Landmælingar og kortagerð

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 12:49:42 (3272)

2000-12-13 12:49:42# 126. lþ. 47.12 fundur 75. mál: #A landmælingar og kortagerð# (stjórn og verkefni Landmælinga Íslands) frv. 171/2000, Frsm. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[12:49]

Frsm. minni hluta umhvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst afskaplega undarlegt að sækja sér rök í að illa hafi gengið hjá öðrum stofnunum til að leggja niður stjórn sem hefur staðið sig vel og fær jákvæða umsögn hjá öllum sem um hana fjalla. Mér finnst engin ástæða til þess að leggja hana af og leggst gegn því.

Ég ætla hins vegar ekki að fara að endurtaka umræðuna um það hvort hafa eigi stjórnir í svona stofnunum eða ekki. Við ræddum um það við 1. umr. málsins og ég geri ekki ráð fyrir að við bætum miklu þar við. Ég vil bæta því við að lokum að mér finnst full ástæða til að fara betur yfir sum þau málefni sem þarna var fjallað um, m.a. þetta með kortagrunninn og höfundarrétt stofnunarinnar eða ríkisins á þeim grunni.

Ég tel einnig að fjalla eigi nánar um hvernig fara á með þessi gögn. Ég lít svo á að langeðlilegast sé, þó ekki sé nema vegna þess hvernig þau komu til, fyrir ekki neitt frá annarri þjóð, að landsmenn hafi sem bestan aðgang að þessu og einungis fyrir þjónustugjöld, ekki meira. Það á ekki að notfæra sér aðstöðu sem þannig varð til til að sinna fjárþörf stofnunarinnar eins og hefur greinilega verið tilhneiging til fram að þessu.