Umgengni um nytjastofna sjávar

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 14:08:52 (3282)

2000-12-13 14:08:52# 126. lþ. 47.14 fundur 119. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast) frv. 161/2000, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[14:08]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég skrifaði undir þetta nál. með fyrirvara og ætla að gera grein fyrir honum í fáeinum orðum.

Það kom reyndar fram við 1. umr. málsins að menn höfðu mismunandi skoðanir á þeirri viðbót sem þarna stendur til að setja í lög til að reyna að koma í veg fyrir eða draga úr brottkasti og slæmum umgangi um miðin. Auðvitað er mat manna misjafnt á því hvaða áhrif tillögur eins og þessar hafi. Ég tel reyndar að í meðferð nefndarinnar hafi verið gerðar skynsamlegar breytingar á tillögunni frá því sem hún var. Ég tel það til bóta og það sem menn ætla sér með henni betur framkvæmanlegt.

Ég skrifa undir nál. með fyrirvara vegna þess að þó ég sé fylgjandi auknu eftirliti með því að þeim reglum sem settar hafa verið sé fylgt þá hef ég því miður litla trú á að afgerandi breyting verði á þeim vandamálum sem menn eru að glíma við með því að auka eftirlitið með þessum hætti. Ég held að það sem vantar til að fá þau umskipti sé að reglurnar séu þannig að mönnum verði ekki refsað fyrir að koma með fisk að landi og að menn sjái ekki hag í að fleygja aftur í sjóinn því sem kemur upp í veiðarfærin. Það er allt saman til staðar áfram og hefur ekki verið tekið á því með neinum hætti.

Við höfum áður kynnt hér tillögur um þetta efni. Það hefur margkomið fram, m.a. hjá hv. þm. sem hafa verið og eru í sjútvn., að aðrar leiðir séu vænlegri til skoðunar, fleiri en þær sem hér er stungið upp á. Ég minni á að hér hafa ítrekað verið fluttar tillögur í þá átt að í það minnsta skuli gerð ærleg könnun á því hversu mikið brottkastið er með því að leyfa löndun afla utan kvóta um tiltekinn tíma eftir sérstökum reglum. Sú umræða hefur hvað eftir annað verið vakin upp í hv. sjútvn., að kanna hvort þessi leið sé vænleg og hvaða vandkvæði séu á því að fara hana. Ég vil minna á þetta hér vegna þess að ég tel því miður að brottkast og slæm umgengni um miðin verði áfram til staðar þó að þetta frv. verði samþykkt.

Ég er hins vegar tilbúinn að fylgja þessu máli og samþykkja það. Þeir sem hafa þetta eftirlit með höndum telja að þeir gert betur með því að fá þær heimildir sem veittar yrðu með þessu frv. Það er engin ástæða til annars en að láta reyna á hvað geti komið út úr því.

Það skulu vera mín lokaorð um þetta mál. Ég ætla ekki að hafa um það langar ræður. Við ræddum þetta töluvert við 1. umr. Þó að ég hafi ekki trú á að þetta gefi mikið þá vonast ég til að menn ræði frekar hugmyndina um að leyfa löndun afla utan kvóta, fari yfir hana í hv. sjútvn. og athugi hvort ekki sé hægt að ná saman um einhverjar tillögur í því efni. Slíkt mundi þó færa okkur heim sanninn um hvað er að gerast á miðunum. Þar með gætu menn hætt að þræta um það. Ég stórefast um það fyrir fram að tilraunir manna núna til að komast að því hversu mikið brottkastið er muni færa okkur nokkuð nær sannleikanum en við erum nú þegar. Það eina sem gæti svipt hulunni af þessu, þannig að menn væru nokkuð vissir um það sem væri að gerast á miðunum, er að fara þá leið sem margoft hefur verið lögð til og ég hef nefnt hér, að leyfa löndun utan kvóta um tiltekinn tíma með tilteknum reglum sem væru sniðnar þannig að menn gætu ekki haft af því neinn hagnað að koma með umframaflann að landi, þeir yrðu ekki fyrir skaða og sæju sér ekki hag í því að fleygja fiski í sjóinn aftur.