hafa lögsögu yfir starfseminni? Í þessu tilfelli telur ráðherra ekki ástæðu til að vera með stjórn og meiri hlutinn tekur undir það. En auðvitað má finna rök fyrir öllu og eins því að það megi vera stjórn, en eins og ég sagði í upphafsræðu minni er ekkert sem bannar forstjóra að hafa ráðgjafa sína sér við hlið og það veit sá ágæti maður.